SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 4. maí 2023

ANNA FRÁ MOLDNÚPI: FJÓSAKONAN SEM FÓR Á FLAKK

 Erindi eftir Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttur sem upphaflega var flutt í útvarpsþættinum Orð um bækur á Rás 1 þann 4. ágúst 2013, þar sem sagt var frá þremur íslenskum ferðasögum, Reisubók Jóns Indíafara (1661), Ferðabók Tómasar Sæmundssonar (1832–41) og Fjósakona fer út í heim eftir Önnu frá Moldnúpi (1950).

 

Við ljúkum ferðalagi okkar um íslenskar ferðasögur á fimmta áratug síðustu aldar, í Evrópu sem sleikir sár sín eftir gífurlega eyðileggingu seinni heimsstyrjaldarinnar.

Árið 1950 kom út bókin Fjósakona fer út í heim, eftir Önnu frá Moldnúpi, gefin út á kostnað höfundar. Bókin segir þrjár ferðasögur Önnu, umhverfis Ísland árið 1946, til Kaupmannahafnar 1947 og til Englands og meginlandsins 1948.

Anna frá Moldnúpi, sem fædd var 1901 og lést 1979, var almúgakona. Hún var menntuð, lærði til stúdents en lauk aldrei prófi og starfaði sem vefari í Reykjavík. Árið 1947 lagði hún af stað í fyrstu utanlandsför sína, en næstu tvo áratugina ferðaðist hún ótal sinnum til Evrópu og Bandaríkjanna og gaf út sex ferðasögur, þá síðustu árið 1970.

Anna er afsprengi íslenska borgarsamfélagsins sem Tómas Sæmundsson lét sig dreyma um. Hún er fædd við rætur Vestur-Eyjafjalla, og titlar sig oftar en ekki fjósakonu í ferðasögum sínum, en hún er samt sjálfstæð Reykjarvíkurkona í húð og hár. Í þessari fyrstu bók sinni lýsir Anna því þegar hún stendur á dekki gufuskips og starir á stórbrotna náttúru Suðurlandsins.

 

Mér flaug í hug sá mikli munur á mannlegum kjörum, að ég skyldi sitja makindalega í sólskini á dekki hraðskreiðs gufuskips og virða fyrir mér með léttúðugri aðdáun þessi héruð landsins, þar sem forfeður mínir höfðu áður barist hinni hörðustu baráttu fyrir lífinu, í návígi við dauða og tortímingu.

Mér var ljóst að alltaf yrðu íbúar þessara héraða að heyja sína baráttu við vötn og vegleysur, og að jafnsnemma sem þessar hetjur þjóðar vorrar, leggjast þessi héruð í eyði. Við sólskinsbörnin, sem lifum við öll bestu skilyrði og þægindi, ættum aldrei að gleyma, hvað við í raun og veru skuldum þeim hraustu sonum og dætrum lands okkar, sem ekki hafa brugðist skyldunni við átthaga sína og föðurland. (Anna frá Moldnúpi. 1950)

 

Nú heimsækja börn borgarinnar íslensku sveitina sem ferðalangar, dást að náttúrundrum og mannlífinu sem orðið er þeim framandlegt.

En Anna lætur sér ekki nægja að ferðast um héruð landsins. Hún vill einnig sigla út. Árið 1947, eftir mikinn barning við Verslunarráð um að fá leyfi til að kaupa gjaldeyri, tekst henni að hoppa um borð í togara á leið til Englands, upp á von og óvon að frá strandborginni Hull geti hún siglt áfram til Danmerkur.

Ferðasaga Önnu frá þeirri ferð, og ferðinni ári síðar þegar hún snýr aftur til Englands, er að mörgu leyti mun skelfilegri nútímalesendum heldur en blóðug Reisubók Jóns Indíafara sem rituð var þremur öldum fyrr. Skelfingarnar sem Jón stóð frammi fyrir eru okkur einhvern veginn alltof ævintýralegar og framandi. En skelfingar Önnu eru ó svo kunnuglegar.

Anna frá Moldnúpi er, verður að segjast, glannalegasti og hugaðasti ferðalangur sem ég hef kynnst í stopulum lestri mínum á ferðasögum síðustu árin.

Anna er alltaf að því komin að lenda í ræsinu. Hún ferðast um með örfáa aura í vasanum, bisast við að ná til næsta kónsúlats til að fá leyfi til að kaupa meiri gjaldeyri, og hikar ekki við að ganga upp að vegfarendum og biðja um hjálp þeirra og aðstoð.

Ferðasögur hennar eru sögur af mannlegum samskiptum fremur en sögur af fjarlægum löndum. Við kynnumst íslenskum togarasjómönnum, enskum hefðarfrúm, þýskum hermönnum og dönskum vörubílstjórum.

