SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 2. apríl 2023

MÆÐGUR: HIÐ ÓMÖGULEGA SAMBAND? Um bækurnar um Þóru frá Hvammi eftir Ragnheiði Jónsdóttur

 

 

Klýtemnestra og Elektra

Innan sálgreiningarinnar er til hugtak samsvarandi hugtakinu ödipusarduld nema hvað það á við stúlkur eingöngu; elektruduld. Það var Jung sem fyrstur notaði þetta hugtak (1913) í tengslum við sjálfsmyndarmótun stúlkna og taldi það sambærilegt við ödipusarduldina í sjálfsmyndarmótun drengja. Freud hafnaði hins vegar alveg þessu hugtaki þar sem hann taldi sjálfsmyndarmótun drengja og stúlkna alls ekki sambærilega.1 Með hugtakinu vísar Jung í leikrit Sófóklesar, Elektru, á sama hátt og Freud vísar í leikrit hans Ödipus konung til að skýra kenningar sínar um ödipusarduldina. Leikritið Elektra er byggt á sögninni um Agamemnon hinn sigursæla sem var myrtur af konu sinni Klýtemnestru og friðli hennar þegar hann sneri heim eftir fall Trjóuborgar. Meginefni leikritsins er harmur dóttur þeirra Elektru – hatur hennar á móður sinni og hvernig hún eggjar bróður sinn Oresteis til hefnda. Í Elektru má sjá goðsögn um samband móður og dóttur sem er andstæð goðsögninni um samband móður og sonar eins og það birtist í Ödipus konungi. Í þessum tveimur sögnum höfum við sem sagt dæmi um son sem elskar móður sína og dóttur sem hatar móður sínar. Hér verður látið liggja á milli hluta hvort slíkar tilfinningar séu nauðsynlegur þáttur í þroskaferli einstaklingsins en það er hinsvegar ótrúlegt en satt að slík mynstur er afar algeng í bókmenntum, íslenskum sem erlendum, og hér á eftir ætla ég að rýna í tvenn slík mæðgnasambönd sem eru vægast sagt erfið – svo ekki sé tekið sterkara til orða. Um er að ræða samband Þóru frá Hvammi við móður sína annars vegar og hins vegar samband Þóru við dóttur sína, Lóu. Á stöku stað mun ég vísa til sambands Ugga Greipssonar og móður hans Sesselíu Ketilsdóttur, í Fjallkirkju Gunnars Gunnarssonar, til samanburðar.

 

„Mig grunaði ekki..., það óbrúanlega djúp“

Sagan um Þóru frá Hvammi eftir Ragnheiði Jónsdóttur kom út í fjórum bindum á árunum 1954-1964: (I) Ég á gull að gjalda (1954), (II) Aðgát skal höfð (1955), (III) Sárt brenna gómarnir (1958) og (IV) Og enn spretta laukar (1964). Allar bera bækurnar undirtitilinn Úr minnisblöðum Þóru frá Hvammi.2 Saga Þóru frá Hvammi er stærsta þroskasaga konu sem samin hefur verið af íslenskum rithöfundi. Fróðlegt er að bera hana saman við Fjallkirkju Gunnars Gunnarssonar sem er ein stærsta þroskasaga karlmanns sem út hefur komið á íslensku. Eins og í Fjallkirkjunni er um fyrstu persónu frásögn að ræða í sögu Þóru frá Hvammi og að mörgu leyti eru verkin eins upp byggð. Sögukona rekur æviferil sinn í tímaröð frá fyrstu bernskuminningum fram á fullorðinsár. Saga Þóru nær reyndar yfir lengra tímabil ævinnar en saga Ugga en á hinn bóginn er saga Ugga mun ítarlegri og lengri að blaðsíðutali. Þau Uggi og Þóra eiga margt sameiginlegt. Uppruni þeirra er svipaður; bæði eru þau fædd og uppalin í íslenskri sveit og fjölskyldur þeirra tilheyra sömu stétt. Tími verkanna er ekki alveg sá sami en skarast að miklum hluta. Uggi er fæddur um aldamótin en Þóra í byrjun þriðja áratugarins. Ýmsa skapgerðarþætti eiga þau sameiginlega og reyndar einnig eitt líkamlegt einkenni; þau eru bæði rauðhærð og það atriði skapar þeim sérstöðu. Bæði heillast þau Þóra og Uggi af bókum, af skáldskapnum, á unga aldri. Bæði þrá þau að menntast og bera þann draum í brjósti að verða rithöfundar þótt mikið beri á milli hvað varðar afstöðu til draumsins og vilja til að uppfylla hann. En lengra nær samanburðurinn varla. Líf þeirra Þóru og Ugga er ólíkt þó að grundvallarþræðirnir séu af sama toga. Og afstaða þeirra til móður sinnar er gjörólík.

Hægt er að skipta þroskasögu Ugga niður í þrjá hluta sem vel mætti kalla (1) paradís, (2) paradísarmissi og (3) paradísarheimt. Fyrsti hlutinn vísar þá til bernskuáranna í faðmi móðurinnar; annar hlutinn markast af ótímabærum móðurmissi og sá þriðji af kynnum Ugga af ástinni sinni (sem ber sama nafn og móðir hans) sem hann giftist. Þroskasögu Þóru má hins vegar skipta í tvennt. Skilin markast af því þegar Þóra verður sjálf móðir en það er í lok annars bindis sagnabálksins. Í sögu Þóru frá Hvammi er því um að ræða tvenn mæðgnasambönd, eins og áður er nefnt. Fyrri hluti sögu Þóru nær yfir barnæsku hennar, unglings- og þroskaár og endar á því að hún fæðir dóttur sína í heiminn. Seinni hlutinn lýsir móðurhlutverki Þóru og sambandi hennar dóttur sína. Innri tími verksins í heild er 33 ár nánar tiltekið 1927-1960. Bein ártöl eru ekki gefin upp í frásögninni en ýmsir samtímaatburðir, svo sem herseta Breta, gera lesanda kleift að tímasetja verkið. Þóra er 5 ára gömul í sögubyrjun og er því fædd 1922. Í sögulok er hún því 38 ára gömul og að verða amma.

