SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir27. október 2017

„BRÖLT MANNESKJUNNAR Í VERÖLDINNI.“ Um verk Fríðu Á. Sigurðardóttur.

Í lok verðlaunaskáldsögunnar Meðan nóttin líður (1990) spyr aðalpersóna sögunnar, Nína, sjálfa sig: „Hvað verður nú um mig?“ Þessi spurning hefur að sögn Fríðu Á. Sigurðardóttur að geyma kjarnann í verkum hennar:

En sannarlega snýst allt heila málið um þessa spurningu í einni eða annarri mynd. Erum við tilbúin til að taka ábyrgð á eigin lífi í öllu ruglinu? Þorum við að vera við sjálf í þessum undarlega heimi sem við lifum í? Göngum við til leiks sofandi eða vakandi? Í raun og veru hef ég alltaf verið að skrifa um það sama, spyrja sömu spurninganna. Leita svaranna í ólíkum viðfangsefnum. „Annaðhvort étur kötturinn fuglinn, eða fuglinn étur köttinn.“1

Hið siðferðislega inntak sem Fríða bendir hér sjálf á sem kjarnann í verkum sínum hefur vissulega verið til staðar allt frá því að hún gaf út sitt fyrsta skáldverk fyrir rúmum aldarfjórðungi – og hún hefur haldið áfram að vinna með sömu spurningar í þeim verkum sem hún hefur sent frá sér síðan hún mælti þessi orð í viðtali árið 1991.

Athyglisvert er að eftir tímabilið sem kennt er við nýraunsæi í íslenskum bókmenntum (upp úr 1968) fer að gæta þó nokkurrar tómhyggju í nýjum íslenskum skáldsögum. Hér er ég að vísa til verka eftir ýmsa höfunda sem fram koma á áttunda og níunda áratugnum. Á þessum tíma þótti ekki fínt að vera „móralskur“ í skáldskap, viðmið urðu „bókmenntaleg“ fremur en „siðferðisleg“ og kastljósinu var beint að „frásagnargleði, fjöri og fantasíu.“ Hér er líklega um ofur skiljanleg viðbrögð við boðskapshlöðnum nýraunsæisverkum að ræða. En samhliða þessari þróun átti sér engu að síður stað annars konar þróun á sviði íslenskrar sagnagerðar þótt hún væri ekki eins áberandi í þeirri umræðu um bókmenntir sem góðu heilli er stöðugt í gangi á Íslandi. Hér er um að ræða rithöfunda sem virðast hafna tómhyggjunni eindregið og víkja sér ekki undan því að spyrja áleitinna og alvarlegra spurninga um ábyrgð þess að vera manneskja, án þess þó að verið sé að reka ákveðinn boðskap niður í kok á lesanda. Hér mætti – auk Fríðu Á. Sigurðardóttur – nefna höfunda á borð við Álfrúnu Gunnlaugsdóttur, Birgi Sigurðsson, Guðmund Andra Thorsson, Ólaf Gunnarsson, Ólaf Jóhann Ólafsson og Vigdísi Grímsdóttur. Nokkuð lýsandi fyrir andrúmsloftið í þeirri umræðu sem ríkti á áttunda og níunda áratugnum er að þessum höfundum var helst legið á hálsi fyrir að vera ekki nógu fyndnir – þótt gildi verka þeirra væru sjaldan dregin í efa.

Fríða Á. Sigurðardóttir kom fyrst fram sem höfundur árið 1980 og ekki eingöngu sem höfundur smásagnasafnsins Þetta er ekkert alvarlegt heldur einnig fræðiritsins Leikrit Jökuls Jakobssonar sem byggt var á cand. mag. ritgerð hennar í íslenskum bókmenntum og gefið út í ritröðinni Studia Islandica (nr. 38). Bæði verkin fengu prýðisdóma og þótti sýnt að af höfundi þeirra mætti vænta mikils í framtíðinni. Fræðistörfunum hefur Fríða þó ekki fylgt eftir (ef frá eru taldir nokkrir ritdómar sem hún er höfundur að) en ferill hennar á skáldskaparsviðinu hefur verið óslitinn og óhætt að fullyrða að þar hafi hún haft erindi sem erfiði.

