SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 6. janúar 2022

BLAÐAÐ Í BIRTINGI

Birtingur er metnaðarfullt tímarit um bókmenntir, listir og önnur menningarmál sem kom út á árunum 1955-1968. Í ritstjórn sátu í fyrstu Einar Bragi, Geir Kristjánsson, Hannes Sigfússon, Hörður Ágústsson, Jón Óskar og Thor Vilhjálmsson. Fljótlega urðu breytingar á ritstjórn og undir lokin ritstýrðu Atli Heimir Sveinsson, Einar Bragi, Hörður Ágústsson, Jón Óskar og Thor Vilhjálmsson tímaritinu.
 
„...þegar kona gefur út bók, sem telja má til bókmennta.“
 
Birtingur var málgagn módernismans og er þar lagt upp með að skapa vettvang fyrir unga framsækna höfunda og listamenn sem hafa eitthvað til íslenskra menningarmála að leggja, líkt og kemur fram í aðfararorðum fyrsta tölublaðs árið 1955. Það er þó mjög áberandi að á meðal „framsækna höfunda“ eru nær engar konur enda hafa þær ekkert gefið út sem „telja má til bókmennta“ líkt og Jón úr Pálmholti orðar það í ritdómi sínum um ljóðabók Arnfríðar Jónatansdóttur, Þröskuldur hússins er þjöl. Upphafsorð ritdómsins eru þessi: „Það má teljast viðburður í okkar bókmenntum þegar kona gefur út bók, sem telja má til bókmennta.“ (1958:3-4, 68)
 

Þetta voru ljót skilaboð til þeirra kvenna sem höfðu sent frá sér bókmenntaverk á þessum tíma en þær máttu margar hverjar þurfa að venjast slíku viðhorfi og jafnvel að verk þeirra væru kölluð kerlingabækur. Ekki er heldur laust við slíkt viðhorf til kvennabókmennta í þeim fáu ritdómum sem birtust um kvennabókmenntir í Birtingi.
 
 
Kvenleg og hljóðlát
Í umfjöllun um sjálfsævisögu Ólafíu Jóhannsdóttur, Frá myrkri til ljóss, virðist Magnús Torfi Ólafsson einna hrifnastur af því sem hann kallar greinargóðan inngang Bjarna Benediktssonar að ritum Ólafiu sem þó hrökkvi ekki til að „ráða gáturnar í sálarlífi þessarar sérstæðu konu.“ (1958:1, bls. 37)
 
Hann er mun jákvæðari ritdómur Einars Braga um smásagnasafn Ástu Sigurðardóttur, Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns sem birtist árið 1961, sama ár og bókin kom út. Umfjöllunin fær nokkuð pláss og Einar Bragi er hrifinn af mörgum sögunum. Hann klykkir þó út með að í þeim blandist „skemmtilega sannur kvenleiki (svo sannur, að sumar af sögum hennar gæti karlmaður ekki hafa skrifað) og ósvikin víkingslund, framúrskarandi drengileg...“ (1961:4-5, bls. 55)
 

Árið 1962 birtast ritdómar Einars Braga um ljóð Sigríðar Björnsdóttur og Vilborgar Dagbjartsdóttur en bækur þeirra beggja komu út árið 1960. Einar Bragi er með nokkuð langan inngang að umfjöllun sinni um bókina Ljóð, teikningar eftir Sigríði sem geyma pælingar hans um orðlist en um ljóðin sjálf hefur hann ekki mörg orð enda segir hann margar af myndunum sem prýða bókina „mjög skemmtilegar og efalaust að ýmsra dómi markverðari verk en ljóðin.“ (1962:1-2, bls. 64)
 
Einar Bragi er mun hrifnari af ljóðabók Vilborgar, Laufið á trjánum, og segir ljóðin „í samræmi við umbúnað þeirra: óbrotin einlæg og hljóðlát.“ (1962:1-2, bls. 64) Þessir ritdómar Einars Braga birtast undir yfirskriftinni Litið í fáeinar ljóðabækur og eru innan um fleiri dóma hans. Athygli vekur að dómarnir um bækur skáldkvennanna eru mun styttri í annan endann en ritdómarnir um bækur skáldkarlanna.
 
Þá fær smásagnasafn Svövu Jakobsdóttir, Tólf konur, sem kom út árið 1965 fáeinar línur í umfjöllun Thors Vilhjálmssonar um bækur yngra fólks. Þar segir hann m.a. að bók Svövu sé gædd „kvenlegu næmi fyrir ýmsum tilbrigðum lífsins sem mörgum dyljast“ og ennfremur að Svava fari „þokkalega með efni sitt og stillir ekki róminn hátt...“ (1967:1, bls. 43)
 
Ritið rúmaði ekki konur
 
Það er vissulega mjög pent og kvenlegt að hafa ekki mjög hátt eða taka mikið rými og það sýnir sig í þessu ágæta tímariti. Þá vekur athygli um hvaða verk kvenna er ekki fjallað þrátt fyrir að marka tímamót í bókmenntaheiminum. Árið 1965 kemur út Dægurvísa eftir Jakobínu Sigurðardóttur, sem er fyrsta hópsagan á íslensku og þótti mikil nýmæli, og árið 1967 sendir Svava Jakobsdóttir frá sér Veizlu undir grjótvegg sem geymir nýstárlegar furðusögur. Nefna mætti einnig ljóðabókina Ung ljóð eftir Nínu Björk Árnadóttur sem kom út árið 1965 og var óvenju opinská og persónuleg. Sömuleiðis hefði mátt geta skáldsögu Grétu Sigfúsdóttur, Bak við byrgða glugga (1966), sem var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
 
Skáldkonur þessa tíma voru vissulega færri en skáldkarlarnir en þær voru þó sannarlega fleiri en þær örfáu sem eiga ljóð í Birtingi og telja má á fingrum annarrar handar. Á blað komast einungis Þóra Elfa Björnsson (1956:1, bls. 16) Vilborg Dagbjartsdóttir (1956:2, bls. 25; Ráðið 1959:1-2, bls. 28), Ingibjörg Haraldsdóttir (1961:1-2, bls. 22-24) og Unnur Eiríksdóttir (1966:4, bls. 37). Þá er í tvígang birt saga eftir Halldóru B. Björnsson (1955:2, bls. 28-29; 1956:3, bls. 20-22). Stöku sinnum er birt ljóð eftir erlenda skáldkonu en þá jafnan í þýðingu einhvers úr ritstjórninni.
 
 
Karlar áttu sviðið
 
Birtingur var vissulega málgagn módernista og fyrst og fremst vettvangur þeirra sem ritstýrðu blaðinu. Það blasti við og m.a.s. svo að Birtingsmenn voru átaldir á sínum tíma fyrir að vera „hvorki staddir í mannlífi né þjóðfélagi, heftið er unnið í lofttómu rúmi milli þils og veggjar.“ (Bjarni Benediktsson frá Hofteigi, 1958:2, bls. 49) Þetta skýrir að einhverju leyti hversu lítið konur koma við sögu því víst er að ekki sátu þær í ritstjórn tímaritsins. Þetta er þó einnig til marks um tíðarandann, karlarnir áttu sviðið og þær fáu konur sem hættu sér út á ritvöllinn fengu lítinn sem engan hljómgrunn. Konur þurftu því á þessum vettvangi sem öðrum að hafa mun meira fyrir því en karlar að koma sér á framfæri. Það er gömul saga og ný.