SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir20. september 2021

ÞAÐ ÞURFTI AÐ BÚA TIL SÉRHEIM FYRIR ÞÆR

Af vináttu Gretu Garbo og Marilyn Monroe
 
 
 
„Ég hef mjög gaman af Marilyn [Monroe]. Mér finnst eins og við séum tengdar einhverjum óútskýranlegum böndum“1 sagði Kristín Ómarsdóttir í blaðaviðtali árið 2007. Slík staðhæfing þarf ekki að koma á óvart því það er afar algengt að fólk tengist frægum einstaklingum og eigi í ímynduðum samböndum við þá. Ímynduð sambönd við frægt fólk minna á samböndin sem sumir lesendur eiga við skáldaðar persónur því fólk eyðir tíma í að hugsa um þann fræga, fræðast um hann og ræðir jafnvel við hann í huganum. Ef frægi aðilinn er á lífi er ólíklegt að hann viti um tilvist þess sem ímyndar sér enda sækist sá hinn sami ekkert endilega eftir því að hitta þann fræga.2 Ímynduð vinátta af þessu tagi getur þó verið stökkpallur fyrir skrif um fræga einstaklinginn. Þannig er því farið með Kristínu en sama ár og hún lét orðin um tengsl sín við Marilyn Monroe falla sendi hún frá sér smásögu um vináttu leikkonunnar og starfssystur hennar, Gretu Garbo. Síðar meir greindi Kristín reyndar frá því að hún hefði verið „afar hrifin af Gretu Garbo þegar [hún] var unglingur“.3 Það þarf því ekki að koma á óvart að hún hafi kosið að gefa leikkonunum færi á að hittast, eyða tíma saman og rækta vináttuna í ímynduðum heimi skáldskaparins.
 
 
Fáeinum árum eftir að smásagan kom út sendi Kristín frá sér bókina Við tilheyrum sama myrkrinu. Af vináttu: Marilyn Monroe og Greta Garbo (2011). Bókin inniheldur sex smásögur um þær stöllur (þar af áðurnefnda smásögu), eitt ljóð og fjölda myndskreytinga af leikkonunum. Í sögunum er lögð áhersla á vináttu kvennanna en meðal annars ræða þær saman um lífið og tilveruna, lesa heimsbókmenntir, prjóna og ferðast saman.4 Eins og Úlfhildur Dagsdóttir hefur bent á „einkennast [sögurnar] af hlýju og næmni, auk gleðinnar sem býr í góðri vináttu“ „þrátt fyrir myrka undirtóna einmanaleika og sjálfsmorðs“.5 Margt af því sem sagt er frá í sögunum samræmist ekki heimildum um líf leikkvennanna en því má flokka bókina í heilu lagi sem spuna um raunverulegt fólk (e. Real Person Fiction (RPF)). Slíkir spunar eru dæmi um einn af undirflokkum aðdáendaspuna en algengast er að þeir fjalli um fræga einstaklinga sem höfundarnir hafa áhuga á og hafa tengst tilfinningaböndum. Oft hafa höfundarnir sankað að sér upplýsingum um þann fræga – til dæmis úr viðtölum, greinum og sjálfsævisögum – sem þeir nýta að einhverju leyti sem hráefni í eigin sögur þótt ímyndunaraflið sé iðulega látið ráða för. Ef persónurnar eru byggðar á leikurum mótast persónulýsingarnar stundum af hlutverkum sem þeir hafa leikið. Spunarnir eru auðvitað eins misjafnir og þeir eru margir en alla jafna leggja höfundar sig fram við að virða einstaklingana sem þeir skrifa um og reyna að draga fram margræðari myndir af þeim en glansmyndir fjölmiðlanna eiga til með að sýna.6
 
 
Í bókinni um Marilyn Monroe og Gretu Garbo leikur Kristín sér markvisst að mörkum og tengslum ímyndunarafls og veruleika. Hún skáldar upp og getur sér til um þanka persónanna, viðhorf, tilfinningar, samtöl og gjörðir um leið og hún vísar í raunverulega atburði og staðreyndir um líf kvennanna; meðal annars hvað varðar bernsku þeirra og bakgrunn, ástarsambönd, kvikmyndaleik og samskipti við fræga einstaklinga. Í stað þess að dregin sé upp einhæf mynd af glæsileika stjarnanna og kynþokka – eins og þekktist og þekkist jafnvel enn í fjölmiðlum – kafar höfundur mun dýpra og dregur fram margræðari myndir af þeim stöllum. Þrátt fyrir augljósar skírskotanir til veruleikans vegur skáldskapurinn þyngra enda eru sögurnar auðvitað skáldskapur og persónurnar sviðsettar eins og er strax tekið fram í upphafi bókar:
 
 
 