 

Lífsuppgjör

Margir eru á þeirri skoðun að í fyrsta verki hvers höfundar megi sjá vísi að þeim verkum sem viðkomandi höfundur skrifar síðar; jafnvel að greina megi kjarna alls höfundarverksins í frumrauninni. Gaman er að máta þessa „kenningu“ á Fríðu Á. Sigurðardóttur. Vel má halda því fram að í smásögunum níu sem Þetta er ekkert alvarlegt hefur að geyma megi þegar sjá þau söguefni sem hún átti síðar eftir að gera dýpri skil í skáldsögunum. Titillinn er að sjálfsögðu írónískur því í smásögunum níu tekur Fríða einmitt fyrir „grafalvarleg“ málefni, svo sem lífsfirringu, óhamingju, kynjamisrétti, fátækt og þunglyndi, svo fátt eitt sé nefnt. Kannski má í titlinum sjá íróníska skírskotun til þess andrúmslofts sem gætti í bókmenntaumræðunni í upphafi níunda áratugsins og vikið var að hér að ofan.

Í stuttri umsögn um Þetta er ekkert alvarlegt eftir Þorleif Hauksson segir hann að megininntak margra sagnanna sé „einhvers konar lífsuppgjör“. Hann bendir einnig á að „annað sameiginlegt einkenni [sagnanna sé] raunsæislegur frásagnarháttur sem höfundur fer kunnáttusamlega með“. Undir lok umsagnarinnar segir Þorleifur enn fremur: „Eins eru örfá hliðarhopp út fyrir raunsæisrammann forvitnileg, […] og gefa fyrirheit um að höfundur eigi þar ónumin lönd.“2 Óhætt er að fullyrða að lífsuppgjörið sé það grundvallarmunstur sem greina má í öllum síðari verkum Fríðu ekki síður en í sögum fyrsta smásagnasafnsins. Hér ætti að nægja að minna á Meðan nóttin líður þar sem aðalpersónan situr við dánarbeð móður sinnar og rifjar upp sögu nokkurra formæðra sinna um leið og hún gerir upp – nauðug viljug – sitt eigið líf; eða þá lífsuppgjör Tómasar Jóhannssonar sem er efniviðurinn í skáldsögunni Í luktum heimi (1994). Þá hygg ég að sú þróun sem einna athyglisverðust er þegar litið er á höfundarverk Fríðu Á. Sigurðardóttur í heild séu einmitt tilraunir hennar með frásagnarhátt raunsæis og þau „hliðarhopp“ sem unnt er að taka innan slíks frásagnarramma. Þótt raunsæið sé ætíð það viðmið sem Fríða virðist vinna út frá sprengja sögur hennar sífellt hið „hefðbundna raunsæi“ með því sífellda samspili innra lífs og ytri veruleika sem texti Fríðu lýsir, svo og því hvernig hún leysir upp mörk tíma og rúms í frásögnum sínum. Í áður nefndri umsögn Þorleifs Haukssonar um Þetta er ekkert alvarlegt segir hann að út úr ýmsum sagnanna megi lesa „ævisögur“ persónanna í hnotskurn; í stuttum og samþjöppuðum texta hverrar smásögu leynist saga af heilli ævi ef grannt er skoðað. Skáldsögum Fríðu, sem þegar þetta er skrifað eru orðnar fimm talsins3 mætti þá allt eins lýsa sem ítarlegri „ævisögum“ sem sagðar eru út frá sjónarhóli aðalpersóna sem standa á tímamótum í lífi sínu, horfa til baka og reyna að skoða líf sitt í heild.