 

Fyrri hluti: Barnæska og þroskaár - samband við móður

Fyrsta bindi sögu Þóru frá Hvammi spannar um það bil tíu ár: frá því að hún er 5 ára og þar til hún er 15 ára á leið til Reykjavíkur í menntaskóla. Fyrstu kaflarnir lýsa bernsku Þóru og lífinu í foreldrahúsum að Hvammi. Fjölskylda Þóru er hin dæmigerða íslenska stórfjölskylda eins og hún gerðist í íslenskri sveit á fyrri hluta tuttugustu aldar. Þar eru afi og amma, pabbi og mamma, fjögur systkini í sögubyrjun en eitt bætist við síðar. Þóra er þriðja barnið í systkinaröðinni. Eldri eru Helgi og Dísa, yngri Inga og síðar Óli. Einnig eru á heimilinu vinnuhjú af yngri kynslóðinni, Mundi og Gunna, og ein gömul vinnukona, Imba gamla, sem er svipuð persóna og Begga gamla í Fjallkirkjunni, íhaldssöm, guðhrædd og kann að segja sögur. Þóra elst því upp við svipaðar aðstæður og Uggi en afstaða þeirra til umhverfis síns og fjölskyldu er mjög ólík eins og áður er getið. Uggi skynjar sig sem hluta af þeirri heild sem fjölskylda hans myndar. Hann er þátttakandi í starfi fjölskyldunnar og lifir í sátt og samlyndi við menn og náttúru. Þóra skynjar sig hins vegar fyrst og fremst sem utangarðs. Hún er öðruvísi en aðrir og þá sérstaklega öðruvísi en önnur börn. Hún er ekki ljóshærð og fríð eins og systkini hennar heldur rauðhærð og „hjárænuleg“. Sérstaklega fer hún halloka í samanburði við eldri systur sína Dísu. Auk þess að vera ljóshærð og fríð er Dísa iðin og myndarleg: Reglulega „búkonuleg“. Samanburðurinn við Dísu er reyndar einn af rauðu þráðum sögunnar eins og komið verður að síðar.

Tvennt er það sem Þóru svíður mest í æsku. Þetta tvennt stendur í beinni mótsögn hvort við annað og tengist tveimur draumum sem Þóra á sér. Annars vegar svíður henni að vera ekki strákur:

 

Ég kæri mig ekkert um að hafa sítt hár og silkiband. Það er miklu betra að hafa klippt hár, eins og Helgi bróðir minn. Það er betra að vera strákur. Þeir þurfa ekki að læra að prjóna, og þeir verða karlmenn, þegar þeir eru orðnir stórir. Karlmenn lesa blöðin og stórar bækur, og þeir tala saman um það, sem gerist langt útí löndum, þar sem alltaf er sólskin, og rúsínur og gráfíkjur vaxa eins og gras á jörðinni. Þeir kunna líka mörg löng og skrýtin orð, sem rúmast ekki inni í höfðinu á mér (I 20).

- Mig langar ekki að vera myndarleg og prjóna. Ég ætla að lesa allar bækur sem til eru í heiminum, svo að ég viti meira en karlmenn (I 40).

 

Mismunandi hlutverk kynjanna leita mjög á huga Þóru. Karlmönnum tengist heimur bóka og menntunar en konum tengjast heimilisstörf og hannyrðir. Draumur Þóru um að vera strákur tengist því menntunarþrá hennar. Gagnstætt þessum draumi er hins vegar annar draumur um að vera falleg kóngdóttir með hrynjandi gullhár, eiga hvítan hest og borða af gulldiskum (I 21 og 27). Þótt þessa mótsagnakenndu drauma megi ef til vill túlka sem eðlilega þætti barnssálar er málið ekki svo einfalt þar sem þeir fylgja Þóru í gegnum allan hennar þroskaferil. Þeir togast á í henni og eiga sinn þátt í afstöðu hennar til lífsins og þeirri leið sem hún velur sér allt til söguloka.

Tvær persónur í fjölskyldu Þóru standa sem fulltrúar fyrir þessa tvo ólíku drauma. Það eru ekki pabbi og mamma heldur afi og Dísa systir. Afi skipar heiðurssess í huga Þóru. Hún líkir honum við guð. Afi les í gömlum bókum og veit þess vegna allt að mati Þóru. Hann er Þóru bestur allra, ætíð þolinmóður og skilningsríkur. Hann opnar Þóru heim bóka og skáldskapar, segir henni sögur og ævintýri. Afi er sérstaklega athyglisverð persóna samanborið við móður Þóru. Hann skipar það sæti sem almennt er talið að móðirin eigi að skipa í huga barnsins. Ólíkt afa er móðir Þóru hins vegar óþolinmóð og hranaleg. Hún hefur alltaf mikið að gera og einu samskipti hennar við Þóru virðast felast í því að reyna að halda henni að einhverju verki. Móðirin er líka sú persóna sem helst reynir að halda Þóru frá heimi bóka og skáldskapar. Af þessu er dregin sérlega sterk mynd í upphafi fyrstu bókar. Þóra situr í sólargeislanum með kisu í fanginu og allt „er svo hlýtt og bjart og kyrrt“ (I 19). Þóru finnst vera sunnudagur í sólargeislanum þótt fyrir utan hann sé reyndar bara dökkur skuggalegur mánudagur. Afi situr og les og amma situr við rokkinn og spinnur. Þóra spyr þau spurninga um lífið og tilveruna sem þau reyna að leysa úr á sinn nærgætna hátt. Fullkominn friður ríkir í baðstofunni þangað til að móðirin birtist:

 

En nú fer gustur um baðstofuna, og dökkur skuggi leggst yfir sólargeislann.

- Farðu undir eins út í góða veðrið, stelpa. Það er dáfallegt ráðlag að flatmaga á gólfinu hjá kettinum. Þú getur aldrei verið eins og önnur börn (I 22).

 

Þannig er lýst komu móðurinnar sem er jafnframt fyrsta innkoma hennar í söguna. Hún raskar jafnvæginu sem ríkir í baðstofunni, talar hranalega og ópersónulega til dóttur sinnar nefnir hana stelpu en ekki með nafni og skipar henni út úr hlýju baðstofunnar „og skugginn byrgir geislann meir og meir“ (I 22). Þessi innkoma móðurinnar er táknræn fyrir veru hennar í sögunni í heild.

