SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir19. desember 2021

KYNFERÐISRÁNDÝRIÐ G.M.

Fyrir skemmstu kom út minningasagan Samþykki eftir Vanessu Springora í lipurri íslenskri þýðingu Arndísar Lóu Magnúsdóttur og Guðrúnar Vilmundardóttur. Sagan nefnist á frummálinu Le Consentement og kom út í Frakklandi í fyrra. Sagan vakti strax mikla athygli og hefur verið þýdd á fjölda tungumála.
 
Samþykki lætur lítið yfir sér, hún er einungis um 170 blaðsíður í frekar litlu broti og fljótlesin. Sagan er þó fjarri því að vera léttvæg því þarna er fjallað um kynferðislegt ofbeldi 50 ára gamals rithöfundar í garð 14 ára unglingsstúlku; mál sem skekið hefur frönsku þjóðina.
 
 
Auðvelt fórnarlamb
 
Í Samþykki segir Vanessa Springora frá reynslu sinni og hefur söguna á því að segja frá uppvexti sínum sem einkenndist mjög af óheilbrigðu fjölskyldulífi sem endaði með skilnaði og algjöru afskiptaleysi föðurins. Þessi reynsla gerði að verkum að Vanessa reyndist rithöfundinum einkar auðvelt fórnarlamb.
 
Vanessa kallar sjálfa sig V. í sögunni og rithöfundinn G.M., eða einungis, G., sem er augljóslega skammstöfun fyrir verðlaunarithöfundinn Gabriel Matzneff enda hefur hann ekki farið dult með kynferðisleg samskipti sín við unglinga, líkt og Vanessa greinir frá á einum stað í frásögninni:
 
Árið 1974, eða tólf árum áður en við hittumst, birtir G. grein sem ber yfirskriftina Þau sem eru ekki orðin sextán ára, einhvers konar stefnuyfirlýsingu sem mælir bót kynfrelsi þeirra, sem eru undir lögaldri, greinin vekur hneykslan en baðar höfundinn frægðarljósi. Með þessu reglulega djarfa smáriti bætir G. einhverju hættulegu við höfundaverk sitt og áhugi á verkum hans eykst. (bls. 132)
 
Gabriel veitir Vanessu þá athygli sem hún hefur farið á mis við og nær að telja henni trú um að þeirra samskipti séu einkar eðlilegt ástarsamband, ekki síst vegna þess að samfélagið horfir í gegnum fingur sér, og þar á meðal móðir hennar, þó svo að sumir líti sambandið hornauga enda ólöglegt samkvæmt laganna bókstaf. Ekkert er þó aðhafst í málunum.
 
 
Hún 14 ára, hann 50 ára
 
Þrettán ára kynnist Vanessa rithöfundinum og misnotkunin hefst þegar hún er 14 ára, árið 1986. Ofbeldið stendur þar til hún er orðin 16 ára og þá um leið orðin full gömul fyrir ríflega fimmtugan manninn. Með tímanum rennur jafnframt upp fyrir henni að hann níðist á fleirum, bæði unglingsstúlkum og asískum drengjum sem hann kaupir sér aðgang að í Maníla á Filippseyjum. Gabriel hefur heldur ekki farið leynt með þetta óeðli og hreinlega státar sig af því í bókum sínum. Í einni þeirra kemst hann svo að orði að hann sé á leið til Maníla í leit að „ferskum rassgötum,“ líkt og Vanessa greinir frá á einum stað (bls. 106). Ennfremur er vísað til fyrrnefndrar greinar hans þar sem segir:
 
„Það sem heillar mig er ekki beinlínis annað hvort kynið, heldur æskuárin sem vara frá tíu til sextán ára og ég tel vera – mun frekar en það sem venjulega er átt við með þessu hugtaki – hið sanna þriðja kyn.“ (bls. 71)
 
Saga Vanessu gerði að verkum að Gabriel Matneff þarf nú loksins að gjalda fyrir öfuguggahátt sinn. Hann ber því við að á þessum tíma sem um ræðir hafi það ekki þótt glæpsamlegt að stunda kynlíf með börnum. Það má til sanns vegar færa að minnsta kosti hvað bókmenntaheiminn varðar því að Gabriel var bókstaflega hylltur af menningarelítunni þrátt fyrir berorðar lýsingar sínar á ofbeldinu. Þannig fékk ofbeldið að viðgangast nær gagnrýnislaust og fékk nánast yfir sig dýrðarljóma.
 
 
Kvikmynd
 
Til stendur að kvikmynda sögu Vanessu og er áætlað að hún muni rata á hvíta tjaldið í febrúar á næsta ári. Jean-Paul Rouve mun leika Gabriel Matzneff og Kim Higelin Vanessu. Það verður spennandi að sjá hvernig sögunni verður gerð skil í meðförum þeirra. Ljóst er að þessi sláandi frásögn þarf að fara sem víðast til að uppræta megi slík og önnur eins samfélagsmein hvar sem þau kunna að finnast.