SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir31. mars 2021

LÆRÐU HARMA AÐ HYLJA

Í glænýrri bók um spænsku veikina (2020) eftir Gunnar Þór Bjarnason er m.a. sagt frá ævi og örlögum skáldkonunnar Höllu Lovísu Loftsdóttur.
 
Ófrísk ekkja með fimm börn
Halla Lovísa bjó á Sandlæk í Gnúpverjahreppi, Árnessýslu, með Ámunda manni sínum og fimm börnum við kröpp kjör. Hún var ófrísk að sjötta barninu þegar Ámundi veiktist af inflúensunni og lést 1. desember 1918. Elsta barn þeirra var sex ára þegar Halla varð ekkja. „Aldrei mun ég þekkja nokkurn mann réttlátari eða sannari í öllu dagfari en hann var“ sagði Halla síðar þegar hún minntist eiginmannsins með miklum trega (sbr. 177). Um vorið fæddist barnið andvana. Sjálf veiktist Halla af inflúensunni og var lengi að ná sér. Bróðir hennar reyndist henni vel og rák þau saman bú á Sandlæk í tólf ár. Þá fluttist Halla til Reykjavíkur og vann fyrir sér m.a. með vélprjónaskap og starfaði ötullega að félagsmálum, m.a. innan Kvenréttindafélags Íslands (179).
 
 
 
 
 
Mynd tekin 1. desember 1918
 
Þráði að mennta sig
Unga dreymdi Höllu um að komast til náms en af því gat ekki orðið. „Ungar alþýðustúlkur áttu ekki margra kosta völ í fátæku og fábreyttu bændasamfélagi eins og því sem var á Íslandi um aldamótin 1900“ segir í bók Gunnars Þórs (178).
 
„Hún var grannvaxin, fríð sýnum, dökkhærð og fagureygð, gáfuð, viðkvæm í lund og yndislega hlý í viðmóti.“ Svo er Höllu lýst sem ungri konu. Skáldskapur var henni í blóð borinn og ung byrjaði hún að yrkja. Síðar birtust ljóð eftir hana af og til í tímaritum en nú þekkja sennilega fáir nafn hennar og skáldskap“ (179).
 
Þrjú kvæði
Í Eimreiðinni 1925 birtust nokkur kvæði eftir skáldkonuna á Sandlæk undir nafninu Lovísa Loptsdóttir og Halla Loptsdóttir:
 
 
 
 
 
 
 
Í fyrsta hefti birtust þessi þrjú kvæði, og í því hefti er líka kvæði sem heitir Únglíngurinn í skóginum eftir Halldór Laxness - þar sem kveður við tón róttæks menntamanns sem hafði öll tækifæri sem buðust til frama og ferðalaga. Annað kvæði átti Halla í 2. hefti sama árgangs. Mest allt efnið í Eimreiðinni 1925 er eftir karla en tvær aðrar skáldkonur áttu kvæði í þessum árgangi, þær Ólína Andrésdóttir og Ólöf frá Hlöðum. Ekki amalegt fyrir Höllu Lovísu að vera með þeim í hópi.
 
Eftirfarandi brot er dæmi um kveðskap Höllu og tíðarandann á hennar dögum þegar fátæktin var flestra fylginautur, tímarnir voru erfiðir og úrræðin fá.
 
Lærðu harma að hylja,
hafðu þol og vilja.
Þó að blæði bitur sár,
brosin láttu dylja tár,
lærðu harma að hylja.
 
Ein ljóðabók
Halla Lovísa orti m.a. sex erinda erfikvæði eftir Ámunda sinn, undir fornyrðislagi. Það er að finna í einu ljóðabók Höllu þar sem kveðskap hennar var safnað saman. Kvæði kom út 1975, Halla lést sama ár og lifði ekki að fá hana í hendurnar.
 
Tóndæmi
Hér má heyra Höllu Lovísu flytja afmælisljóð sem hún orti til vinkonu sinnar. Seint er Árnastofnun og ríkisútvarpinu fullþakkað fyrir að hafa á síðustu öld sett starfskrafta í að taka frásagnir og kveðskap kynslóðanna upp á band til varðveislu. Brátt þagna raddir þeirra sem nú eru gamlir orðnir, tungutak þeirra hverfur með þeim og spor þeirra mást burt eins og spor Höllu Lovísu.

 

Tengt efni