Dísa systir Þóru tengist hinum draumnum því að hún er lifandi ímynd þeirrar kóngsdóttur sem Þóra þráir að vera; ljóshærð, falleg, myndarleg og iðin. Móðir þeirra, líkt og Þóra sjálf, ber þær sífellt saman og er sá samanburður Þóru mjög í óhag. Svo er að minnsta kosti yfirborðsmerking textans. Hins vegar þarf ekki að rýna djúpt til að sjá að hin sanna merking samanburðarins er þveröfug. Þóra er miklu merkilegri manneskja en Dísa, eins og sagan á eftir að leiða áþreifanlega í ljós, það er bara hið óvinveitta umhverfi sem kemur ekki auga á það. Það sem kemur einna helst upp um þessa fölsku yfirborðsmerkingu sögunnar er háttalag Þóru og hegðun hennar í garð Dísu og móðurinnar. Í sögunni er ekkert sem bendir til þess að Dísa hefji sig yfir Þóru eða stæri sig af „yfirburðum“ sínum. Þvert á móti reynir Dísa hvað eftir annað að ná sambandi við Þóru; bæði þegar þær eru börn og eftir að þær verða fullorðnar. Þóra hafnar henni hins vegar alltaf. Afstaða hennar til Dísu stjórnast af taumlausri afbrýðisemi og sjálfsvorkunn. Gott dæmi um þetta er að finna í fyrstu bókinni þegar börn frá nágrannabæjunum koma í heimsókn að vetralagi og þau byggja saman snjóhús. Dísa og Helgi hafa kallað á Þóru út í leikinn og hún komið, treg þó.

 

- Við skulum gera úr því höll, segir Dísa, og svo verð ég snædrottingin. Það koma líka krakkar af hinum bæjunum og Dísa er alltaf drottning og allir syngja og dansa í kringum hana. Ég vil ekki vera hirðmær og ég fer að búa til annað hús handa mér, en krakkarnir vilja ekki hjálpa mér og segja að ég sé fýlupoki. Dísa hlær og hvíslar leyndarmálum að hinum stelpunum, en ég sit ein í litla snjókofanum mínum og kuldinn bítur mig í eyrun og tærnar (I 57).

 

Krakkarnir segja Þóru „fýlupúka“ og þannig kemur hún lesanda óhjákvæmilega einnig fyrir sjónir í samskiptum sínum við Dísu. Hún er ætíð neikvæð í hennar garð, stríðir henni jafnvel meðvitað á sama hátt og hún óhlýðnast móður sinni meðvitað.  Það kann að virðast sem afbrýðisemi Þóru í garð Dísu og afstaða hennar til móður sinnar eigi rætur í því að móðirin tekur Dísu fram yfir hana. Slík skýring er þó ekki nægjanleg þar sem þvermóðska Þóru gagnvart móðurinni er algjör. Hún reynir aldrei að nálgast hana og sýnir engar hlýjar tilfinningar í hennar garð, með öðrum orðum þá sýnir Þóra engin heilbrigð merki þess að óska eftir blíðu móður sinnar. Þess vegna er ekki hægt að skýra afstöðu hennar til Dísu eingöngu sem sök móðurinnar. Líklegri skýring virðist vera afbrýðisemi út í fegurð Dísu. Alltaf þegar minnst er á fegurð Dísu og hrifningu karlmanna á henni flýr Þóra til bóka sinna. Hún notar bækurnar sem uppbót fyrir skort á fegurð. Þannig er draumurinn um menntunina nokkurs konar uppbót fyrir drauminn um fegurðina. Ef hún getur ekki verið gullinhærð kóngsdóttir getur hún alltént reynt að vera gáfuð og lærð. Þetta verður enn greinilegra í síðari bókum sagnabálksins. Þegar piltar bjóða Dísu út eða hrósa henni fer Þóra ætíð að lesa eða beygja erlendar sagnir!

Draumur Þóru um menntun tengist einnig þörf hennar til að hefja sig yfir aðra. „Ég ætla einhvern tíma að vita meira en allir aðrir“ (I 80) segir hún við föður sinn þegar hún er 13 ára og hann er að hvetja hana til að samlagast öðrum börnum og fara á skemmtun sem haldin er í sveitinni. Ástæða þess að hún kærði sig ekki um að fara er hins vegar þessi: „Mig langar ekki á skemmtun og ég kann ekki að dansa. Það vilja allir dansa við Dísu og hún brosir til strákanna eins og fullorðin stúlka“ (I 80). Áður hefur Þóra hugsað með sér: „Það gerir ekkert til þó að ég sé ólík Dísu. Ég skal seinna gera eitthvað merkilegt sem hún getur ekki“ (I 63). Þannig virðist menntunarþráin, sem er eitt meginþema sögu Þóru frá Hvammi, vera sprottin af afbrýðisemi hennar í garð systur sinnar samfara þörf fyrir að hefja sig yfir aðra.

Framan af sögu virðast litlar líkur á því að Þóra geti fengið menntunarþrá sinni fullnægt. Fjölskyldan er fátæk og hefur ekki efni á að kosta hana til náms. Þar verður elsti bróðir hennar Helgi að ganga fyrir enda er hann haldinn sömu þrá og hefur mikla hæfileika til náms. Þóru svíður sárt þetta misrétti og tengir það kyni sínu: „[...] mér finnst óréttlæti að láta mig gjalda þess að ég er stelpa“ (I 85) segir hún við föður sinn. En þessi yfirlýsing Þóru er þó rifin niður jafnharðan – af henni sjálfri. Dísu systur hennar er ekki heldur ætlað að menntast og segir Þóru ekki vandara en sér. „Ég ansa henni ekki. Mér dettur ekki í hug að segja henni að hún þurfi ekki að vita meira en aðrar stelpur af því að hún sé falleg og hafi fengið að leika álfadrottningu á skólaskemmtuninni“ (I 85). Óréttlætið sem Þóra ber fyrir sig og byggist á kynjamisrétti gildir ekki fyrir Dísu þar sem hún er falleg og þarf því ekki menntunar með.

Ekki virðist Þóra heldur tengja kynjamisrétti við stöðu móður sinnar á heimilinu eða þá staðreynd að hún hefur alltaf mikið að gera, er alltaf að flýta sér. Þóra kvartar yfir önnum móðurinnar af þeirri orsök einni að það lendir á henni að hjálpa til við húsverkin og gæta yngri systur sinnar. Þóru virðist vera lagið að þvælast fyrir móður sinni við verk hennar og fær að launum hranaleg orð og jafnvel hrindingar: „...mamma stjakar við mér ef ég er fyrir henni á gólfinu“. „- Hvað ertu alltaf að slóra, stelpan þín? segir mamma. Farðu nú undireins að búa um rúmin og sópa gólfið“ (I 51). Þegar Þóra veikist sem barn er viðbrögðum móðurinnar lýst þannig: „- Hvað er að sjá þig í framan, barn? Ætli þú sért ekki að veikjast líka? segir mamma, en gleymir mér svo aftur“ (I 31). Þegar Þóra er að jafna sig eftir veikindin er það pabbi hennar sem spyr um líðan hennar en ekki mamma. Þessi lýsing er sérlega athyglisverð borin saman við lýsinguna á veikindum Ugga í Fjallkirkjunni þar sem móðir hans situr hjá honum allan tímann og hlúir að honum.

