SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 6. maí 2023

ÞRJÁR SAMÍSKAR SKÁLDKONUR

Samar eiga sér ríka ljóðahefð og þar eru konur engir eftirbátar mannanna. Algeng stef í ljóðum þeirra er náttúran, sagan og barátta undirokaðrar þjóðar.

Samar eru frumbyggjar Norðurlanda og og koma frá svonefndu Sápmi-svæði, sem nær yfir norðurhluta Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og Kóla-skaga í Rússlandi. Samar eru taldir vera um 50.000 en það er erfitt að tilgreina nákvæman fjölda. Samíska er af finnsk-úgríska málahópnum og geymir níu mállýskur. Tunga Sama og menning hefur lengi átt undir högg að sækja og þrátt fyrir að vera varin með lagabókstafnum þurfa Samar jafnan að útskýra og verja menningu sína. (Samar: „Samískur arfur er í öllu sem ég geri.“, 2023)

Hér fyrir neðan verða þrjár samískar skáldkonur kynntar og vel valin ljóð þeirra í þýðingu Einars Braga en hann hefur þýtt fjölda ljóða eftir samísk skáld. Hér er stuðst við bók hans Undir norðurljósum - samísk ljóð sem kom út árið 2003.

 

Inghilda Tapio

Inghilda Tapio (f. 1946) fæddist í Samaþorpi nyrst í Svíþjóð. Hún gekk í samískan skóla sem kallaðist hirðingjaskóli: heimavist fyrir börn frá heimilum hreinbænda. Inghilda segir frá því að sjö ára gömul hafi hún ekki kunnað orð í sænsku og hún hafi aldrei séð svona uppábúin rúm og að aldrei hafi hún þurft að lifa eftir klukku. Inghilda hefur sent frá sér barnabækur, ýmis konar söngljóð og eina ljóðabók auk þess að fara á milli skóla til að segja frá samískum lifnaðarháttum, syngja og jojka en það síðastnefnda er ævaforn alþýðutónlist Sama sem var notuð við fornan átrúnað þeirra.

Jojk kemur einmitt við sögu í ljóði Inghilda sem hér fer á eftir:

 

Í vöggunni brosir jojkið
 
hreinskinsvettir á snúru
loðstígvél
skinnfeldur á þili
 
*
kvöldkaffi
hljóðskraf við hlóðirnar
 
*
í vöggunni
brosir jojkið
 
*
langt að heyrast raddur
einhver rær
sumarmorgunn
Árni vitjar um netin sín
 
*
mamma leggur sprek á eld
reykur stígur dreifist
 
mamma raular
eldurinn snarkar skrafar
vatnið gufar
sýður senn
þvottabrettið hallast að runna
sápan hjá
rússasápan
þau bíða
 
*
við stífluðum lækinn
með torfi og grjóti
á hylnum vögguðust
bátar úr berki
næfurflögur
 
nú stífla menn ár og vötn
en ekki fyrir barkarbáta
 
*
lækjarbakkinn
blómum skrýddur
 
vatnið
hríslast niðandi
um steina
 
streymir fram
í strengjum
hve lengi skyldi það
muna þennan stað
 
brúðvang blómanna
 
*
skógurinn bíður
hví þennan asa
 
gistu hér í nótt
 
*
jojk heyrist
nálgast
hverfur bak ásum
komdu
fylg mér
hér vex reynir
 
(bls. 33-35)
 

 

Kirsti Paltto

Kirsti Paltto (f. 1947) er fyrsta samíska konan til að senda frá sér verk á samísku. Það er smásagnasafnið Soagnu, eða Bónorðsfjör á hinu ylhýra, og kom það út árið 1971. Kirsti er eitt afkastamesta skáld samískra höfunda og hefur hlotið bæði tilnefningu til Finlandia-verðlauna og bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Þá var hún kjörin fyrsti formaður Samíska rithöfundasambandins og gegndi hún þar formennsku til margra ára.

Ljóð Kirsti bera ekki titil:

 
 
Ég er hóglátt tré
í limi mínu kveður líf sér hljóðs
Ég er vortré
um rætur mínar hríslast lágværar lindir
 
Ég er hóglátt tré
Ég el þessum eymdarheimi
brosmild börn.
 
