SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn14. febrúar 2018

UPP ÚR SKÚFFUNNI: Harpa Rún Kristjánsdóttir

Harpa Rún Kristjánsdóttir, bændadóttir og bókmenntafræðingur hleypti Júlíönu Sveinsdóttur í skúffuna hjá sér að þessu sinni. Harpa deilir með okkur tveimur ljóðum sem hún hefur nýlega lokið við.

Heimasætan Harpa Rún er alin upp á bænum Hólum við Heklurætur og þar unir hún sér best. Alltaf verið sískrifandi og með með nefið í skruddunum, ásamt því að sitja yfir ánum. Þessi lýsing gæti vel verið skrifuð löngu fyrir síðustu aldamót en Harpa Rún er hér og nú 2018 og skrifar meistararitgerð sína Íslenskar dystópíur (ólandssögur) fyrir fullorðna og hver þeirra staður sé í íslenskri bókmenntahefð. Ásamt MA ritgerðarskrifum vinnur hún hjá bókaútgáfu Sæmundar við prófarkalestur, fornbókagrúsk og allskonar og það er bók í burðarliðunum.

Skúffuskáldið Harpa Rún man fyrst eftir sér “skrifa” í dagbók, áður en hún lærði stafina, seinna taka við setningar þar sem hún gerði punkta en ekki bil milli orða, til.að.spara.plássið. Harpa Rún man eftir fyrirlestri um starfsval á fyrsta ári í framhaldsskóla þar sem hún sagðist ætla að verða rithöfundur og þar áður hafði hún skrifað nokkrar smásögur. Í dag er hún alltaf með hugmyndir í kollinum, segjandi sjálfri sér sögur en ekki nógu dugleg að koma þeim á blað. En eitthvað hefur þó lent á blaðinu góða, nokkrar greinar í tímarit, smásaga í bókinni Vængjatök, átti texta í ljósmyndabókinni On the road in Iceland með Grétu Guðjónsdóttur og núna MA ritgerðin.

Harpa Rún segist eiga allskonar í skúffunni, þessari aftast í höfðinu og leyfir okkur að sjá smá, í bili.

 

Þögn

Þetta var í fyrsta skipti í óralangan tíma sem við heyrðum þögn. Alltumlykjandi í

óhöndlanleika sínum lagðist hún að hlustum okkar eins og hlý ábreiða.

Fyrst héldum við okkur vera farin að tapa heyrn og töluðum varfærnislega hvert til annars til að sannreyna eða afsanna þá kenningu.

Nei, þögnin var ekki líffræðileg, heldur var hún raunverulega raunveruleg.

Við sátum, hönd í hönd og hlustuðum á þögnina. Eftir því sem við heyrðum meira af engu því meira heyrðum við. Þyturinn í blóðinu yfirgnæfði gnauð vindsins og samruni vinnulúinna handanna kom í staðinn fyrir skrjáfið í föllnu laufinu.

Það var vor.

 

Kaffispjall

Ég rek
úr þér garnirnar
í rólegheitum
yfir kaffibolla
(Morgundögg, í múmínbolla, og þú ert Morrinn)
Rykki ákeðið
þegar botnlanginn kippist út
Svo skola ég gorinn úr þeim í bæjarlæknum.
Kalóna þær í kalki frá múraranum.
Vind þær svo upp í snyrtilegan hnykil.
Seinna
fitja ég upp
á prjóna númer sex.
Perluprjón:
slétt
brugðið
slétt
brugðið
slétt
brugðið
við.
Og bý þér til værðarvoð
til að hjúfra þig í
þar sem þú liggur.
Kvalinn af þorsta, með kalt grjót í maganum.
Og sefur ekki.
Svefni hinna réttlátu.
 

Við þökkum Hörpu Rún kærlega fyrir að sinni, vitandi að meira kemur seinna.

 

 

Tengt efni