SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir 9. maí 2023

ÁSTRÍÐA FYRIR LJÓÐUM - ryk dustað af gömlum skræðum

1

Ljóðasafnið Og þá rigndi blómum, 1991

Á vorin er gott að dusta rykið af gömlum skræðum og lofta um og auðvitað að kíkja í leiðinni í eina og eina bók og vita hvað leynist þar. Blásum rykinu í burtu og finnum eitthvað fallegt.

Í hillu inn í stofu dreg ég fram bókina Og þá rigndi blómum 1991  Bókin hefur að geyma smásögur, ljóð og leikrit eftir 142 borgfirskar konur. Segja má að bókin sé upphafið af því að kanna ljóðahefð kvenna hér á landi. Einnig hafa komið út Huldumál: hugverk austfirskra kvenna (2003) en það mættu fleiri landshlutar taka þetta verkefni sér til fyrirmyndar nú þegar konur eru svo sannarlega að yrkja sín fallegu ljóð í ríkari mæli en áður var.

Í bókinni eru sýnishorn af verkum eftir flestar skáldmæltar konur úr héraðinu fram til ársins 1991. Við ætlum að grípa í eitt og eitt ljóð, dusta rykið og blása á ljóðið og sjá hvað finnum við. 

 

Ástríður Þorsteinsdóttir frá Signýjarstöðum, Hálsasveit var fædd 18. maí 1877-1961. Hún orti m.a.  þetta fallegt náttúruljóð.

 

Á Hraunsásnum
 
Hraunásinn er helgur staður.
Hér sé dvalið litla stund.
Hljóðir farið. Horfðu maður
hátt til jökla, lágt á grund.
 
Áin straumhörð áfram líður,
öllum sendir vinarkoss
þar sem lágur, ljómafríður
leikur kátur Halafoss.
 
Ef þið lítið langt og víðar,
lítið elfur, fjöllin blá,
ár og lækir, hólar, hlíðar
huldumáli kveðast á.
 
Háaltari, hérðasprýði,
hollra vætta friðarskjól,
Eiriksjökull íturfríði
ennþá blasir móti sól.
 
Gleymið ekki, góðu bræður,
guð að lofa á þessum stað,
ungu systur, öldnu mæður,
ykkar skylduverk er það.