Valdið

Í skáldsögunni Sólin og skugginn (1981) heldur Fríða sig að mestu leyti innan ramma félagslegs og sálfræðilegs raunsæis (með áherslu á það síðarnefnda). Í textanum má sjá átök á milli raunsæislegs frásagnarháttar og ljóðræns frásagnarháttar en ljóðrænan átti eftir að ná yfirhöndinni í síðari verkum Fríðu. Sólin og skugginn fjallar um sjúkrahúsvist Sigrúnar Björnsdóttur sem þjáist af ýmsum sjúkdómseinkennum sem læknarnir eiga erfitt með að festa hönd á og hallast því helst að því að um taugaveiklun (hysteríu) sé að ræða – jafnvel þótt upphaf einkennanna megi rekja til slyss. Hér er fjallað um árekstra milli einstaklinga og kerfis, sjúklinga og lækna, kvenna og karla, draums og veruleika, hugrekkis og ótta, lífsvilja og uppgjafar, og þannig mætti lengi telja. Andstæðan sem sagan sækir titil sinn til, sólin og skugginn, gefur tóninn fyrir allar þær andstæður sem gegnsýra texta hennar frá upphafi til enda. Hið afmarkaða sögusvið bókarinnar, sjúkrahúsið, er heimur út af fyrir sig sem kemur Sigrúnu ókunnuglega fyrir sjónir í fyrstu en hún lærir smám saman á þau lögmál sem þar ríkja og áttar sig á samsvörunum við hið stærra samfélag utan dyra sjúkrahússins. Sigrún fer heim aftur án þess þó að fá bót meina sinna en hún hefur gengið í gegnum reynslu sem hún hefði ekki viljað vera án. Sjálf hefur Fríða bent á að hún sé að vinna með hugtakið vald í þessari sögu4 og vitaskuld kristallast valdaójafnvægið best í sambandi sjúklings og læknis þar sem sá fyrrnefndi er svo að segja ofurseldur þeim síðarnefnda sem í krafti menntunar sinnar og stöðu hefur öll „ráð“ í hendi sér, hvað sem sjúklingnum kann að finnast um sjúkdómsgreiningar hans og aðferðir til „lækninga“. Þetta fær Sigrún að reyna þegar læknarnir skilgreina hana sem „hysteríska“ (alþekkt skilgreining lækna á vandamálum miðaldra kvenna) og hún gerir sér grein fyrir að valdamisvægið sem hún upplifir innan veggja sjúkrahússins endurspeglar samfélagið utan dyra, enda líkir hún sjúkrahúsinu við „risakolkrabba“ og er sú samlíking varla út í bláinn.

 

Ástin

Í næstu skáldsögu Fríðu, Eins og hafið (1986), má einnig finna „samfélag í samfélaginu“ en í miðju frásagnarinnar stendur gamalt timburhús sem staðsett er í litlu sjávarþorpi og er húsið sá grunnur sem allar stoðir sögunnar rísa upp af. Gaman er að bera saman Eins og hafið og Dægurvísu (1965) eftir Jakobínu Sigurðardóttur (systur Fríðu) en augljós tengsl eru á milli þessara tveggja skáldsagna (önnur en blóðtengsl höfundanna). Báðar skáldsögurnar eru svokallaðar hópsögur (kollektívar skáldsögur) þar sem hópur persóna er í aðalhlutverki fremur en ein tiltekin aðalpersóna og í báðum er það tiltekið hús og íbúar þess sem mynda þann öxul sem frásögnin snýst um.

Eins og hafið segir sögu tólf persóna sem búa í gamla niðurnídda húsinu sem til stendur að rífa svo að byggja megi hótel eða bensínstöð á lóðinni. Þetta er fólk á öllum aldri, sem er eins misjafnt og það er margt, en þó er það eitt afl sem knýr flesta áfram í hinu mannlega brölti – og það er ástin. Það er ástin sem titill bókarinnar vísar í: „…hún er eins og eldingin, eins og hafið, óskiljanleg og leyndardómsfull, […] hún gefur engin grið, enga undankomu, því hún er bálið, eldurinn sem lífið brennur í; og sá sem hefur gengið í gegnum bálið verður aldrei samur aftur“ (95). Fríða kannar í þessari sögu innviði ástarinnar í öllum hennar margbreytilegu myndum, sigrum jafnt sem ósigrum. Og um leið og hún spinnur þessar fjölbreytilegu ástarsögur byggir hún upp mynd af heilu þorpi á afar sannfærandi hátt. Þótt fyrri verkum Fríðu Á. Sigurðardóttur hafi öllum verið vel tekið hygg ég að óhætt sé að segja að með þessari skáldsögu hafi hún fyrst tryggt sér sess í röð fremstu og athyglisverðustu samtímahöfunda á Íslandi. Það er í Eins og hafið sem hinn ljóðræni stíll Fríðu springur út fullþroskaður. Fríða hefur í þessari bók náð meistaratökum á persónulegum, áhrifaríkum stíl sem síðan hefur verið eitt af hennar aðalsmerkjum.

