SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 4. júní 2023

SÖNGUR HÖFNUÐU KONUNNAR OG KVENNASLAGUR

Inúítar kallast þjóðflokkar frumbyggja sem búa á norðurhjara veraldar; á Grænlandi, í Kanada, Alaska og Rússlandi. Inúítar teljast vera ríflega 160.000 talsins. Þeir eiga það sammerkt að deila sömu menningu og tala sömu tungu en mállýskur eru þó nokkrar á meðal Inúíta þar sem þeir eru mjög dreifðir um stór landsvæði.

Inúítar voru miklir veiðimenn. Þeir ferðuðust um ísinn á hundasleðum, veiddu í gegnum vakir og sigldu um á kajökum og svonefndum konubátum sem voru stærri bátar úr skinni og hvalbeini. Þeir stunduðu veiðar á hreindýrum, rostungum, fiskum, selum og hvölum. Samskipti við Evrópumenn hafa breytt mjög lifnaðarháttum Inúíta en enn stunda þeir veiðar á selum, hreindýrum og fiski. (Inuit people, 2023)

Inúítar hafa löngum skemmt sér við sönghátíðir og kanadískir ættflokkar iðkuðu enn þessar heiðnu hátíðir þegar mannfræðingurinn Rasmussen (1879-1933) heimsótti þá. Þá er gjarnan einn forsöngvari með volduga trommu og þegar hann er kominn nokkuð áleiðis með textann kemur kórinn inn. Að því búnu sameinast orð, tónar og dans.

Flestir söngvar eru veiðikvæði en einnig skemmta Inúítar sér við níðkvæði sem eru nokkuð merkileg; þar er gert út um ágreiningsefni tveggja manna eða kvenna og hefur sá sigur sem best tekst að niðurlægja og hæða mótherjann. Þessi viðureign fer fram með viðhöfn þangað sem fjöldi fólks mætir prúðbúið og skipar sér í fylkingar. Sumir ættflokkar Inúíta flétta hnefaleika inn í þetta söngat eða skalla hvor annan á meðan á því stendur. Að atinu loknu er misklíðin álitin löngu gleymd, mótherjar verða bestu vinir og skiptast jafnvel á konum! (Rasmussen, 2022)

Það hefur ekki verið mikið þýtt af verkum Inúíta yfir á íslensku og enn minna eftir konur. Úrval ljóða í þýðingu Einars Braga, sem nefnist Sumar í fjörðum (1978), geymir t.d. ekki eina einustu konu. Í öðru úrvali, Söngvum norðursins (2022) eru nokkrar nafngreindar konur en fyrrnefndur Rasmussen tók úrvalið saman, og er vísað í eftirmála hans hér fyrir ofan. Björn Ingvarsson þýddi,

Hér fara á eftir tvö kvæði úr Söngvum norðursins. Annars vegar „Söngur höfnuðu konunnar“ eftir Kibkárjuk sem tilheyrir hreindýrafólkinu Barren Grounds í Kanada. Hins vegar er birtur „Kvennaslagur“ sem er níðkvæði frá Suður Upernivik á Vestur-Grænlandi.  Höfundur er að vísu ókunnur en kvæðið er kynnt með þeim orðum að þetta sé söngat tveggja kvenna: „Níðvísur frá söngati milli Paninguaq (Datterlil) og frænku hennar Sapangajagdleq (Perlan).“ (Rasmussen, 2022)

Söngat sem þetta er skemmtileg og sérkennileg hefð og því gaman að láta fylgja hér brot, í von um að þarna yrki í raun konur sem þó er óvíst því undir lokin hefur karl upp raust sína og á síðasta orðið (auðvitað). Öðrum níðvísum eftir konur er þó ekki til að dreifa því flestar eru þær kenndar við karlmenn og/eða ljóðmælendur skarta jafnan karlkyninu. 

