ÓREIÐAN LÝTUR BOÐUM MEISTARANS
Yrsa Sigurðardóttir sendi frá sér sína fyrstu bók 1998. Það var barnabókin Þar lágu Danir í því. Fyrsta bók hennar fyrir fullorðna, Þriðja táknið, kom út fyrir 15 árum og síðan hefur hún sent frá sér bók á hverju ári. Spennusagan í ár er Bráðin. Björgunarsveitir eru sendar inn í Lónsöræfi í leit að hópi fólks sem er saknað. Á sama tíma gerast undarlegir atburðir á ratsjárstöðinni á Stokksnesi. Hörkuspennandi atburðarás eins og Yrsu er lagið. Í ár sendir Yrsa líka frá sér barnabók, Herra Bóbó, Amelía og ættbrókin, bráðfyndin saga og skemmtilega myndskreytt af Kristínu Sól Ólafsdóttur.
Ein aðalpersóna fyrri bóka Yrsu rataði beint inn í hjarta lesenda, en það er lögfræðingurinn Þóra sem fékkst við dularfull sakamál í nokkrum bókum og glímdi um leið við flókið einkalíf. Nú eru það lögreglumaðurinn Huldar og Freyja félagsráðgjafi sem leysa málin og líklega er lögreglukonan Lína að bætast í hópinn. Í spennusögum er vissulega á ferðinni formúlukennt form en hver höfundur hefur sín sérkenni. Yrsa hefur verið iðin við að taka samfélagsleg málefni inn í sögur sínar, s.s. netofbeldi og óréttlátt þjóðfélag, en líka leyft því yfirnáttúrulega að blómstra.
Framan af rithöfundaferli Yrsu var henni legið á hálsi fyrir stirðan stíl og formúlukenndar sögur. En bókmenntagagnrýnendur hafa hin síðari ár tekið verk hennar í sátt.
"Yrsa Sigurðardóttir er fléttumeistari. Eða jafnvel flækjumeistari. Flestum flinkari í að kasta ótal boltum á loft og missa aldrei sjónar af neinum þeirra. Og henni tekst síðan einatt að láta brautir þeirra skerast áður en yfir lýkur. Stundum með herkjum og ólíkindum, jafnvel smáhjálp frá heppilegum tilviljunum og óbirtum upplýsingum. Svo má líka segja að flóknar fléttur séu í eðli sínu einatt í boði ólíkinda og heppilegra hendinga. En það er óneitanlega nautn að fylgjast með hvernig óreiðan lýtur að lokum boðum meistara síns.“ (Þorgeir Tryggvason, Bókmenntaborgin 2018)
„Yrsa er gríðarlega fær glæpasagnahöfundur og skrifar flottar sögur sem hafa yfir sér samtímalegt yfirbragð. Hún veigrar sér ekki við að takast á við samfélagið eins og það blasir við okkur en um leið að kafa undir yfirborðið. Hún hefur næma tilfinningu fyrir sögupersónum sínum og skrifar um hugarheim þeirra af sannfæringu og öryggi, svo lesendur fá að skyggnast inn í kollinn á einstaklingum úr ólíkum kimum samfélagsins. Þá hefur hún sannfærandi tök á efninu og nýtir sér samfélagsmiðla með trúverðugum hætti, en það hefur reynst mörgum glæpasagnahöfundum vandmeðfarið. Ég hef oft heyrt því fleygt að tilkoma snjallsíma hafi gert glæpasagnahöfundum erfitt fyrir, en hér verða þeir beinlínis að viðfangsefni frásagnarinnar og um leið að frásagnartækjum fyrir framvindu hennar.“ (Vera Knútsdóttir, Bókmenntaborgin 2016).