SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir19. janúar 2022

„EKKERT HEILT KVÆÐI VEL ORT Í BÓKINNI“

Þegar konur fóru loks að hætta sér út á ritvöllinn beið margra þeirra ýmist tómlæti eða hörð gagnrýni, jafnvel háðuleg. Það hlaut að svíða.
 
Guðfinna Jónsdóttir frá Hömrum sendi frá sér ljóðabókina Ljóð árið 1941. Sama ár birtir Kristinn E. Andrésson gagnrýni um bókina í Tímariti Máls og menningar og fer um hana mjög hörðum orðum; hann segir að þrátt fyrir að sumt beri vitni skáldlegum hæfileikum sé „ekkert heilt kvæði vel ort í bókinni“ og gengnar séu „mjög troðnar brautir“ Þá segist hann ekki skilja menn eins og Guðmund Finnbogason og Jakob Jóh. Smára sem hafa sagt þau „fullkomin snilldarverk“ og borið þau saman við bestu ljóð Einars Benediktssonar (1941:3, bls. 300-301).
 
Árið 1945 sendir Guðfinna frá sér aðra ljóðabók sem nefnist Ný ljóð. M.K., líklega Magnús Kjartansson, tekur að sér að fjalla um þá bók í þriðja hefti Tímariti Máls og menningar, það sama ár. Þar birtir Magnús kvæðið Leikmær eftir Guðfinnu sem lýsir líðan henni með fyrri dóma og þá líklega dóm Kristins:
 
Þér vilduð samt ei hlífa mínu hjarta,
er hratt af kvíða sló.
Þér slituð það úr blóðgu brjósti mínu
með beittri rándýrskló
og tættuð það í ótal smáar agnir,
en aldrei fenguð nóg.
 

Magnús vonar að það baki ekki skáldkonunni „allt of mikinn sársauka" að hann vekji athygli á nýju ljóðabókinni hennar. Hann segir Guðfinnu hafa gott vald á máli og stíl og að margt sé gott, einkum náttúrulýsingar. Magnús getur þó ekki látið hjá líða að tína til nokkrar aðfinnslur og það í nokkuð löngu máli. Hann segir hugleiðingar Guðfinnu og lífspeki missa marks; lopinn sé teygður, það skorti dýpt, trúverðugleika og innileik og jafnvel skynsamlegt vit. Hann m.a.s. gengur svo langt að segja eitt kvæðanna ort í „glamrarastíl."
 
Magnús birtir ekki annað ljóð en Leikmær eftir Guðfinnu í þessari umfjöllun sinni en birtir hins vegar ljóðið Það var eitt kvöld eftir Jón Helgason til að sýna Guðfinnu, og lesendum, hvernig skal yrkja. Magnús segist skilja ljóðið Leikmær sem svo að dómendur hafi gert sig „seka um furðulegustu villimennsku“ og fellur síðan sjálfur í þann flokkinn! (1945:3, bls. 279-280).
 

Tengt efni