Aðeins á einum stað, í fyrsta bindi sögunnar, tengir Þóra kjör móður sinnar við kyn hennar: „Ég ætla aldrei að gifta mig. Ég ætla að kaupa bækur og myndir og falleg föt fyrir alla peningana mína þegar ég er orðin stór. Mamma hefur ekki tíma til að gera neitt sem er gaman að af því að hún er gift og á börn“ (I 50). Strax á eftir þessari klausu hugleiðir Þóra hlutskipti kúnna sem hún er að reka í haga: „Það er ekki gaman að vera kýr. Þær geta hvorki talað né lesið og horfa ekkert á blómin eða neitt sem er fallegt. Þær bíta gras og jórtra allan liðlangan daginn og glápa þreytulega út í bláinn“ (I 51). Þannig líkir Þóra móður sinni í raun við kú þótt samlíkingin sé ekki útfærð nánar í textanum. Það sama er uppi á teningnum þegar móðirin liggur á sæng að eiga yngsta barnið. Á sömu stundu er kýrin Skjalda að bera í fjósinu. Við það tækifæri fræðir Imba gamla Þóru um ástæður þess að mæður og skepnur veikjast er þær ala afkvæmi. Hún segir henni söguna af syndafallinu og Þóru finnst guð vera strangur í refsingum: „[...] mér finnst ekki rétt að láta mömmu og Skjöldu gjalda þess að Eva syndgaði“ (I 48). Þessi kaldranalega afstaða Þóru til móður sinnar og Dísu sem lýst hefur verið hér á undan sýnir að menntunarþrá Þóru er sprottin af skertri sjálfsmynd hennar fremur en heilindum. Grundvöllur þeirrar sjálfsmyndar er sjálfsvorkunn samfara löngun til að hefja sig yfir aðra. Strax á barnsaldri má sjá þróast í Þóru masókisma sprottinn upp af sjálfsvorkunn sem Þóra gengst upp í eins og enn ljósara verður í seinni hluta sagnabálksins. Í þeirri vissu Þóru að þrátt fyrir allt sé meira í hana spunnið en aðra, þótt umhverfið sjái það ekki, má sjá vísi að narkissma sem einnig á eftir að blómstra sem eitt megineinkenni hennar á fullorðinsárum. Þessir þættir persónuleika Þóru skýrast mjög eftir að hún verður sjálf móðir.

Það atvik sem leiðir til þess að Þóra fær ósk sína um að ganga menntaveginn uppfyllta verður jafnframt til að gróðursetja í hana sektarkennd. Ástæðan er andlát Helga bróður hennar. Þegar hann veikist og deyr kennir Þóra sér um það þar sem hún hefur beðið til guðs (og afa) um að opna henni leið til mennta. Sektarkenndin blossar upp áður en Helgi deyr því að Þóru er ljóst hvaða afleiðingar dauði hans getur haft fyrir hana sjálfa: „Elsku afi minn, biddu guð að lofa honum að lifa. Þú veist að það var ekki þetta sem ég vildi. Ég skal sætta mig við að vera alltaf heima ef Helga batnar“ (I 105). En Helgi deyr og síðustu orð hans eru bæn um að Þóra fái að ganga menntaveginn. Eftir lát hans er Þóra svo þrúguð af sektarkennd að hún þorir vart að líta í augun á foreldrum sínum. Hún þorir ekki heldur að minnast meira á skólagöngu sína. Það er faðir hennar sem tekur af skarið og kveður upp úr með að hún skuli halda  fram námi þar sem það hafi verið vilji bróður hennar. „Vilji bróður míns. Guð veit að ég vildi ekki kaupa þetta svo dýru verði. Ég leggst fram á borðið og græt af söknuði og samviskubiti út af því að geta samt ekki annað en verið glöð. En ég veit að Helgi skilur þetta“ (I 111). Með samviskubitið í vegarnesti heldur Þóra til Reykjavíkur til að ganga þyrnum stráðan veg til menntunar.

Annað bindi sögu Þóru frá Hvammi hefst nokkrum árum síðar eða þegar hún er   lokaári menntaskólans. Á námsárunum hefur hún búið við kröpp kjör í Reykjavík og þurft að vinna hörðum höndum samhliða náminu. Þóra spyr sjálfa sig hvers vegna hún hefur lagt allt þetta á sig og niðurstaða hennar staðfestir þá skýringu á menntunarþránni sem lesa mátti út úr fyrsta bindinu.

 

Var það ekki fyrst og fremst vegna hársins að ég þurfti að verða svona sprenglærð, eða var það af því að ég hafði ekki von um að verða boðin á Borgina eins og Dísa, eða var það kannski af löngun til þess að skilja guð?

Ég held áfram að skoða mig í speglinum.

Ég er líklega helst til föl og þunn á vangann, en augun eru stór og dökk og það er ekki gott að greina litinn. Þetta er nýtt andlit og væri líklega sæmilegt með góðri snyrtingu og fallegum kjól.3

Það er líka ólíkt uppbyggilegra að lesa klassískar bókmenntir en fara á dansæfingar (II 134-5).

 

Þóra leigir herbergiskytru og borgar leiguna með gólfþvotti. Leigusali hennar, frú Sigríður, er yfirstéttarfrú og persónusköpun hennar ber alla hefðbundna drætti slíkrar (bókmennta)persónu. Hún er snobbuð, eigingjörn og hefur enga samúð með þeim sem þurfa að berjast í bökkum eins og Þóra og konan sem þvær fyrir hana þvottinn. Þvottakonan heitir Ólöf og á eftir að koma mikið við sögu Þóru. Þóra og Ólöf eru sömu stéttar og milli þeirra ríkir gagnkvæmur skilningur og samúð þótt aldursmunurinn sé mikill. Í Ólöfu finnur Þóra móðurstaðgengil eins og greint verður frá hér á eftir.

