SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir20. ágúst 2020

EN TÍMINN SKUNDAÐI BURT...Um Guðrúnu Lárusdóttur

 

Guðrún Lárusdóttir með ömmubarn (1934)

Guðrún Lárusdóttir með ömmubarn sitt, Guðrúnu Helgu Lárusdóttur (1934)

 

Út er komin saga Guðrúnar Lárusdóttur, rithöfundar og alþingismanns (1880-1938) eftir Málfríði Finnbogadóttur. Guðrún fæddist á Reyðarfirði en flutti til Reykjavíkur 1899 og bjó þar til dauðadags, lengst af á Sólvallagötu 23.

Snemma beygðist krókur hjá Guðrúnu, sem ólst upp við góð efni og fékk að mennta sig. Fimmtán ára hóf hún útgáfu handskrifaðs blaðs sem hún nefndi Mínervu og hafa nokkur eintök varðveist og eru geymd á Þjóðarbókhlöðu Ef einhver lumar á Mínervu-eintaki væri gott að láta Handritadeild Lbs. vita af þeirri gersemi.

Bók Málfríðar, En tíminn skundaði burt..., hefst á harmafregn sem hálflamaði þjóðina alla. Guðrún og dætur hennar tvær drukknuðu í Tungufljóti þegar bifreið sem þær voru farþegar í fór út af veginum. Þetta er eitt fyrsta og alvarlegasta bílslys Íslandssögunnar.

Guðrún var fyrst kvenna til að hljóta kosningu á þing í almennum alþingiskosningum. Eftir andlát hennar var engin kona kjörin, þar til árið 1946.

Guðrún Lárusdóttir var afkastamikill rithöfundur. Líklega hefur það létt undir með henni að hún hafði alltaf vinnukonur, eins og algengt var á efnaheimilum á þessum tíma. Söguefni hennar eru nátengd lífsskoðunum hennar og skipa trúmál og bindindismál stóran sess. Söguhetjurnar eru gjarnan úr hópi þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu, fátæklingar og drykkjumenn.

Guðrún hefur djúpa samúð með lítilmagnanum en boðskapur hennar um lausn á vanda fátæklinganna er einfaldur, trúin á Guð leysi flestan vanda, með aðstoð góðhjartaðra manna. Hún setur kjör fátæklinga ekki í pólitískt eða félagslegt samhengi í skáldverkum sínum. Það er þó ljóst að í daglega lífinu hafði Guðrún meiri yfirsýn en fram kemur í verkum hennar, til að mynda barðist hún fyrir stofnun heimila fyrir drykkjumenn og fyrir þroskahefta, auk þess sem hún beitti sér fyrir aukinni aðstoð við fátæka. Víða má sjá feminísk sjónarmið um hlutskipti kvenna í skáldskap Guðrúnar.

 

 

Tengt efni