Jóna Guðbjörg Torfadóttir∙ 8. maí 2022
HOW CAN YOU LOVE . . .
Í maí árið 1951 birtist smásagan How can you love . . . eftir Huldu Bjarnadóttur í Tímariti Máls og menningar. Hulda (1911-1991) sendi frá sér aðra smásögu og skrifaði fáeinar greinar sem birtust í tímaritum en ekkert rataði á bók. Saga Huldu er forvitnileg og minnir um margt á smásögu Ástu Sigurðardóttur, Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns, sem birtist sama ár í tímaritinu Lífi og list.
Báðar sögurnar fjalla um unga konu sem fer inn á ríkmannlegt heimili manns sem misnotar valdaójafnvægið á milli þeirra og misnotar hana kynferðislega. Báðar sögur eru einnig býsna berorðar og mun berorðari en vant var um slík mál á þessum tíma. Áður hefur verið fjallað um sögu Ástu, og verður efni hennar ekki endurtekið hér, en frásögn Huldu er ekki síður opinská:
Þegar lagið var á enda leiddi hann hana til sætis, settist hjá henni, þuklaði á henni allri. Hann hneppti frá henni treyjunni, greip utan um brjóst hennar hvít og mjúk með loðnum hramminum, þau krympuðu sig saman undan átaki hans. Hún fann vínsmitandi andlit hans koma nær og nær. „Villidýr,“ hugsaði hún og beið þess að hann læsti í hana tönnunum og rifi hana á hol. (bls. 161)
Helsti munurinn á þessum tveimur smásögum er þó sá að það bendir margt til þess að unga stúlkan í sögu Huldu hafi snúið vörn í sókn, í samskiptum sínum við karlinn. Fyrr í sögunni kemur fram að hún hefur misst ástvin fáeinum dögum áður og hann er greinilega ástæðan fyrir því að hún fer inn á heimili ríka mannsins:
Hann skyldi ekki þurfa að fara ærulaus ofan í gröfina, það ætlaði hún að sjá um, ef hann hefði lifað hefði hann komið því í kring sjálfur. Nú varð hún að bjarga heiðri hans hvað sem það kostaði, það var það síðasta sem hún gat fyrir hann gert. (bls. 157)
Þessi orð benda ekki til þess að sögupersónan hafi látið undan káfi karlsins. Sagan segir hana ganga út af heimili hans fáeinum stundum síðar án þess að láta uppi hvað nákvæmlega gerist þar. Hún hafði þó „lokið erindinu“ og segist aldrei verða söm; „hatur heimsins hafði tekið sér bólfestu í brjósti hennar um aldur og ævi.“ Þá kann að vera táknrænt að hún rekur fótinn utan í brotna trjágrein og rífur sig til blóðs. Blóðið vætlar en hún finnur ekki til sársauka.
Hér má lesa smásögu Huldu og væri gaman að heyra hvernig aðrir lesendur skilja söguna.