Tveir karlmenn koma mikið við sögu í öðru bindi sagnabálksins og reyndar allt til enda sögu Þóru. Báðum hefur hún kynnst heima í sveitinni. Annar þeirra, Geiri, var sendur að Hvammi í nokkurs konar betrunarvist því hann hafði verið á glapstigum í Reykjavík. Hinn, Árni, er aftur á móti yfirstéttarpiltur og er frændi prestsins í sveit Þóru. Hann kom í sveitina til að láta frænda sinn uppfræða sig og ferma. Árni og Geiri eru hinar fullkomnu andstæður og báðir höfða þeir til Þóru þótt á ólíkan hátt sé. Árni er mennta-maðurinn. Hann og Þóra eru samferða í gegnum allt sitt nám og eiga sömu áhugamál. Milli þeirra er þó stéttamunur sem virðist ásamt öðru koma í veg fyrir að þau nái saman og er það Þóra sem setur þann mun fyrir sig fremur en Árni. Aðrar og dýpri ástæður liggja þó í raun fyrir því að þau fara ætíð á mis, eins og komið verður að síðar. Geiri er hins vegar af lágstétt. Hann er grófur og ruddalegur að vissu marki; tákn frumstæðra hvata og ástríðna. Þóra laðast að Geira kynferðislega þótt hún reyni ætíð að bæla þær tilfinningar sínar. Að Árna laðast hún hins vegar að því er virðist einungis andlega. Geiri og Árni eiga margt sameiginlegt með þeim Steinþóri og Arnaldi í Sölku Völku. Þetta má meðal annars sjá í myndmáli textans. Geiri notar svipuð orð og Steinþór við Sölku Völku þegar hann lýsir tilfinningum sínum til Þóru. Hann talar um að hann hafi hana í blóðinu og líkir henni við náttúruöflin (II 228). Einnig gefur hann henni hring sem hann hefur keypt í siglingu til Spánar (II 151). Lesendur Sölku Völku sjá hér strax samsvaranir.

Endurfundir Þóru og Geira í Reykjavík verða afdrifaríkir fyrir líf beggja. Þóra hefur aldrei verið við karlmann kennd og er reyndar tilvalið fordæmi ungra stúlkna í siðferði og skírlífi gagnstætt Dísu systur sem er bæði lauslát og kærulaus og að sjálfsögðu í ástandinu! Geiri kemur í heimsókn til Þóru að kvöldlagi og þröngvar sér inn á hana með gjafir og vín í farteskinu. Hann dregur hana síðan á tálar þegar hann hefur platað ofan í hana nógu miklu magni af víni, sem að hann telur henni trú um að sé ávaxtasafi, til að veikja mótstöðuaflið. Mikil togstreita er í lýsingunni á samförum þeirra. Í aðra röndina lætur sögukona (Þóra) sem að hún sé nær meðvitundarleysi og því fullkomlega ósjálfbjarga þegar Geiri tekur hana. Hins vegar kemur fram að hún nýtur atviksins að einhverju leyti:

 

 Ég vil ekki þetta og þó er eitthvað í mér sem vill það, beinlínis krefst þess.

- Ég elska þig, hvíslar hann og fer um mig logheitum höndum.

- Nei, nei, nei. Ekki þetta. Ég verð að forða mér. En ég get ekki hreyft mig og ekki gefið neitt hljóð frá mér. Ég sogast í eitthvert botnlaust hyldýpi og hrekk aðeins upp við snöggan, nístandi sársauka sem lyftir mér upp úr djúpinu og ber mig í burtu frá sjálfri mér, eitthvað langt út í ómælisgeiminn (II 159).

 

Af þessum fyrstu kynmökum Þóru verður getnaður sem leiðir til fæðingu dótturinnar Lóu. Lýsingin á fæðingu Lóu hefur greinilegar samsvaranir við meyfæðinguna. Þóra fær hríðir á sjálfa jólanóttina. Hún fæðir barnið heima í herbergiskytru sem er ekki vænlegri staður en fjárhúsið forðum. Þegar hríðirnar kvelja hana ómar úr útvarpinu: „Flekklaus hann mærin fæddi um nátt“ (II 210) og Þóra  kallar á Maríu í neyð sinni: „Heilaga María, miskunna þú mér ef þú ert nokkurs staðar á lífi“ (II 210). Henni verður hugsað til þess að María hafði þó Jósep sér til halds og trausts en sjálf er hún ein. Þá skýtur upp í huga hennar mynd af Árna í hlutverki Jóseps. Árni er „eiginmaðurinn“ sem „heilagur andi“ - eða Geiri - hefur kokkálað! Rétt áður en barnið fæðist birtist afi Þóru og segir við hana: „Nú færðu í hendur hlutverk listamannsins“ (II 212). Þau orð eru eftirtektarverð með hliðsjón af afstöðu Þóru til dóttur sinnar og uppeldishlutverksins síðar. Lóa fæðist svo að sjálfsögðu á jólanótt eins og frelsarinn og er þá samsvörunin við meyfæðinguna fullkomnuð. Þessi mynd af Þóru er sterk mótmynd við systur hennar Dísu sem lætur eyða fóstri skömmu eftir fæðingu Lóu (II 223-4).

Eins og minnst var á hér að framan er Ólöf gamla einhvers konar móðurstaðgengill fyrir Þóru. Til hennar leitar hún í nauðum sínum þegar hún verður ófrísk. Hins vegar heldur hún ástandi sínu vandlega leyndu fyrir foreldrum sínum allt fram yfir fæðingu Lóu. Ólöf er á sjötugsaldri þegar Þóra flytur inn til hennar og samband þeirra byggist á gagnkvæmri hjálp. Reyndar er gefið greinilega í skyn að sambúð þeirra komi Ólöfu enn betur en Þóru. Loksins fær hún eitthvað til að hugsa um og einhvern til að sinna sér gamalli og útslitinni af ævilöngum þrældómi. En sambúðin við Ólöfu ræður úrslitum hvað varðar framtíð Þóru og skólagöngu. Án Ólafar hefðu henni verið flestar leiðir lokaðar. Ólöf aðstoðar Þóru og gerir engar kröfur til hennar. „Sambúðin við Ólöfu gæti ekki verið þægilegri. Hún hefur ævinlega sýnt mér móðurlega ástúð og umhyggju en er laus við alla afskiptasemi og hnýsni sem oft fylgir með móðurkærleikanum“ (III 17). Á öðrum stað orðar Þóra aftur hvað það er í fari Ólafar sem hún metur svo mikils: „[...] hnýsnislaus ástúð hennar er mér ómetanlegur styrkur“ (III 118). Ástúð Ólafar, án allrar hnýsni og krafna, er stillt upp sem andstæðu við afstöðu hinnar eiginlegu móður Þóru. Uppreisn Þóru gegn sinni eigin móður og dóttursamsömunin gagnvart Ólöfu gömlu er svo undirstrikuð með því að hún skírir dóttur sína í höfuðið á þeirri síðarnefndu og lætur Lóu kalla Ólöfu ömmu.

