SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir18. júní 2018

VAR INGIBJÖRG HERFA?

Í tilefni af þjóðhátíðardegi Íslendinga er vert að gefa gaum að konunni á bak við Jón Sigurðsson, Ingibjörgu Einarsdóttur (1804-1879), Ekki er of margt ritað um íslenskar konur á 19. öld og því er fengur að heilli bók um hana sem út kom 2012 eftir Margréti Gunnarsdóttur. Í bókinni kemur m.a. fram að til er ágætis ljósmynd af Ingibjörgu sem sjaldan er notuð, hvernig skyldi standa á því?

Ingibjörg er þekktust í hlutverki hinnar þolinmóðu festarmeyjar sem sem eftir langa mæðu varð eiginkonaJóns Sigurðssonar (1811-1879). Í bók Margrétar er rakin ævisaga Ingibjargar samkvæmt brotakenndum heimildum á borð við aldarfarslýsingar, bréf, bókhaldsreikninga og minnisnótur. Þessar heimildir eru merkar fyrir sinn hatt og segja slitrótta sögu sem Margrét tengir saman á sannfærandi og skemmtilegan hátt.

Líklegt verður að teljast að þau Ingibjörg og Jón hafi skrifast á árin 12 sem þau voru trúlofuð en engin bréf milli þeirra hafa varðveist. Ætla má að þau hafi fargað þeim, líklega brennt þau og er það mikill skaði. Það hefði verið gaman að hnýsast í einkamál þeirra og svo sannarlega hefði það skerpt mynd þeirra beggja í huga þjóðarinnar, er hér komið verðugt verkefni fyrir gott skáld að skrifa eldheit ástarbréf Jóns og Ingibjargar.

Bókin fer frekar stirðlega af stað en liðkast eftir því sem á líður enda eykst þá úrval heimilda til að vinna með. Nokkuð er um endurtekningar í bókinni, bæði efnislegar og í tilvitnunum, og ásláttarvillur leynast því miður á örfáum stöðum. Margrét leitar víða heimilda, getur þeirra ávallt í eftirmálsgreinum við hvern kafla sem er gott, hún fer vel með og dregur skynsamlegar og vel rökstuddar ályktanir.

Stórskemmtilegt er að lesa um borgaralegt hvunndagslíf og neysluvenjur Ingibjargar og þeirra hjóna í Kaupmannahöfn 19. aldar. Matarboð, jólahald, fatakaup, heimsóknir, ferðalög, og ekki síst allar útréttingarnar sem hún og Jón stóðu í fyrir vini og vandalausa á Íslandi, allt frá því að kaupa tölur og tvinna, velja kaffistell og borðstofusett, upp í að hjúkra sjúklingum, fóstra börn og leita að týndum eiginmönnum.

Merkilegast við bókina er að í henni er bókstaflega dregin upp önnur mynd af Ingibjörgu en sú sem við erum vön að sjá. Margrét skoðar ljósmyndir sem teknar voru af henni en til er mynd þar sem Ingibjörg er bæði yngri og fallegri en á myndinni sem jafnan er birt af henni, þar sem hún niðurdregin og kerlingarleg. Af hverju er sú mynd oftast notuð með mynd af Jóni, unglegum og dökkum á brún og brá? Tengist það rómantíseringunni á Jóni, að hann hafi átt herfu fyrir konu sem hann neyddist til að giftast, eins konar Árni Magnússon / Arne Arnæus-syndróm? Í ljós kemur að góð mynd af Ingibjörgu er tekin á sama tíma og myndin af Jóni en þá er hann orðinn gráhærður (bls. 238). Sú mynd af henni prýðir bókarkápuna, sem er mjög flott og smart hönnuð.

Samkvæmt bók Margrétar er reyndin sú að þau Jón voru hin lukkulegustu hjón og jafnræði með þeim í flestu eða þau bættu hvort annað upp. Ingibjörg hefur verið ákveðin og skapheit kona, bóngóð og gestrisin, með hlýtt hjarta sem sló fyrir Jón og föðurlandið alla tíð. Átakanleg er lýsing í bókinni af andláti þeirra hjóna en eftir að Jón dó reis Ingibjörg ekki úr rekkju og lést 9 dögum síðar. Hennar síðasta verk var að gera erfðaskrá þar sem hún gaf íslensku þjóðinni muni og eignir þeirra hjóna og óskaði jafnframt eftir því að hvíla við hlið Jóns í íslenskri mold, dygg og trú allt til dauðans.

 

Greinin birtist áður í Kvennablaðinu, 18. febrúar 2014