Minnið og tíminn

Með skáldsögunni Meðan nóttin líður (1990) verða ákveðin kaflaskipti í höfundarverki Fríðu Á. Sigurðardóttur. Vel má halda því fram að sú skáldsaga og þær tvær sem fylgdu í kjölfarið, Í luktum heimi (1994) og Maríuglugginn (1998), myndi sterkari innbyrðis tengsl en önnur verk Fríðu. Þematískar samsvaranir með þessum þremur skáldsögum eru svo sterkar að beinast liggur við að álykta að höfundur hafi hugsað sér þessa skáldsagnaþrennu sem eina heild, sem trílógíu um merkingu fortíðarinnar fyrir nútímann. Efniviður allra þessara verka tengist tímanum og minninu, þessum hálu og svikulu hugtökum sem svo aftur tengjast orðunum, eða skáldskapnum, á ýmsan ísmeygilegan máta. Þetta er sá kjarni sem leynist með öllum þessum þremur skáldsögum og fleiri samsvaranir tengdar þessum kjarna spretta fram. Allar fjalla þær um fólk í kreppu. Fólk sem komið er að nokkurs konar vatnaskilum í lífi sínu, fólk sem þráir meira en líf þeirra býður upp á. Þau Nína (Meðan nóttin líður), Tómas (Í luktum heimi), Hildur og Páll (Maríuglugginn) þjást vegna tilgangsleysi tilveru sinnar. Þau eru hvert á sinn hátt á villigötum, full efa og ótta og leita merkingar í fortíð sinni og sögu í þeirri von að geta gætt framtíðina þeirri hamingju sem líf þeirra í nútíðinni skortir.

Þrátt fyrir sterkar samsvaranir eru þessar þrjár skáldsögur þó ólíkar innbyrðis hvað varðar sögufléttu og persónusköpun. Þó er það sama spurningin: „Hver er ég?“, sem knýr þau öll áfram í því uppgjöri sem þau öll eiga í, enda hlýtur þessi spurning að búa að baki alls lífsuppgjörs í hvaða mynd sem það er. Ef til vill mætti einnig segja að hver þessara þriggja skáldsagna myndi ákveðið tilbrigði við sama stef þó að hver þeirra sé sterk sjálfstæð eining. Meðan nóttin líður er saga fjögurra kynslóða kvenna, þetta er saga sem leggur áherslu á líf kvenna, kvenleg gildi, kvenlega samstöðu og sundrung. Frásögnin hverfist um Nínu sem er nútímakona í vanda sem reynir að skilja líf sitt með því að skoða brot úr sögu móður sinnar, ömmu og langömmu meðan hún situr við dánarbeð þeirrar fyrstnefndu. Í luktum heimi er hins vegar karlasaga. Í miðju frásagnarinnar er Tómas, miðaldra karlmaður í slæmri tilvistarkreppu og í brennipunkti minninganna eru samskipti hans við bróður sinn og föður. Í Maríuglugganum er það parið Hildur og Páll sem verða að skoða fortíðina til að átta sig á nútíðinni, raða saman fortíðarbrotum til að heildarsýn fáist og þau geti ráðið í framtíðina. Ótal tilvísanir til hins fræga verks Marcel Proust Í leit að glötuðum tíma er að finna í Maríuglugganum og undirstrika þær þann þematíska grunn sem Fríða er að vinna með í öllum þessum þremur skáldverkum.