 

Seinni hluti: Fullorðinsár - samband við dóttur

Þegar öðru bindi sögu Þóru frá Hvammi lýkur hefur Þóra lokið stúdentsprófi. Einnig hefur hún hafnað bónorði Árna og boði hans um að flytjast með sér til útlanda til frekara náms. Hún hefur „valið“ dóttur sína; tekið hana fram yfir ástina og lítur á uppeldishlutverk sitt sem sköpunarstarf: „Uppeldisstarfið stendur orðið skýrt fyrir mér eins og mótun listaverks þar sem hver dráttur er óumræðanlega þýðingarmikill“ (II 253). En Þóra hefur einnig ákveðið að halda áfram námi og ætlar að leggja stund á norrænu í Háskóla Íslands - móður sinni til sárrar armæðu. Móðir Þóru reynir að höfða til sektarkenndar hennar til að fá hana til að flytjast aftur út í sveit með barn sitt þar sem það væri því fyrir bestu. En Þóra veit að með hjálp „hinnar móður“ sinnar getur hún sinnt bæði barni og námi.

Þegar þriðja bindi sögunnar hefst hafa enn liðið nokkur ár. Þóra stundar háskólanám samhliða því að kenna og reka þvottahús í sameiningu við Ólöfu gömlu. Þær hafa efnast ágætlega á rekstri þvottahússins sem blómstraði á tíma hersetu Breta. Staða Þóru er því með mestu ágætum fjárhags- og stéttalega séð. Hins vegar ríkir nokkur ófullnægja í sál hennar sem hún getur þó nú sem fyrr reynt að bægja burt með því að flýja í heim skáldskaparins.

 

Tómlegt líf? Nei, nei, síður en svo. Ég hef barnið, vinnuna og bækurnar. Þetta allt hefur gefið lífi mínu gildi og sættir mig við hlutskipti mitt.

Það kom fyrir að ég átti erfiðar stundir, einkum fyrstu árin eftir að ég stóð á krossgötum og sá inn í sólroðið ævintýralandið. Þá greip mig hræðileg angist og jafnvel efi um að ég hefði valið rétt. Hefði ekki verið einhver fær leið, önnur en sú sem ég valdi?

 Á þessum stundum voru það bækurnar sem björguðu mér. Ég las þangað til ég gleymdi sjálfri mér og mínum örlagaflækjum. Bækurnar víkkuðu sjóndeildarhring minn og veittu lífi mínu nýja fyllingu. Persónur í leikritum og sögum urðu mér nákomnari en þær sem ég umgekkst daglega og með því að taka innilega hlutdeild í kjörum þúsundanna dró úr sviðanum í minni eigin sál (III 9-10).

 

Hið sólrauða ævintýraland sem hún vísar til er framtíðin sem Árni bauð henni. Hún flýr í bækur sínar til að lina sársaukann sem fylgir sjálfsfórn þeirri sem hún hefur valið. En óneitanlega fylgir slíkum flótta blekking eins og sjá má t.d. af orðunum: „Persónur í leikritum og sögum urðu mér nákomnari en þær sem ég umgekkst daglega“. Hér neitar hún blákalt að horfast í augu við raunveruleikann.

Dagný Kristjánsdóttir hefur bent á að tilfinningar Þóru til dóttur sinnar byggjast á masókistískum og narkissískum hvötum. Hún hefur fórnað sér fyrir barnið (masókismi) og „tilbiður það sem fegraða og fullkomnari eftirmynd sína“ (narkissmi).4 Þetta kemur einna skýrast fram í þriðja bindi sagnabálksins Sárt brenna gómarnir. Þar er samband Þóru og Lóu í brennidepli. Þóra telur sér trú um að jafnræði ríki í sambandi hennar og Lóu: „Við ráðum hvor yfir annarri og það er ágætt samkomulag hjá okkur“ (III 91). En „jafnræði“ með fullþroska manneskju og fjögurra ára barni er auðvita ekkert jafnræði. Lóa ræður yfir mömmu sinni, stjórnar henni og kúgar hana. Sárt brenna gómarnir nær yfir um það bil eitt ár í lífi mæðgnanna. Mynd Lóu í bókinni er mynd af spilltu, dekruðu og sjálfsánægðu barni. Hún hefur notið taumlauss dekurs bæði af hendi móður sinnar og Ólafar gömlu. Hún er sannfærð um eigið ágæti og fegurð: „Ég veit, að ég er falleg og gáfuð“ (III 10) segir hún við móður sína og „það liggur við“ að Þóru þyki nóg um. Upphaf bókarinnar segir frá þrálátum óskum Lóu eftir að „eiga pabba eins og hinir krakkarnir“ (III 8). Síðasta kaflanum lýkur á að Þóra trúlofast föður Lóu. Það gerir hún fyrst og fremst að ósk Lóu. Fórnar sér eina ferðina enn þótt hún elski hann ekki. Þannig ræður barnið jafnvel yfir ástamálum móður sinnar. Þóra elskar Árna og sú ást er endurgoldin. Árni hefur kvænst í útlöndum en ekki fundið hamingjuna. Hann skilur við konu sína og flytur heim og biðlar enn til Þóru. „Það er sagt, að það takist, sem tveir vilja“ (III 53) segir Árni við Þóru þegar hún tínir til hinar ýmsu ástæður fyrir því að leiðir þeirra geti ekki lengið saman. Afstaða Þóru er í raun illskiljanleg og virðist byggjast á hreinræktuðum masókisma. En það sem ræður úrslitum í því að hún hafnar Árna er afstaða Lóu. Þegar Árni býður Þóru í helgarferð í sumarbústað neitar hún að koma nema að Lóa komi líka. Ferðin verður gjörsamlega misheppnuð allt frá upphafi til enda. Sífelldur ágreiningur rís upp vegna barnsins og vilji þess ræður alltaf afstöðu Þóru. Lóa ákveður að mamma sín skuli sitja í aftursæti bílsins hjá sér en ekki frammí hjá Árna. Hún neitar að hátta á undan mömmu sinni. Hún rís alltaf upp á móti vilja Árna - og sigrar. Ferðalagið endar á misheppnuðum samförum Árna og Þóru. Það er undarleg staðreynd að þótt Þóra telji sjálfri sér alltaf trú um að hún elski Árna höfðar hann sjaldnast kynferðislega til hennar: „Þetta verða mér sár vonbrigði og ekkert líkt því sem mig hafði dreymt um“ (III 107).

