SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir18. nóvember 2020

AÐ LOKNUM KÓFEMBER HEFST LESEMBER: Þakkarræða Gerðar Kristnýjar

Gerður Kristný var svo væn að gefa Skáld.is leyfi til að birta þakkarræðuna sem hún flutti þegar hún tók á móti Verðlaunum Jónasar Hallgrímssonar, á degi íslenskrar tungu. Í ræðunni, sem lesa má hér fyrir neðan, talar Gerður Kristný meðal annars um stórkostlega nýyrðasmíð Jónasar og einnig koma þar fyrir skemmtileg nýyrði Gerðar Kristnýjar sjálfrar sem notuð eru hér í fyrirsögninni.

Menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, og aðrir viðstaddir! Ég þakka kærlega þann heiður sem mér er hér sýndur. Það er engu líkt að hljóta verðlaun kennd við sjálfan Jónas Hallgrímsson. Ljóðin hans hafa fylgt mér síðan í barnaskóla þar sem ég lærði til dæmis „Ísland“ utan að og þuldi kvæðið upp þar sem ég stóð fyrir aftan stólinn minn. Þannig fluttu börn ljóð á 8. áratugnum. Ég fann áhrif orðanna, hrynjandina og þegar við vorum beðin um að myndskreyta ljóðin gat ég séð með eigin augum myndirnar sem skáldin brugðu upp.

Löngu síðar fékk ég tækifæri til að dvelja nokkur sumur viku í senn að Hrauni í Öxnadal ásamt eiginmanni og sonum. Þetta er með ævintýralegustu stöðum á landinu. Dökkir drangarnir teygja sig upp í himininn og kyrrðin er djúp. Bak við minnið býr síðan sú vitneskja að hérna hafi Jónas verið þegar hann var lítill drengur áður en hann fluttist að Steinsstöðum. Í Öxnadal velti hann sér í grasinu og hjalaði við hund og kött.

Nýyrðunum sem Jónas átti heiðurinn af var gert hátt undir höfði að Hrauni, mörgæs, baksund, himingeimur ... Ef ekki eru til orð þarf bara að búa þau til og við þurfum ekki að vera með gilt skáldaskírteini til að leika okkur með tungumálið. Gott að minna á það nú í miðjum kóvember.

Ég er eitt þeirra fjölmörgu skálda sem ort hefur til Jónasar. Dr. Alda Björk Valdimarsdóttir, skáld og bókmenntafræðingur, skrifaði um Jónasarljóðin í greininni „Skáldin og Jónas“ fyrir Lesbók Morgunblaðsins þegar 200 ár voru liðin frá fæðingu hans. Þar benti hún á að það óvenjulegasta við sterka stöðu Jónasar í íslenskri ljóðagerð væri sú að skáldin sem yrkja til hans virðast ekki finna til vanmáttarkenndar frammi fyrir honum. Hann er ekki lamandi kraftur.

Skáld sem orti jafn blíðlega um ástina og öll þau undur og átök sem búa í náttúrunni vekur engan ótta. Tökum „Heiðlóarkvæði“ sem dæmi. Þar gefur Jónas smávöxnum vaðfugli mál og hefur vafalítið haft áhrif á hvaða augum þjóðin lítur þennan fallega fugl. Okkur finnst að minnsta kosti alltaf mikil tíðindi þegar fyrst sést til lóunnar á vorin, undur sem endar jafnan á forsíðum blaðanna.

Við lestur ljóðsins gæti mann rennt í grun að Jónas hefði sótt ráð úr þjóðsögum Jóns Árnasonar til þeirra sem vilja skilja fuglamál. Þeim er bent á að verða sér úti um smyrilstungu, sem fæst örugglega í hvaða kjötborði sem er, og láta hana liggja í hunangi tvo daga og þrjár nætur. Síðan er hún lögð undir tungurætur og þá er ekki að sökum að spyrja, fuglamál lýkst upp fyrir fólki.

Jónas er alltaf sami ljúflingurinn í huga Íslendinga, náttúruunnandinn sem fylgist með kroppi rjúpunnar eða hlustar á dirrindí lóunnar. Í ljóðunum sínum býður hann okkur sæti við hlið sér í fífilbrekkunni og bendir okkur á töfra náttúrunnar. Bara ef við bælum ekki grösin eða fælum fugl af hreiðri.

Jónas beislaði líka ljóðlistina þegar honum fannst ástæða til að leiða fegurð landsins og menningu okkar fyrir sjónir Íslendinga. Við áttum líka tungumál, dýrmæti sem ber að vernda. Ef nýta má hæfileika sína til að gefa þeim rödd sem enga hafa, hvort sem er að ræða lóu eða puntstrá, ætti enginn að skirrast við það.

Nú er jólabókaflóðið hafið og styttist í lesember – viðburður sem gleður okkur bókaþjóðina yfir myrkasta árstímann. Bækur eru ljós í heimskautamyrkrinu. Mig langar til að nýta þessa stund til að þakka fyrir þá blómlegu bókaútgáfu sem ég hef alltaf notið góðs af. Áhugi minn á orðinu spratt af síðum bóka. Ég á enn Skólaljóðin mín, bókina sem vakti áhuga minn á ljóðum, og bækur hef ég alltaf haft í seilingarfjarlægð.

Hér hefur okkur tekist að byggja upp samfélag þar sem skapandi fólk fær að blómstra. Fyrir það er ég þakklát, eins og Kolbeinn kafteinn hefði orðað það, „frá stefni aftur í skut“.

Á íslensku nær sama sögnin yfir „að starfa“ og „að sigra“. Á hverjum degi vinn ég en í dag ef til vill eilítið meira en venjulega. Eins og feðurnir frægu í Íslandsljóðinu „uni ég glöð við mitt“.

Takk kærlega fyrir!

Myndin er tekin af vef Stjórnarráðsins.