Andráin

 

En hver svo sem útkoman er held ég áfram að skrifa um heiminn sem við lifum í af því að mér finnst ég hafa ýmislegt um hann að segja. Mér hefur alltaf þótt brölt manneskjunnar í veröldinni athyglisvert. Og andráin mikilvægust, þessi andrá sem við tökum varla eftir.5

 

Fríða Á. Sigurðardóttir hóf feril sinn með smásögum og hefur sent frá sér þrjú smásagnasöfn, Þetta er ekkert alvarlegt (1980, sem fjallað er um í byrjun þessarar greinar), Við gluggann (1984) og Sumarblús (2000). Smásögur Fríðu eru allar gæddar þeim eiginleika að þegja yfir meiru en þær segja: með öðrum orðum þá er það í djúpgerð textans sem merkingin býr fremur en á yfirborði hans. Rannveig G. Ágústsdóttir orðaði það þannig í grein í Skírni að Fríða: „ [skrifi] fyrir djúplestur. Það er nógu gaman að synda á yfirborði textans, en hann er líka jafnmikill á dýptina. Til þess að finna hvað þar er verður lesandi að kafa í undirdjúpin.“6 Hér er Rannveig að fjalla um tvær tilteknar sögur í Þetta er ekkert alvarlegt en ég tel að þessi orð geti vel átt við allar sögur Fríðu (bæði smásögur og skáldsögur) og lýsi raunar einu aðalsmerki hennar sem höfundar. Vitanlega er þetta þó sérstaklega mikilvægur kostur á smásögu þar sem formið krefst hnitmiðunar og samþjöppunar.

Í öðru smásagnasafninu, Við gluggann, er það grimmdin sem er það stef sem hljómar í flestum sögunum, sem hér eru níu talsins, enda hefst fyrsta sagan á herópi fylgismanna Hitler: „Sieg heil“. Grimmdin birtist í ýmsum gervum í sögunum en ekki síst í samskiptum karls og konu, hvort sem þar er um að ræða daglegt samskiptamunstur hjóna eða þá nauðgun, eins og lýst er í sögunni „Dagrenning“. Eins og segir í tilvitnuninni hér að ofan þá er það margvíslegt brölt manneskjunnar í veröldinni sem er efniviður sagna Fríðu og í hverri sögu grípur hún andrána, stutt andartak í samskiptum fólks sem getur breytt öllu – jafnvel þótt það sé óðara liðið. Flestar smásögur Fríðu lýsa slíku andartaki, einu atviki, sem lætur kannski lítið yfir sér en vísar ætíð langt út fyrir sig. Þetta á einnig við sögurnar í síðasta smásagnasafninu Sumarblús en hér er mun léttara yfir sögunum en í Við gluggann enda er það sumarið og sólin sem mynda aðalstef bókarinnar. Titillinn bendir okkur að sjálfsögðu á þetta stef en þó ber að hafa í huga að hann vísar í tvær áttir því blúsinn er fyrst og fremst tónlist trega og söknuðar. Þessi titill minnir að sjálfsögðu á titil fyrstu skáldsögu Fríðu, Sólin og skugginn, og eins og í þeirri sögu eru hér andstæður ljóss og myrkurs gegnumgangandi og oft listilega ofnar saman í einni og sömu sögunni. Í þeim sex sögum sem er að finna í Sumarblús ítrekar Fríða enn og aftur að hún treystir lesandanum til að skynja djúpið á bak við knappan en margræðan texta sinn.

Eftirmálsgreinar

  1. „Annaðhvort étur kötturinn fuglinn, eða fuglinn étur köttinn.“Vigdís Grímsdóttir ræðir við Fríðu Á. Sigurðardóttur 1. hefti 1991, bls. 15.

  2. Þorleifur Hauksson. „Aldarfarssögur.“ 1. hefti 1982, bls. 117.

  3. Sjötta skáldsaga Fríðu, kom út 2006 en um hana er ekki fjallað í þessari samantekt.

  4. Sjá viðtal Vigdísar Grímsdóttur við Fríðu, bls. 15.

  5. Sjá viðtal Vigdísar Grímsdóttur við Fríðu, bls. 16.

  6. Rannveig G. Ágústsdóttir. „Ritdómur um Eins og hafið.“ , vorhefti 1987, bls. 172.

Greinin var skrifuð 2001 fyrir Bókmenntavef Borgarbókasafnsins, www.bokmenntir.is

 

 

Tengt efni