Geiri er hins vegar Lóu að skapi. Hann leitar Þóru uppi fjórum til fimm árum eftir hinn örlagaríka ástarfund þeirra og kemst þá fyrst að tilvist dóttur sinnar. Eins og áður er sagt er Geiri tákn karlmennsku og frumkrafta. Og hann hefur kynferðisleg áhrif á Þóru þrátt fyrir kaldlyndi hennar gagnvart honum. Þóru finnst það vera skylda sín að giftast honum. Hún gerir það fyrir „Lóu sína“. Bókin endar á trúlofun þeirra og samförum: „Ég gefst upp, mótþróalaust. Haustnóttin vefst um okkur, hljóð og dimm. Kossarnir falla um mig sem eldregn, og heitar sterkar hendurnar þyrla mér inn í áður óþekkt algleymi“ (III 142). Afstaða Þóru til þessarar tveggja elskhuga sinna er í meira lagi tvíræð. Orð hennar og upplifanir stangast á.

Titill þriðju bókarinnar er vísun í söguna af Gríshildi góðu sem m.a. er að finna í Kantaraborgarsögum Chaucers. Gríshildur er hin fullkomlega undirgefna eiginkona og   fórnfýsi hennar sér engin takmörk. „Sárt brenna gómarnir en sárara brennur hjartað“ er orðskviður sem á rætur í sögu Gríshildar. Sagan af Gríshildi skýtur öðru hverju upp kollinum í sögu Þóru frá Hvammi. Í barnæsku segir Imba gamla Þóru oft söguna og er það eina sagan sem hún kann vel (I 35). En Þóra vill ekki heyra þessa sögu þegar hún er barn. Hún kærir sig ekki um að samsama sig Gríshildi. Það er því táknrænt fyrir þá breytingu sem verður á Þóru á leið hennar til þroska að hún segir Lóu dóttur sinni sjálf þessa sögu (III 10) og velur orð Gríshildar sem fyrirsögn þriðja bindis minnisblaða sinna. Með sjálfsfórn sinni hefur hún samsamað sig hlutverki Gríshildar; horfið til þess masókisma sem sagan boðar konum. Kannski er hin tvíræða afstaða Þóru til elskhuganna til komin meðal annars af því að sjálf fórnin er henni mikilvæg; hún er með öðrum orðum orðin háð masókismanum. Hún bælir tilfinningar sínar til Geira, sem textinn sýnir greinilega að eru fyrir hendi, neitar að viðurkenna þær svo hún geti litið á hjónaband þeirra sem sjálfsfórn í þágu barns síns.

Fjórða og síðasta bindið fjallar um samband Þóru við Lóu fullorðna. Þegar bókin hefst hafa Þóra og Geiri verið gift í fjórtán ár. Kaldlyndi hennar gagnvart Geira hefur ekkert breyst með árunum. Hún blygðast sín þegar hún minnist „þeirra munaðarvímu, sem honum tókst að þyrla [henni] útí“ (IV 148). Hann kallar hana „ísdrottningu“ og leitar til annarra kvenna eftir blíðu. Hann heldur fram hjá Þóru m.a. með báðum systrum hennar Dísu og Ingu. Framhjáhöld Geira gefa Þóru tækifæri á að sína enn betur „göfuglyndi“ sitt og fórnfýsi og að lifa masókismann til fullnustu. Bókin bætir ekki neinum dráttum í persónuleika Þóru. Allt er við það sama: Þóra lifir fórnina til fullnustu, er með Geira af skyldurækni og vísar Árna enn á bug - af sömu skyldurækni.

Það er frekar Lóa sem er aðalpersóna fjórðu bókar. Hún er á lokaári menntaskólans í bókarbyrjun. Henni er lýst sem eigingjarnri og frekri dekurdrós. Pabbi hennar dýrkar hana og lætur allt eftir henni. Þóra verður að horfast í augu við að samband þeirra mæðgna er ekki eins og hún hefði kosið og hún reynir að kenna Geira um: „En uppeldið hefur reynst mér erfitt, fyrir taumlaust dálæti föður hennar, þó að það væri fyrst og fremst hennar vegna, sem ég giftist honum“ (IV 149). Í ljósi þess sem sagt var hér að framan um samband Þóru og Lóu þegar hún var barn á lesandinn bágt með að trúa því að hún eigi ekki sinn þátt í að spilla barninu. Áhugamál mæðgnanna eru ekki þau sömu. Lóa vex ekki upp sem „fegruð eftirmynd móður sinnar“ eins og Þóra virðist hafa ætlað:

 

Lóa mín. Einu sinni dreymdi mig barnalega drauma um allar þær yndisstundir sem við gætum átt saman þegar þú værir komin á þennan aldur. Ég gerði mér vonir um að njóta með þér þess andlega félagsskapar sem ég hef þráð en alltaf farið á mis við. Mig grunaði ekki að tuttugu ára aldursmunur gæti orðið það óbrúanlega djúp sem raun er á (IV 150).

 

Lóa tekur föður sinn greinilega fram yfir móður sína. Skapferli hennar virðist líkara skapferli Geira en Þóru. Eins og Geiri er Lóa léttlynd og fjörug og hefur gaman af að skemmta sér - sem er fjarri Þóru! Reyndar má færa að því nokkur rök að Lóa sé haldinn einhvers konar „föður-komplex“ því hún hrífst af eldri mönnum svo sem Árna og Katli fyrrverandi eiginmanni Ingu móðursystur sinnar. Með hrifningu sinni á Árna (sinnaskipti frá barnæskunni!) stofnar hún til nokkurs konar eljurígs við móður sína. En hættan líður hjá þar sem Árni elskar Þóru enn og endurgeldur ekki tilfinningar dóttur hennar.  Eigingirni og sjálfselska Lóu birtist í mörgum myndum í bókinni. Ein sterkasta mynd þess er að hún virðist ekki bera hlýjar tilfinningar til Ólafar gömlu og nennir ekki að sinna henni þegar hún liggur á banabeði. Hún á ekkert til af „göfuglyndi“ móður sinnar. Hún vill njóta lífsins og skemmta sér en ekki hanga inni yfir gamalli kerlingu. Skemmtanafíkn Lóu fylgir lauslæti sem endar  á því að hún verður barnshafandi - á síðasta ári í menntaskóla eins og móðir hennar. Lóa leitar ekki til móður sinnar í þessum vandræðum sínum fremur en Þóra á sínum tíma. Þegar hið sanna kemur í ljós verður Þóra fyrir gífurlegu áfalli. Athyglisvert er að bera saman viðbrögð hennar og hina „hnýsnislausu“ samúð Ólafar gömlu átján árum áður. Hún bregst af skilningsleysi við þeim orðum dóttur sinnar að hún taki fulla ábyrgð á gerðum sínum og hafi „hvorki verið tæld né táldregin“ (IV 271). „Hvernig ber að skilja þetta, Lóa mín?“ segir Þóra þegar Lóa tjáir henni að hún hafi ekki í huga að giftast barnsföður sínum. Barnsfaðirinn er Ketill, listamaðurinn sem Þóra og Geiri hafa bæði andúð á, og þess vegna verður áfallið þeim báðum þungbært. Þóra upplifir tíðindin sem martröð og styður dóttur sína í því að leyna þeim fyrir Geira sem lengst. Þegar það verður ekki lengur umflúið að segja honum fréttirnar reynast þær færa þau nær hvort öðru. Þóra uppgötvar allt í einu að hér sé komið enn eitt tækifæri fyrir hana að fórna sér.

