LÍFIÐ ER OF STUTT FYRIR LEIÐINLEGAR BÆKUR- um skáldverk Steinunnar Helgadóttur
Hversu víða er sterkar konur að finna í bókmenntum ? Í Sterkustu konu í heimi (2019) eftir Steinunni G. Helgadóttur segir frá Gunnhildi, líksnyrti með erfiða fortíð og ofurkrafta.
„Þegar ég komst lengra inn í handritið tók þessi kona, Gunnhildur, stjórnina því hún er sterk á svo mörgum plönum, þó umhverfið kenni henni að ofurkraftar séu ekki beinlínis viðeigandi í hennar tilviki. Kraftakonur eru sjaldséðar í sögunni. Jú annars, innan um karlhetjurnar í tímaþokunni glyttir í einstaka konu … formann kannski eða skessu – en þær eru sjaldgæfar” segir Steinunn í viðtali í Lifðu núna 2019.
Steinunn hefur starfað sem myndlistarmaður megnið af ævinni. Hún segist reyndar hafa unnið töluvert með orð í myndlist sinni svo listformin tvinnast saman. Fyrst reyndi hún sig við ljóðlistina og ljóðabókin Kafbátakórinn kom út 2011. Um svipað leyti hreppti Steinunn Ljóðstaf Jóns úr Vör. Önnur ljóðabók Steinunnar heitir Skuldunautar (2013). Fyrsta skáldsaga Steinunnar er Raddir úr húsi loftskeytamannsins (2016) en fyrir þá bók hlaut hún Fjöruverðlaunin. Einnig kom Steinunn að bók um myndlistakonuna Kristínu Jónsdóttur frá Munkaþverá.
Samfeðra (2018) fjallar um leit ungs manns að samtals 11 hálfsystkinum sínum og þar beitir Steinunn „heillandi frásagnarhætti með ólíkum sjónarhornum og reyndar einnig mismunandi sögumönnum. Auk þess að koma lesandanum í sífellu á óvart með það hvaða persóna er þungamiðja hvers kafla fyrir sig“ eins og fram kemur í viðtali í Fréttablaðinu frá 2018.
Steinunn fæst mjög við fjölbreytileika mannlífsins, skrifar um persónur sem eru jaðarsettar í samfélaginu, óvenjulegar og öðruvísi en samt kunnuglegar, fólk sem er einmana, hefur lent í mótlæti eða sætt grimmum örlögum. Húmorinn er samt aldrei langt undan:
„Nei, maður verður að hafa húmor. Fyrir það fyrsta þá er það þannig þegar maður er að biðla til fólks um að lesa bókina sína þá er maður að fara fram á að það noti frítímann sinn. Og ef maður ætlar að taka tíma af fólki þá verður maður að reyna að hafa það þannig að fólki leiðist ekki á meðan. Því það er dauðasynd að skrifa leiðinlegar bækur, lífið er alltof stutt fyrir leiðinlegar bækur. Þær rýra orðspor bókmenntanna“ segir Steinunn í viðtalinu.
Sterkasta kona í heimi kom út 2019 en þar segir frá systkinum sem alast upp við ömurlegar heimilisaðstæður. Þau velja hvort um sig sína leið til að takast á við aðskilnað, höfnun og sorg. Sérlega áhrifamikil saga sem fór furðu hljótt en þarf tóm og næði til leyfa áhrifunum að seytla inn og blæbrigðunum að skína. Gagnrýnendur Kiljunnar töldu að bókin væri skemmtileg aflestrar og héldi lesendum við efnið... en „Uppbygging bókarinnar gerir það þó að verkum að framvindan mætir afgangi.“
Hér má hlusta á 1. kafla bókarinnar Sterkasta kona í heimi:
Nýjasta bók Steinunnar er smásagnasafnið Hótel Aníta Ekberg, sem hún samdi ásamt systur sinni, Helgu S. Helgadóttur, og Sigga Björg Sigurðardóttir myndskreytti listilega.
Þar segir frá tveimur systrum sem lenda í því að dvelja með ókunnugu fólki í sóttkví vegna kórónufaraldursins. Sögur og myndir eru súrrealískar í samhljómi við ástandið í heiminum.
Hafa fleiri höfundar skrifað bækur um kófið? Verður til sérstök bókmenntagrein til rannsókna og umfjöllunar, kóf-sögur?
Steinunn G. Helgadóttir er magnaður rithöfundur og sagnaheimur hennar sérlega áhugaverður, stíllinn yfirvegaður og tær og persónurnar sitja eftir og sækja á lesanda löngu eftir að bók var lokað.
Sjá umfjöllun Soffíu Auðar Birgisdóttur á Skáld.is um verk Steinunnar.