SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir26. mars 2022

TSJERNOBYL-BÆNIN

Tsjernobyl-bænin: Framtíðarannáll er bók eftir Svetlönu Aleksíevítsj, hvítrússneskan Nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum. Bókin kom út í fyrra í verðlaunaþýðingu Gunnars Þorra Péturssonar og fær nú endurnýjaða athygli vegna stríðsins í Úkraínu.
 
Svetlana Aleksíevítsj er fædd árið 1948. Hún er sagnfræðingur, rannsóknarblaðamaður og rithöfundur. Svetlana hefur sent frá sér fjölda greina um stórviðburði í sögu Sovétríkjanna og fengið bágt fyrir. Hún þurfti að flýja Hvíta-Rússland um tíma vegna ofsókna og enn fást rit hennar ekki útgefin þar í landi. Svetlana hefur einkum skrifað sagnfræðirit, byggð á munnlegum heimildum, og árið 2015 hlaut hún Nóbelsverðlaun í bókmenntum fyrir sín margradda skrif um þjáningar mannsins og hugrekki.
 
Tsjernobyl-bænin er margradda frásögn sem byggir á hundruðum viðtala við fólk sem býr yfir reynslu af kjarnorkuslysinu í Tsjernobyl sem varð þann 26. apríl árið 1986. Viðtölin eru þannig byggð upp að spyrill dregur sig til hlés og leyfir frásögnunum, sem kallaðar eru einræður, að njóta sín. Viðmælendur eru af öllum þjóðfélagsstigum sem gefur fjölbreyttari sýn en ella og frásagnirnar eru jafnan afar einlægar sem eykur áhrif þeirra. Smám saman draga þessar tilfinningaríku einsögur upp áhrifamikla heildarmynd af stærsta kjarnorkuslysi sögunnar.
 
Líkt og fyrr segir er hópur viðmælenda Svetlönu afar fjölbreyttur. Þarna má lesa og fá innsýn í hugarheim þorpslæknis, kvikmyndatökumanns, hreinsunarmanna, ljósmóður, fyrrverandi aðalritara sveitarstjórnar Kommúnistaflokksins í Slavgorod og nauðflutts fólks sem sneri aftur á svæðið, svo að fáein dæmi séu nefnd. Margar frásagnirnar geyma ógleymanlegar lýsingar á hryllingnum sem þetta fólk þurfti að þola.
 
Einna minnisstæðasta lýsingin er strax í upphafi, í fyrstu frásögninni, en þar hefur orðið Ljúdmíla Ígnatenko eiginkona látins slökkviliðsmanns, Vasílís Ígnatenkos. Þau eru nýgift og Ljúdmíla með barni. Vasílís var kallaður út ásamt öðrum slökkviliðsmönnum og lágu þeir síðan þungt haldnir á spítala. Ljúdmíla hlustaði á engar aðvaranir og stalst til að vera við sjúkrabeðið til að hjúkra eiginmanninum sem versnaði með hverjum deginum sem leið. Ljúdmíla skipti daglega um lakið sem lá yfir nöktum líkama hans og var orðið alblóðugt um kvöldið. Hún lyfti Vasílís til að slétta úr rúminu og ,,tægjur úr húðinni urðu eftir, límdust við mig." (bls. 31) Barn þeirra hjóna dó fjórum tímum eftir að það kom í heiminn; það var með skorpulifur, tuttugu og fimm röntgen mældust í lifrinni, og hjartagalla.
 
Undir lok bókar segir önnur ástfangin eiginkona, Valentína Tímofejevna Apanasevítsj, frá hryllingnum sem dundi yfir þau hjónin. Hún var gift hreinsunarmanni og vélvirkja en hann fór ásamt fleirum til að aftengja rafmagn í yfirgefnum húsum á Tsjernobyl-svæðinu. Þegar heim var komið dóu þeir hver af öðrum. Eiginmaður Valentínu var síðastur til að deyja. Það tók hann ár. Undir lokin var Valentína sú eina sem mátti sjá hann, hann var svo illa farinn. Þegar hann dó vildi enginn koma nálægt honum, allir voru dauðskelkaðir. Sjúkraliðarnir tveir sem mættu báðu um vodka: ,,Við töldum okkur hafa séð allt, -játuðu þeir, -limlesta og skorna líkama, barnslík eftir bruna... En þetta er í fyrsta sinn sem..." (bls. 389). Sonur þeirra dvaldi á geðsjúkrahúsi þangað sem Valentína heimsótti hann daglega. Hann bíður eftir pabba sínum og Valentína lýkur sögu sinni á að segja að þau ætli að bíða eftir honum saman og hún ætli á meðan að fara með ,,Tsjernobyl-bænina mína" (bls. 392).

Tsjernobyl-bænin er bók sem mun seint gleymast. Hún er vitnisburður um hryllilegan atburð sem kollvarpaði lífi fjölda fólks og sér enn ekki fyrir endann á veikindum og dauðsföllum sem rekja má til slyssins. Fjöldi fólksins sem liðið hefur fyrir slysið mun seint liggja fyrir en víst er að hann hleypur á hundruðum þúsunda. Það sem Svetlana Aleksíevítsj gerir svo vel í bók sinni er að laða fram fólkið að baki tölfræðinni, fólk eins og mig og þig, og gefa röddum þess, tilfinningum og sárri reynslu verðugt rými. 
 
 
 
 
Myndin af Svetlönu er fengin af nobelprize.org
Myndin af yfirgefnu húsi á Tsjernobyl svæðinu er fengin af reddit.is