Hjarta mitt sló örar þegar hún kastar sér af fífldirfsku í ferðalög sín. Hún hikar ekki við að yfirgefa ferðafélaga sína þegar henni fer að leiðast félagsskapurinn og þegar henni finnst þeir fara að ráðskast með hana með því að bóka fyrir hana hótelherbergi eða ferðamáta sem henni hugnast ekki. Anna vill ferðast á eigin forsendum, taka eigin ákvarðanir.

Hún ber enga sérstaka virðingu fyrir samfélögunum sem hún kynnist á meginlandi Evrópu. Hún telur íslensku þjóðina, hið nýfædda lýðveldi, standa eldri borgarsamfélögum fyllilega jafnfætis. Hún ferðast ekki til að læra af Evrópubúum, heldur af hreinni ferðalöngun.

Ég var aðeins gömul uppgjafa-fjósakona undan Eyjafjöllum, sem hvorki strit né fátækt höfðu getað svipt meðfæddri heimsborgaralund. Mér fannst ofur lítið fínna að kalla útþrá mína og löngun eftir að deila geði mínu við aðrar þjóðir heimsborgarahátt en gamla, góða, íslenska flökkuhneigð, sem ef til vill hefði þó verið rökréttara. (Anna frá Moldnúpi. 1950)

 

Anna frá Moldnúpi giftist aldrei og átti engin börn, og það fé sem hún náði að nurla saman í starfi sínu í Reykjavík eyddi hún í ferðalög sín og við útgáfu ferðasagna sinna sem allar komu út á eigin kostnað. Í þessum ferðasögum er hún opinská og skefur ekkert undan skoðunum sínum á samfélaginu og einstaklingum, jafnvel nafngreindum Íslendingum.

Kímilegt er hvernig lesendur fá stutta útlitslýsingu á hverjum einasta karlmanni sem hún Anna hittir. Sumir eru fagrir og sætir, aðrir vandræðalegir, aðrir álkur.

Ég kom inn í klefa sem var lítið meira en hálfsetinn. Ég staðnæmdist í dyrunum og leit yfir hópinn; sætin snéru á víxl, svo að ég sá aðeins framan í helminginn af fólkinu. Reyndar sá ég nú bara einn mann, en þvílíkan mann hafði ég aldrei augum litið, og er þá mikið sagt. Hann var fríður eins og Apolló, og ég gat mér þess til, að hann væri gáfaður eins og Seifur. Annars hefði hann vel mátt vera heimskur fyrir mér, ég hefði alls ekki talið það til galla. (Anna frá Moldnúpi. 1950)

 

Anna hefur þó litla þörf fyrir karlmenn í ferðalögum sínum. Hún nýtir sér þá hiklaust þegar hún þarf á aðstoð að halda við að bera farangur sinn eða greiða henni götu, en þegar þeir fara að vera of uppáþrengjandi, of gjarnir á að taka ákvarðanir fyrir hana, yfirgefur hún þá umhugsunarlaust. Það eru ef til vill konurnar sem helst vekja áhuga hennar á samræðum, en hún skrafar af bestu lyst við allar konur sem á vegi hennar verða, allt frá ungum stelpum í sveitinni til gamalla kellinga í borginni.

Anna sækir kirkjur í hverri borg sem hún heimsækir og listasöfn og í fyrstu heimsókn sinni til Danmerkur hoppar hún upp í lest til Hróarskeldu til að heimsækja dómkirkjuna þar að vitja grafa konunganna sem ríktu yfir Íslandi fyrr á öldum. Eftir að hafa setið fámenna guðsþjónustu, ráfar hún um dómkirkjuna. Þar gengur hún inn í kapellu Kristjáns IV, kóngsins sem spjallaði svo vinalega við Jón Indíafara. Kapelluveggirnir eru skreyttir myndum af helstu mönnum Danaveldis á tíð Jóns Indíafara, og myndir sem sýna glæstar sjóorustur sem áttu sér stað í stjórnartíð Kristjáns.

Í suðurhluta dómkirkjunnar, rétt andspænis kapellu Kristjáns IV, er stærsta kapella kirkjunnar, en þar hvíla sex konungar, þar á meðal Friðrik VI sem ríkti á tímum Napóleonstyrjaldanna, konunginum sem prússneska frúin lýsti svo fjálglega fyrir Tómasi Sæmundssyni í flýtivagni á leið til Prag.

Vestast á norðurhliðinni, beint á móti innganginum, er svo að finna kapellu þar sem síðasti konungur Íslendinga hvílir, Kristján X. Kista hans er sveipuð danska fánanum og visin blóm liggja við gaflinn. Íslendingurinn, Anna frá Moldnúpi, engum konungi bundin, gengur hljóðlega framhjá.

 

Heimild:

Anna frá Moldnúpi. 1950. Fjósakona fer út í heim. Höfundur, Reykjavík.

Ljósmynd af Brynhildi: Carolina Muñoz Salas