Við tilheyrum sama myrkrinu fjallar ekki um raunverulega atburði; sögurnar og ljóðið sem hér birtast eru skáldskapur þar sem leikkonurnar Marilyn Monroe (1926-1962) og Greta Garbo (1905-1990) leika aðalhlutverkin. Allar persónur sem við sögu koma, jafnvel þær Marilyn og Greta, eru skáldaðar.7
 
 
Orðalagið að leikkonurnar „leiki aðalhlutverkin“ rímar skemmtilega við þá hugmynd að skoða megi spuna um raunverulegt fólk sem hlutverkaleik, það er að persónur í þeim séu eins og leikarar sem taka að sér hlutverk alvöru fólks.8 Slíkt sjónarhorn felur í sér að þekkingin um raunverulega einstaklinginn er til staðar – til dæmis hvað varðar bakgrunn hans, reynslu og útlit – um leið og gefið er rými fyrir skáldaða reynslu og sviðsetningu á persónunni. Á þessari hugmynd er raunar hamrað í bók Kristínar því í einni sögunni segir Marilyn Monroe við Gretu Garbo: „Mér líður eins og í bíómynd með þér“. 9 Orð hennar má hafa yfir reynslu lesanda af lestri bókarinnar því hann flettir hverri blaðsíðunni á fætur annarri til að fylgjast með hvað gerist næst í þessari „nýju kvikmynd“ þar sem stórstjörnunum gefst loksins færi á að leika saman. Teiknuðu myndirnar sem prýða söguna ýta einnig undir að bókin minni einum þræði á kvikmynd. Sumar af myndunum sýna leikkonurnar í ímynduðum aðstæðum en aðrar eru stillimyndir úr raunverulegum kvikmyndum sem þær léku í. Samkvæmt Kristínu ákvað hún að teikna stjörnurnar til að gera hugarheim þeirra raunverulegri, sbr.: „Kannski var það til að gera hugarheim þeirra raunverulegri. Það þurfti að búa til sérheim fyrir þær“.10 Orð skáldkonunnar vitna um mikilvægi ímyndunaraflsins því að heimurinn sem birtist í myndunum og sögunum er ekki sá hinn sami og heimurinn sem við köllum raunverulegan. Sköpun Kristínar, jafnt teikningar og skrif, er því gott dæmi um hvernig hún skapar nýjan heim meðal annars til að tengjast þekktum persónum enn betur um leið og hún veitir öðrum áhugasömum hlutdeild í ímyndaðri vináttu sinni.11
 
 
Heimildir
 
1: „Vofa Monroe vakir yfir öllu“, Fréttablaðið, 10. mars 2007, bls. 8.
2: Jaye L. Derrick, Shira Gabriel og Brooke Tippin, „Parasocial relationships and self-discrepancies. Faux relationships have benefits for low self-esteem individuals“, Personal Relationships 15/2008, bls. 261–280, hér bls. 261–262.
3: Kristjana Guðbrandsdóttir, „Skriftir eru ferðalag“, DV, 24. september 2012, bls. 22. Nefnt skal að Gretu Garbo bregður fyrir í einni örsögu bókarinnar Einu sinni sögur sem Kristín Ómarsdóttir sendi frá sér árið 1991 sem sýnir að hún hefur lengi verið með hugann við leikkonuna.
4: Hér er eingöngu stiklað á stóru um bók Kristínar en um hana mætti skrifa heila grein, t.d. væri forvitnilegt að skoða nánar hinsegin erótíkina sem einkennir sögurnar, sbr. Úlfhildur Dagsdóttir, „Skáldkonan og leikkonurnar“, Bókmenntaborgin, maí 2012.
5: Sama heimild.
6: V. Arrow, „Real Person(a) Fiction“, Fic. Why Fanfiction Is Taking Over the World, ritstjóri Anne Jamison, Dallas: Smart Pope, 2013, bls. 323–332.
7: Kristín Ómarsdóttir, Við tilheyrum sama myrkrinu: Af vináttu Marilyn Monroe og Gretu Garbo, Reykjavík: Stella, 2011, bls. 2.
8: Sbr. Judith Fathallah, „Reading real person fiction as digital fiction. An argument for new perspectives“, Convergence 24: 6/2018, bls. 568–586, hér bls. 571.
9: Kristín Ómarsdóttir, Við tilheyrum sama myrkrinu, bls. 73.
10: Kristjana Guðbrandsdóttir, „Skriftir eru ferðalag“, bls. 22.
11: Þessi texti birtist fyrst í aðeins annarri mynd í greininni „Mig langaði til að halda áfram með ljóðið“, Andvara 2021.
 
Teikning eftir Kristínu Ómarsdóttur (efst) er fengin af vefsíðunni endemi.wordpress.com