SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Helga Jónsdóttir 3. desember 2021

TILNEFNINGAR TIL FJÖRUVERÐLAUNANNA 2021 TILKYNNTAR


Í gær var loftið spennuþrungið á Borgarbókasafninu í Grófinni því þá var tilkynnt um hvaða höfundar hlytu tilnefningar til Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna (sís og trans) og trans, kynsegin og intersex fólks á Íslandi – þetta árið. Verðlaunin eru veitt í þremur flokkum; flokki barnabóka, flokki fagurbókmennta og flokki fræðibóka og rita almenns eðlis en eftirfarandi bækur og höfundar hlutu tilnefningu:
 
 
Fagurbókmenntir
 
 
 
 
Í flokki fagurbókmennta hlaut Fríða Ísberg tilnefningu fyrir skáldsöguna Merkingu en lesa má dóm um hana eftir Steinunni Ingu Óttarsdóttur hér.
 
 
 
 
 
 
Einnig hlaut Sigrún Pálsdóttir tilnefningu fyrir skáldsögu sína Dyngju en Sigrún tók fyrir skömmu á móti Bókmenntverðlaunum Evrópusambandsins sem hún hreppti fyrir bókina Delluferðina (2019), sjá nánar hér.
 
 
 
 
 
 
Þá hlaut Þórdís Helgadóttir tilnefningu fyrir sína fyrstu ljóðabók Tanntöku en hún var nýlega í forvitnilegu viðtali á Skáld.is sem lesa má hér.
 
 
 
 
 
 
 
Fræðibækur og rit almenns eðlis
 
 
Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis hlutu Bryndís Björgvinsdóttir og Birna Geirfinnsdóttir tilnefningu fyrir bókina Kristín Þorkelsdóttir en þar fjalla þær um list og hönnun Kristínar sem landsmenn ættu að þekkja mætavel (án þess þó að gera sér endilega grein fyrir því).
 
 
 
 
 
Elísabet Rún er jafnframt tilnefnd fyrir bókina Kvár, hvað er að vera kynsegin? sem er heimildarmyndasaga en fyrr á árinu var fjallað um hana hér á Skáld.is.
 
 
 
 
 
 
Þriðja bókin sem tilnefnd er í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis er Sigurður Þórarinsson: Mynd af manni eftir Sigrúnu Helgadóttur en þar er á ferð ævisaga þessa þjóðþekkta vísindamanns.
 
 
 
 
 
 
Barna- og unglingabókmenntir
 
 
Í flokki barna- og unglingabókmennta ber fyrsta að nefna Kristínu Helgu Gunnarsdóttur sem hlaut tilnefningu fyrir bókina Ótemjur.
 
 
 
 
 
 
Þá hlaut Reykjavík barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur tilnefningu og ungmennabókin Akam, ég og Annika sem er fyrsta skáldsaga Þórunnar Rakelar Gylfadóttur.
 
 
 
 
 
 
Þetta eru allt æsispennandi bækur og höfundarnir vel að tilnefningunum komnir en lesa má rökstuðning dómnefndar á heimasíðu fjöruverðlaunanna.
 
Skáld.is óskar öllum þessum hæfileikaríku höfundum hjartanlega til hamingju!