 

Mér er fyllilega ljóst að ég verð að endurskoða viðhorf mitt til lífsins. Ég hef á einhvern hátt svikist úr leik og ekki verið nógu heils hugar við það hlutverk sem ég tók að mér. Ég hef brugðist bæði sem eiginkona og móðir, þrátt fyrir minn góða vilja. En lífið er ekki búið. Svalandi vorblærinn strýkst um vanga mína og fyllir mig nýjum þrótti. Ég vinn það heit að styðja Lóu mína af öllum mætti svo að þetta  fall verði ekki til þess að stýfa vængi hennar (IV 285).

 

Nýtt móðurhlutverk er í uppsiglingu fyrir Þóru - og í þetta sinn ætlar hún að reyna að fórna sér af heilum hug. Þannig tengjast þessi orð hennar öðrum orðum fyrr í bókinni: „Ég verð allt í einu gripin sárri einmanakennd og mér finnst að ég hafi að vissu leyti kastað lífi mínu á glæ. Ég gerði þó það sem ég  leit réttast og meira verður ekki heimtað. En fórn mín var ekki nógu heilshugar til þess að hún gæti borið fullkominn árangur“ (IV 178). Lóa hefur einnig öðlast nýja sýn á lífið og þroskast við þessa reynslu. Í sögulok sitja mæðgurnar saman og Lóa lofar bót og betrun: „Ég er búin að sætta mig fullkomlega við mitt hlutskipti og set nú ekki annað fyrir mig en að hafa sært ykkur pabba og valdið ykkur vonbrigðum. Ég ætla að reyna að bæta fyrir það með því að vera betri dóttir framvegis“ (IV 286). Þessi orð Lóu vekja með lesandanum grunsemdir um að nú sé hún að leggja út á sömu braut og móðir hennar: Braut sjálfsfórnar og undirgefni við „örlög“ sín!

 

Að endingu er ekki úr vegi að huga lítillega að þeim draumi sem Þóra átti sér í æsku um að verða rithöfundur. Hér að framan sagði ég að mikið bæri á milli í afstöðu Þóru og Ugga Greipssonar til rithöfundardraumsins og vilja til að uppfylla hann. Uggi vinnur þrotlaust að settu marki og lætur ekkert stöðva sig. Þóra ber hins vegar óttablandna virðingu fyrir skáldskapnum og finnst hún vera óverðug til hlutdeildar í heimi hans. „Mig dreymir stundum um að reyna einhverntíma að skrifa bók, en ég veit ekki hvort ég dirfist nokkurntíma að gera tilraunina. Er það ekki eins og að brjótast óverðug inn í helgidóm skáldskaparins“ (III 10). Afstaða Þóru til skáldskapardrauma sinna er í raun af sömu rótum og afstaða hennar til þess sem hún kallar örlög sín. Hún beygir sig fyrir örlögunum, undirgefst þeim og fórnar sér. Eins beygir hún sig fyrir skáldskapnum, tignar hann en hikar við að „brjótast óverðug inn í helgidóm“ hans. Móðurhlutverkið verður í hennar augum nokkurs konar uppbót fyrir starf listamannsins/ rithöfundarins. Hún lítur á það sem sköpunarstarf og því má segja að hún yfirfæri drauma sína um listsköpun á það. Þó er ljóst að Þóra skrifar í frístundum - ella hefðu bækurnar með undirtitilinn „úr minnisblöðum Þóru frá Hvammi“ aldrei orðið til.

  

Neðanmálsgreinar:
1 Sjá Sigmund Freud. 1977. „On Female Sexuality.“ On Sexuality: Three essays on the theory of sexuality and other works. Angela Richard (ritstj.); The Pelican Freud Library, vol. 7. James Strachey (aðalritstj.). Harmonsworth, New York: Penguin Books, bls. 375.
2 Bækurnar komu allar fyrst út hjá Helgafelli. Þær voru síðan endurútgefnar í tveimur bindum hjá bókaútgáfunni Sölku undir titlinum Þóra – baráttusaga (I. og II. bindi, 2000) og Þóra – baráttusaga II (III. Og IV. bindi, 2001) Hér á eftir mun ég tala um bækurnar í heild sem sögu Þóru frá Hvammi og blaðsíðutöl koma á eftir tilvitnunum í sviga á þann hátt að fyrst er getið bindis og síðan blaðsíðutals og vísa blaðsíðutölin í útgáfu Sölku enda er sú útgáfa mun aðgengilegri en fyrsta útgáfa.
3 Í endurútgáfu bókaútgáfunnar Sölku vantar inn í setninguna: „Þvættingur. Latneskar beygingar og snjallir stílar geta komið í staðinn“ sem er að finna í fyrstu útgáfu bókarinnar.
4 Hér er ég að vísa í óbirta cand.mag.-ritgerð Dagnýjar Kristjánsdóttur frá 1979 en árið 1996 varði Dagný doktorsritgerð sína um verk Ragnheiðar Jónsdóttur og þar fjallar hún meðal annars ítarlega um bækurnar um Þóru frá Hvammi. Dagný fjallar sérstaklega um samband Þóru og Lóu í kaflanum „Draumur um barn“. Sjá Dagný Kristjánsdóttir. 1996. Kona verður til. Um skáldsögur Ragnheiðar Jónsdóttur fyrir fullorðna. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan, s. 156-179.

 

Þessi grein birtist fyrst sem kafli í cand.mag.-ritgerð Soffíu Auðar Birgisdóttur, Móðurmynd íslenskra bókmennta,
sem skrifuð var við íslenskudeild Háskóla Íslands vorið 1989.