*
Við hittumst á mjallhvítri miðsvetrarstund
Þú hafðir tindrandi augu
glóandi hendur
Þú varst hatur og ást
hingað sendur af þrælum
föngum og uindirokuðum
 
Þú komst með ný orð
inní þetta þögula land
komst með von í faðmi
kjark í heitum höndum
 
Í hjarta mér brenndir þú
boðorð sem ekki skal mást:
 
Hættu aldrei að trúa
á réttlætið og sigur fólksins
 
(bls. 41-42)

 

Mari Boine

Mari Boine er margverðlaunuð samísk skáld- og söngkona. Hún fæddist árið 1956 og ólst upp í litlu þorpi í Samalandi. Hún segir að henni hafi verið kennt í barnaskóla að fyrirlíta allt sem hana snerti, bæði tungu hennar og menningu. Það hafi verið hamrað inn í hana að hún væri af lægri tegund en Norðmenn. Auk þess fékk hún að finna fyrir því, líkt og aðrar konur, að hún væri minna virði en karlmenn.

Það var ekki fyrr en Mari var komin í kennaraskólann sem hún komst að raun um að samískur uppruni væri ekkert til að skammast sín fyrir og hún lærði að meta móðurmál sitt og sögu þjóðar sinnar. Þá tileinkaði Mari sér einnig jojk en sú tegund tónlistar var fordæmd af kristni. Mari sagði því bæði kirkju og veraldlegu valdi stríð á hendur með tónlistarflutningi sínum.

Mari yrkir mjög einlæg og persónuleg ljóð um upplifun sína af þessari útskúfun.

 

Þannig var ég sannfærð
 
Þegar ég var barn að byrja í skóla var mér skipað að tala norsku
En ég kom ekki upp orði, fannst ég lítl og heimsk,
enda sögðu þeir móðurmál mitt væri einskis virði
     Þannig var mér innrætt að samíska væri óæðri
     Þannig var mér innrætt að samíska væri óæðri
Ég óx úr grasi og gisti fjarlægar þjóðir
En gætti þess að nefna uppruna minn hvergi
Ég kættist með þeim sem höfðu Sama að háði
þótt hjarta mitt brynni sárar en nokkurs hinna
     Þannig var mér innrætt að samíska væri óæðri
     Þannig var mér innrætt að samíska væri óæðri
Nú reyni ég að endurheimta allt sem ég hef glatað
en inngróin er mér hvorki samíska né norska
Nú bið ég þig ungi Sami: gættu móðurmálsins
því málið er þinn allra mesti styrkur
     Trúðu því ekki að samíska sé óæðri
     Trúðu því ekki að samíska sé óæðri
 
(bls. 105)
 

Mari er margverðlaunuð tónlistarkona. Hún hóf söngferil sinn á norsku og ensku en skipti síðan yfir í samísku. Þar færir hún jojk í nýtt samhengi.

Geisladiskurinn GULA GULA / Hør stammødrenes stemme kom út árið 1989 og kom Mari á kortið. Titillagið kallast Heyr rödd formæðranna og má hlýða á þetta dáleiðandi lag hér og lesa íslenska þýðingu Einars Braga hér fyrir neðan:

 

Heyr rödd formæðranna
 
Heyr bróðir
heyr systir
heyr rödd forfeðranna:
Hvers vegna læturðu jörðina þjást
eitraða og kvalda?
 
Heyr bróðir
heyr systir
heyr rödd formæðranna:
Jörðin er móðir okkar
Sálgum við henni
deyjum við sjálf
 
Er þinn skaði þegar skeður
ert þú líka ánetjaður
Heyr
þau spyrja þig:
Hefurðu gleymt uppruna þínum
Þú átt bræður
þú átt systur
í regnskógum Suður-Ameríku
á hrjóstugri strönd Grænlands
Hefurðu gleymt uppruna þínum
 
(bs. 109)
 

Heimildir

EInar Bragi (þýddi). (2003). Undir norðurljósum - samísk ljóð . Reykjavík: Ljóðbylgja.

Samar: „Samískur arfur er í öllu sem ég geri.“. (2023, febrúar 6.). Sótt af Sameinuðu þjóðirnar: https://unric.org/is/samar-samiskur-arfur-er-i-ollum-sem-eg-geri/

Forsíðumyndin er fengin úr ofangreindri grein af síðu Sameinuðu þjóðanna

Myndin af Inghilda Tapio er fengin af vefsíðunni Baltic Sea Library 

Myndin af Kirsti Paltto er fengin af heimasíðu hennar

Myndin af Mari Boine er fengin af heimasíðu hennar