SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Helga Jónsdóttir11. apríl 2021

UNDURSAMLEGAR ENDURSAGNIR Á TÖFRAHEIMI TOVE JANSSON


Snemma á fimmtudagsmorgni í ágúst veiddi múmínsnáðinn lítinn dreka í gruggugri tjörn. Hann hafði auðvitað ekkert hugsað sér að veiða dreka. Hann var bara að reyna að góma fáein smákríli sem svömluðu í slýinu á botninum svo hann gæti gengið úr skugga um að þau syntu í alvörunni aftur á bak. En þegar múmínsnáðinn leit ofan í glerkrukkuna leyndist eitthvað allt annað í henni. - Blessuð veri rófan mín, hvíslaði hann
 
 
Svo hljóðar upphaf bókarinnar Dreki í múmíndal sem kom út nýlega í íslenskri þýðingu Gerðar Kristnýjar. Bókin tilheyrir yndislegum og afar vönduðum bókaflokki sem hefur að geyma endursögn á sígildum sögum Tove Jansson fyrir „nýja kynslóð múmínálfaaðdáenda“. Dreki í múmíndal er þriðja bókin í röðinni sem kemur út á íslensku en hinar tvær heita, Sögur úr múmíndal og Jól í múmíndal. Gerður þýddi þær einnig og gerir það listavel.
 
Í endursögnunum er efnið mun barnvænna og aðgengilegra en í upprunalegum sögum Tove (þótt þær standi vissulega ávallt fyrir sínu). Þar með er um dýrmæta viðbót við sagnaheim Tove að ræða en með nýju bókunum gefst yngstu bókabéusunum tækifæri til að kynnast töfrandi heimi múmínálfanna mun fyrr en ella. Þá er endursögnin afar vel unnin og hægt að fullyrða að dásamleg persónusköpun Tove, sem og hið dularfulla andrúmsloft sem hún skapaði í sögum sínum, skili sér vel í nýju barnabókunum.
 
 
Rithöfundurinn Cecilia Davidsson endurskrifaði drekasöguna og byggir þar á „Sögunni um síðasta drekann í heiminum“ sem er að finna í bók Tove, Ósýnilega barninu. Davidsson er jafnframt höfundur hinna bókanna tveggja, Sögur úr múmíndal og Jól í múmíndal, en þær skrifaði hún ásamt Alex Haridi. Í Sögum úr múmíndal má meðal annars lesa um það þegar múmínfjölskyldan fann múmíndal, sem gekk alls ekki snuðrulaust fyrir sig, en sú saga byggir á bók Tove, Litlu álfarnir og flóðið mikla. Önnur saga í Sögum í múmíndal byggir á Pípuhatti galdrakarlsins og fjallar um þegar múmínsnáðinn og félagar hans finna hinn dularfulla töfrahatt og þau undur og ævintýri sem fundurinn hefur í för með sér. 
 
 
 
Hin yndislega bók Jól í múmíndal byggir hins vegar á sögunni „Jólatréð“, sem líkt og sagan af drekanum er að finna í Ósýnilega barninu. Hún segir frá því þegar múmínfjölskyldan, sem vön er að sofa af sér jólin í sínum árlega vetrardvala, er óvænt vakin af Hemúlnum um miðjan vetur. Hemúllinn skilur ekkert í múmínsnáðanum fyrir að sofa þegar enn á eftir að undirbúa allt fyrir jólin. Þessi ókunnugu jól vekja upp mikla hræðslu hjá múmínsnáðanum sem hrópar á mömmu sína: „Mamma, vaknaðu! […] Eitthvað hræðilegt er á leiðinni! Það heitir Jólin!“ Fjölskyldan reynir í gegnum söguna að átta sig á hvað eða hver þessi jól séu eiginlega og þora ekki öðru en að gera þeim allt til geðs, skreyta fyrir þau, útvega handa þeim gjafir og útbúa mat handa þeim.
 

 
Auðvelt er að mæla með öllum bókunum þremur enda mikið gleðiefni þegar vandaðar bækur sem þessar bætast við barnabókaflóruna. Að lokum má nefna að textinn er ekki aðeins fagur heldur á það eins við um allt útlit bókanna. Myndlýsingarnar eru í höndum listakvennanna Ceciliu Heikkilä og Filippu Widlund. Rétt eins og textahöfundarnir, styðjast þær við list Tove sjálfrar á afar smekklegan hátt. Myndirnar byggja á og vísa í undurfagrar myndlýsingar Tove og sveipa ævintýrin töfraljóma.