SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir10. apríl 2021

NAUÐGANIR - GÖMUL SAGA OG NÝ

The Rape of the Sabine Women eftir Sebastiano Ricci (1659-1734)
 
 
Í gömlum íslenskum sagnakvæðum er mikið kveðið um ofbeldi gegn konum, þótt það efni hafi ekki vakið sérstaklega áhuga karlkyns rannsakenda og ekki hafi verið búinn til sérstakur flokkur fyrir slík kvæði. En nú eru konur farnar að rannsaka þetta efni af kappi og skrifa um það. Til dæmis má benda á greinina „„Reif hann hennar stakkinn - reif hann hennar serk.“ Nokkur orð um konur og kynbundið ofbeldi í sagnadönsum“ eftir Ingibjörgu Eyþórsdóttur sem birtist í opnum aðgangi í Ritinu, tímariti hugvísindastofnunnar og lesa má hér. Ingibjörg vinnur að doktorsritgerð um íslensk sagnakvæði um þessar mundir.
 
Hér er eitt magnað dæmi þar sem kona lýsir ofbeldinu gegn sér með sterkum hætti og hvernig hún hefnir sín fyrir nauðgunina og afleiðingar hennar:
 
 
SÍMONARKVÆÐI
 
Staðið upp, eðla hofmenn
ef þér viljið vísu læra.
Setja skal þing í Dana kóngs bý.
Hvað vilja bændur kæra?
Nú mega hofmenn læra.
 
Það er hann herra kóng Símon,
hann talar í brysti sér:
„Væri hér frúin Ingigerður
hún bæri blak af mér.“
 
Fram kom frúin Ingigerður
með sitt gula hár:
„Heyrðu það, herra kóng Símon,
eg sé vel hvar þú stár.
 
Eg gaf þér minn öl og mat
á míns herrans traust.
Heyrðu það kóng Símon,
þú þást það þakkarlaust.
 
Eg gaf þér minn öl og mat
sem þú vildir þiggja,
sængin stár með rauða gull
þar þú áttir að liggja.
 
Þú braust upp mitt hæga loft,
þar að eg inni lá,
bæði hurð og gættum,
plokkaðir lokur í frá.
 
Þú lést þína sveina
halda fótum mín
með þú, herra kóng Símon,
framdir vilja þín.
 
Þú tókst í minn gula lokk
og vast mitt höfðuð í serk
með þú, herra kóng Símon,
vannst það níðingsverk.
 
Eg var mig með bóndans barni
í það sama sinn.
Það komst ekki lífs í heim
fyrir skemmdargjörning þinn.“
 
„Þrjátigi merkur rauðagulls
býð eg þér til bóta;
viljir þú mína þjónustu þiggja
þá fell eg þér til fóta.“
 
„Eg vil ei þitt rauðagull
og ei þitt fótafall.
Þú skalt missa lífið í dag
fyrir veröldinni all.“
 
Þeir tóku hann herra kóng Símon
og hjuggu hans höfuð við stokk
en hún frúin Ingigerður
hélt útí hans lokk.
 
Hún tók í hans gula lokk
og kastaði hans höfði í saur.
„Heyrðu það, herra kóng Símon,
þú gjörðir svo til vor.“
 
Engin skyldi kvinnan
svíkja sinn eiginmann.
Hér óður er á enda kominn,
læri hvör sem kann.
Hvað vilja bændur kæra?
Nú mega hofmenn læra.
 
 
 
The Rape of Tamar eftir Eustache Le Sueur, líkl. frá 1640
 
 
Í ágripi af ofannefndri grein Ingibjargar Eyþórsdóttur segir:
 
Í sagnadönsum sem varðveittir eru á Íslandi eru konur og raddir kvenna mjög áberandi enda leituðu sögur af karlhetjum frekar í rímnaformið. Tungutak dansanna er sérstætt og útlenskuskotið, formúlur eru óspart notaðar og frásagnaraðferðin er hlutlæg og skýr. Ástin er fyrirferðarmikið umfjöllunarefni í sagnadönsum en ekki síður ofbeldi sem oft á tíðum er kynferðislegt. Í greininni er sagt frá bakgrunni sagnadansa og tilkomu þeirra hér á landi. Þeir eru ræddir sem hluti munnlegrar menningar um langt skeið áður en þeir rötuðu á blað og urðu hluti íslenskra bókmennta, þar sem menntaðir karlar skráðu kvæði eftir nafnlausum konum. Sjö kvæði eru síðan notuð til að sýna nánar hinar mismunandi birtingarmyndir ofbeldis. Öll eru þau hádramatísk og segja frá erfiðri reynslu: harðræði, nauðgunum, barnsfæðingum og barnadauða, og í sumum þeirra taka fórnarlömbin til sinna ráða og hefna grimmilega. Bent er á það ósamræmi sem virðist felast í því að syngja og kveða kvæði sem fjalla um svo erfiða hluti á dansskemmtunum. Leiddar eru líkur að því að sagnadansar, sem fjalla um hlutskipti kvenna, hafi fyrst og fremst verið kveðnir og ortir af konum og jafnvel verið þeim huggun og leið til að takast á við kynbundið ofbeldi í raunheimum.