FLJÚGANDI FISKISAGA
Fljúgandi fiskisaga: barnasaga eftir Nínu Tryggvadóttur kom út árið 1948 og olli miklum usla.
Nína Trggvadóttir (1913-1968) kynntist Alfred L. Copley, lækni og listamanni, á sýningu á myndum hennar í New York árið 1945. Þau hittust aftur, felldu hugi saman og nálægt páskum árið 1949 gengu þau í hjónaband. Seinna sama ár fór Nína heim til Íslands að pakka niður en var þá tjáð af sendiráði Bandaríkjanna að henni væri meinað að snúa aftur til Bandaríkjanna. Hún fór samt og var þá neydd til að dvelja nokkrar vikur í einangrunarbúðum innflytjenda á Ellis Island þangað til hún var send aftur til Íslands.
Dæmisaga
Ástæðan fyrir þessari meðferð á Nínu er talin vera annars vegar sú að hún gaf mynd í happdrætti til styrktar Þjóðviljanum, sem var málgagn sósíalista, og hins vegar sendi hún frá sér dæmisöguna Fljúgandi fiskisaga: barnasaga. Saga þessi er bæði samin og myndskreytt af Nínu en þar segir frá ofurlitlu fólki sem býr á lítilli eyju langt í norðri. Fólkið lifir á lýsi, sem það matreiðir á 365 vegu, og þess á milli fer það í leiki á undirlendinu eða rennir sér niður hlíðar jöklanna sem þar eru. Á kvöldin skemmta eyjaskeggjar sér við að horfa á flugeldana í eldfjöllunum, segja hvert öðru draugasögu eða les hvert fyrir annað því þetta er mikil bókmenntaþjóð.
Dag einn lendir mikill flugfiskur á undirlendinu, þar sem eyjaskeggjar eru vanir að fara í leiki, liggur þar og gapir. Fólkið gefur honum lýsi í von um að hann fái orku til að fljúga burt. Hann hreyfir sig hins vegar ekki, vex ört og breiðir sig yfir eyjuna. Góðhjartaðir og einfaldir eyjaskeggjarnir keppast við að hella lýsi upp í gapandi gin hans og hafa því engan tíma til að fara í leiki: „„Blessaður fiskurinn okkar“ sögðu menn þegar þeir hittust, „hvers virði væri lífið, ef hann hefði ekki komið“?“ Fiskurinn heldur áfram að stækka og breiðir loks úr sér yfir alla eyjuna svo að hann ryður eyjarskeggjum út í sjó. Einungis þrír eru eftir til að halda áfram að mata fiskinn á lýsi en í sögunni segir að ekki sé gott að vita hvað um hann verði þegar þeir falla útbyrðis.
Kommúnískur áróður
Þessi saga Nínu þótti vera til marks um kommúnískan áróður því þarna væri verið að gagnrýna veru Bandaríkjamanna á Íslandi. Á þessum tímum kalda stríðs og pólitísks ofstækis var hægur leikur að klekkja á fólki með því að kenna það við kommúnisma. Sjálf segist Nína hafa verið að gagnrýna ásælni annarra þjóða og hafi hún ekki haft neina sérstaka þjóð í huga.
Nína skrifaði bókina árið 1943 og var hún sýnd á bókasýningu Ragnars Jónssonar í Smára árið 1946. Árið 1948 var Ragnar búinn að semja við stjórn Dvalarheimilis aldraðra sjómanna um útgáfu þriggja verka, trúlega til að fjármagna útgáfuna, og var bók Nínu eitt af þeim. Eftir ásakanir um kommúnískan áróður var bókin hins vegar tekin úr sölu.
Afsökunarbeiðni
Líkt og fyrr segir var Nínu meinað um að ferðast til Bandaríkjanna en hún fór samt og endaði á Ellis Island 3. febrúar árið 1950 og var þar um tvær vikur. Þann 16. febrúar flaug hún aftur heim. Alfred kom til Íslands árið 1950 og leituðu hjónin ýmissa leiða til að fá ferða- og dvalarbanni Nínu aflétt en án nokkurs árangurs. Þau fluttu til Parísar og dvöldu þar frá 1952-1957.
Það var ekki fyrr en að ofsóknartímabili McCarthys lauk sem þessu banni var aflétt en þá gerði yfirmaður vegabréfsdeildar sér sérstaka ferð til Parísar til að biðja Nínu afsökunar fyrir hönd embættis síns og Bandaríkjastjórnar. Hins vegar hafði þá Alfred ráðið sig til London þar sem þau dvöldu næstu tvö og hálfa árið. Í lok árs 1959 sótti Nína um vegabréf til New York og fékk það afgreitt á innan við hálftíma.
Heimildir:
Fangelsuð fyrir barnabók (1987, 22. desember). Helgarpósturinn. https://timarit.is/page/988111?iabr=on#page/n6/mode/2up
Hallgrímur Oddsson. (2015, 7. janúar). Ólöglegi innflytjandinn – var Nína Tryggvadóttir kommúnisti og hættuleg Bandaríkjunum? Youtube. https://www.youtube.com/watch?v=uvQGnmSYpBA