SKÁLDSYSTUR
Halldóra B. Björnsson (1907-1968) fékkst talsvert við ritstörf en síðasta verk hennar er Þyrill vakir sem kom út árið 1986 og síðasta þýðingin sem hún sendi frá sér er Bjólfskviða sem kom út árið 1983. Systir hennar var Sigíður Beinteinsdóttir (1912-2008) var systir Halldóru. Hún sendi frá sér tvær ljóðabækur, Komið af fjöllum árið 1984 og Um fjöll og dali árið 1990. Einnig kom út bókin Raddir dalsins árið 1993 sem hefur að geyma ljóð eftir öll systkinin frá Grafardal.
Tvíburasysturnar Herdís (1858-1939) og Ólína (1858-1935) Andrésdætur eru nefndar hér í sömu andrá því þær gáfu verk sín út saman. Systurnar urðu á efri árum þjóðkunnar fyrir kvæði sín, fróðleik og frásagnir. Árið 1924 gáfu þær út Ljóðmæli á eigin kostnað, og aðra útgáfu aukna 1930. Að þeim látnum safnaði dóttursonur Herdísar, séra Jón Thorarensen, óbirtum kvæðum þeirra saman. Voru þau prentuð í þriðju útgáfu ljóðmælanna sem kom út stóraukin árið 1976.
Iðunn Steinsdóttir (f. 1940) hefur sent frá sér fjölda barnabóka, allt frá árinu 1982, og hlotið fjölda verðlauna. Prakkararnir Snuðra og Tuðra eru m.a. úr smiðju hennar. Þá hefur hún fengist við þýðingar og skrifað sjónvarpshandrit, námsefni og söngtexta - og einnig leikrit í samstarfi við systur sína, Kristínu Steinsdóttur (f. 1946). Kristín hefur sent frá sér skáldverk fyrir bæði börn og fullorðna, kennsluefni og kvikmyndahandrit auk þess að leggja stund á þýðingar. Fyrsta verk hennar Franskbrauð með sultu (1987) hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin og hefur hún hlotið fjölda verðlauna síðan.
Nótt
Loftið er eins og hlý og mjúk dúnsæng. Það er rökkvað. Andardráttur þinn þýtur eins og heitur vindur gegnum hárið mitt. Rósin í vasanum á borðinu er bleik, hún springur út í nótt. Djúpum ilmi andar yfir okkur bæði.
Húsið stendur undir háu fjalli. Það er komið haust. Blöðin á trjánum í garðinum snerta rúðurnar. Jörðin sefur í myrkrinu og himinninn færist nær. Það dimmir. Inni i húsinu okkar er þögn. Eilífðin hlustar í myrkrinu. Sálir okkar verða að hvítum dúfum, sem fljúga út í geiminn, þar er hvorki ljós eða myrkur og við fljúgum á tveimur vængjum og vængjatökin eru eins og heitur andardráttur.
Jörðin er helfrosin langan vetur. Snjórinn leggst yfir grösin og blómin, þau visna, svo kemur vor og nýtt líf fæðist. Hiti sólarinnar leysir fræ og frjóanga úr læðingi. Þeir springa út og verða gras.
Augnablikin þjóta inn í eilífðina. Eilífðin rís upp af dimmri nótt.
(Kveður í runni, 1930)