 

Söngur höfnuðu konunnar

Inn til landsins –
langt inn til landsins
leitar hugur minn,
aumu órólegu hugsanir mínar.
Það er óbærilegt
að ég muni aldrei
flytja mig
frá stað mínum á bekknum,
frá stað mínum á bekknum.
Og þó hef ég enn þá
sömu sterku löngun til að fara
inn til landsins,
langt inn til landsins.
   Ija – jé - ja
 
Alltaf snúast hugsanir mínar
þrotlaust um villibráðarkjöt,
hið indæla villibráðarkjöt.
Það er óbærilegt
að ég muni aldrei
flytja mig
frá stað mínum á bekknum,
frá stað mínum á bekknum.
Og þó hef ég enn þá
sömu löngun til að fara
inn til landsins,
langt inn til landsins.
   Ija – jé - ja
 
Aumu órólegu hugsanir mínar
sveima inn yfir land,
langt inn yfir land.
Því ég get ekki gleymt
þeim lífsglaða tíma
þegar Igjugárjuk
þótti vænt um mig,
elskaði mig eina.
Glöð fylgdi ég honum alltaf
á hreindýraveiðar
inn í land,
langt inn í land.
   Ija – jé - ja
 
Ég fór á veiðar eins og karlarnir,
ég bar vopn eins og þeir
og ég skaut tarf
og kú og kálf hennar,
já, ég felldi þau sjálf
með boga mínum og ör,
með boga mínum og ör
kvöld eitt í byrjun vetrar
þegar húmið lagðist yfir landið
langt inni í landi.
   Ija – jé – ja
 
(bls 58)
 
Kvennaslagur (brot)
 
Datterlilil dansar og syngur:
 
Nú er tími til kominn frænka
að þér sé stefnt til söngats!
Reiði mín vaknar!
Ég var úti að sækja eld
- myndarleg að vanda –
þegar þú í aumri ásökun
byrjaðir að þenja þig
um hann fóstra minn.
Lýg ég eða segi ég satt?
Komdu nú fram og reyndu mig
meðan reiði mín vex!
 
Perlan hleypur nú fram, dansar og syngur:
 
Komið yfir til mín,
þið sem viljið verja mig!
Takið kveikipinna lampans
og dýfið honum í lýsið
og kveikið á honum,
látið ljósið skína á ótta Datterlilis!
Heyrðu nú frænka!
Lýg ég eða segi ég satt?
Einu sinni kom ég þér að óvörum
í faðmi Asarpana!
Gefið henni háðshróp,
þið sem haldið með mér!
Grípið hana félagar
og fleygið henni á gólfið!
Þorir þú enn frænka,
þú getur reynt þig við mig?
Komum í slag með kreppta hnefa!
Já, hlaupum í kapp
og sú sem kemur síðast
gefur sinn mann
til þeirrar sem kemur fyrst!
 
Nú hleypur Perlan aftur fram og dansar og syngur söng sem á að fá áheyrendur til að hlæja:
 
Ija – ja – hrra,
ajai- jai – hrra,
ai – ja – a -ha!
Aa – lát mig bara
vera aðeins óheflaða!
Ai – ja – a – ha!
Bara aðeins óheflaða!
Aa – ef það finnst einn
sem vill gæla,
já, aðeins láta höndina
snerta skaut mitt –
þá skal ég ekki ergjast og jagast
í annarri konu fyrir að
leggja lag sitt við minn mann!
Ai – ja – a – ha!
 
Datterlil syngur:
 
Umaja – ima,
ha – ja – ja!
Auðveldlega verð ég öfundsjúk
og fljótt reið!
Hér stend ég og ég gleymi
fátæklega söngnum mínum.
En heyrðu nú frænka,
þú sem svo gjarnan
vilt níða mig syngjandi,
förum þá og heimsækjum
fólkið við sandinn.
Þar skal ég svara
þínum klaufalega níðsöng!
 
(bls. 85-87)

 

Svona heldur þetta áfram um hríð og þær frænkur láta ýmis níðorð falla hvor um aðra þar til maður Perlunnar hleypur skyndilega fram á sviðið og hrifsar af þeim orðið.

Þetta söngat minnir á annars konar einvígi en Inúíta-konur eru m.a. þekktar fyrir barkasöng sinn. Þá takast þær á, ævinlega tvær konur, stilla sér upp gegnt hvor annarri og gefa frá sér hin ýmsu hljóð þar til önnur þeirra gefst upp. Hér má sjá skemmtilegt dæmi um slíkt einvígi í fallegri náttúru Kanada. 

 

Heimildaskrá

Inuit people. (28. apríl 2023). Sótt frá Britannica: https://www.britannica.com/topic/Inuit-people
Rasmussen, K. (2022). Söngvar norðursins. Ljóð Inúíta frá Grænlandi og Kanada. (Björn Ingvarsson þýddi). Fáskrúðsfjörður: Félag       ljóðaunnenda á Austurlandi.
 
Forsíðumynd er tekin af Kalak.is 
Mynd af veiðikonu er tekin af bloggsíðu Ai Lung Nguyen  
Mynd af systrum er tekin af Youtube.com