HIÐ „SANNA KYN“ EÐA VERULEIKI LÍKAMANS?
Greinin sem hér fer á eftir birtist fyrst í RITINU, tímariti Hugvísindastofnunar, 2. hefti 2017. Hún er endurbirt hér vegna mikillar umræðu þessa dagna um kyn og kynverund, kyn og tungumál og annað sem tengist þessu málefni.
HIÐ „SANNA KYN“ EÐA VERULEIKI LÍKAMANS?
Hugleiðingar spunnar um frásögn af Guðrúnu Sveinbjarnardóttur
Þótt kynin séu ólík eiga þau samleið. Í öllum manneskjum má finna sveiflur frá einu kyni til hins og oft eru það bara fötin sem vísa til karlmanns eða kvenmanns þótt undir niðri búi annað kyn en það sem sýnist. Vandræðaganginn og ruglinginn sem af þessu leiðir þekkja allir [...][1]
[Það var] mynd með krosssaumi af blómum í gulum litum fínt saman stilltum. Þá mynd hafði gert Guðrún sú sem kölluð var karlmaður og var dóttir (sonur) Sveinbjarnar Egilssonar, en kynferði hennar hafði ruglast fyrir þeim sem áttu að ákvarða það þegar hún fæddist. Og hlaut hún að ganga með rangt ákvarðað kynferði alla ævi, líklega sér og manni sínum til nokkurs meins.[2]
Fyrri tilvitnunin hér að ofan er í skáldsöguna Orlandó eftir Virginiu Woolf þar sem bent er á að ekki fer alltaf saman sýnd og reynd þegar spurt er um kyn einstaklinga. Í Orlandó er tekist á við merkingu kynsins á fjölbreytilegan hátt enda fjallar skáldsagan um persónu sem breytir um kynferði (e. sex) í miðri sögu en lætur þá breytingu ekki alltaf stjórna kyngervi (e. gender) sínu í framhaldinu. Þegar Orlandó hefur breyst úr karlmanni í konu, eftir sjö daga dásvefn, klæðir hún sig til að mynda í karlmannsföt ef henni sýnist svo, hún lætur með öðrum orðum siðvenjur ekki hefta sig langi hana til að taka á sig kyngervi karlmanns og nýtur auk þess „ásta beggja kynja jafnt“, eins og þar segir.[3]
Síðari tilvitnunin er í frásögn Málfríðar Einarsdóttur af íslenskum einstaklingi, Guðrúnu Sveinbjarnardóttur, sem fædd var árið 1831 og dó árið 1916. Um Guðrúnu eru heimildir af skornum skammti og líklega verður aldrei hægt að komast að því hvort hún hafi í raun gengið „með rangt ákvarðað kynferði alla ævi“ eða hvort hér sé einfaldlega um slúður að ræða. Þessi stutta frásögn Málfríðar af Guðrúnu er engu að síður kveikja þessarar greinar. Ef einhver fótur er fyrir henni má vera ljóst að í þessum fáu orðum leynist mikil örlagasaga og vert er að draga fram í dagsljósið slíkar sögur í þeim tilgangi að efla almenna og fræðilega umræðu um fólk á Íslandi sem fellur utan hins hefðbundna tvíhyggjukynjakerfis.[4]
Eins og fram kemur í undirtitli greinarinnar lít ég á það sem hér fer á eftir sem hugleiðingar fremur en að ég hafi í huga að setja fram kenningu um hvers kyns Guðrún Sveinbjarnardóttir var eða hver kynhneigð hennar var. Það væri ábyrgðarlaust og siðferðilega óásættanlegt enda væri slík kenning einungis byggð á getgátum. Í því íslenska nítjándualdar samfélagi sem Guðrún ólst upp í var rými fyrir hinsegin kynverund (e. sexuality)[5] og óhefðbundna kyntjáningu að öllum líkindum mjög takmarkað og hinsegin sjálfsmyndir varla fyrir hendi. Um þetta er þó erfitt að fullyrða þar sem rannsóknir á hinsegin kynverund á Íslandi í sögulegu tilliti, sér í lagi kynverund kvenna, eru af skornum skammti. Þegar ég rannsakaði sögur íslenskra kvenna frá tímabilinu 1879, þegar fyrstu prósaverk þeirra komu út, og fram til 1960,[6] var fátt í textum frá nítjándu öld sem benti til annars konar möguleika en hins gagnkynhneigða fjölskyldumódels og skylda kvenna til að lúta því og feðraveldinu var það þema sem áleitnast var.[7] Árið 2003 birti Dagný Kristjánsdóttir grein um samkynhneigð kvenna í bókmenntum og listum þar sem hún benti á að mjög fátt væri vitað um það efni í íslensku samhengi fyrir tuttugustu öld og að ekkert væri hægt að fullyrða um hvort til væru á Íslandi „óuppgötvaðar heimildir um ástir og örlög íslenskra lesbía á öldum áður“ auk þess sem enginn hefði (fram að þeim tíma) „leitað kerfisbundað að slíkum heimildum“.[8] Rannsóknir á hinsegin fræðum og hinsegin sögu eru núna lengra á veg komnar en hinsegin veruleiki kvenna fyrr á öldum er þó enn að miklu leyti ókannað svið. Nýverið kom út greinasafn sérstaklega helgað hinsegin sögu þar sem lögð er áhersla á að „birtingarmyndir og merking hinsegin kynverundar hefur tekið miklum breytingum í gegnum tíðina og fólk er ekki hinsegin í dag á nákvæmlega sama hátt og fólk var hinsegin fyrir 100 árum síðan.“[9] Þar er einnig bent á „að kynverund, kynhneigð (e. sexual orientation) og kynvitund (e. gender identity) taki á sig ólíkar myndir og hafi mismunandi merkingu á öðrum tímum og í öðrum heimshlutum“.[10] Það er því rétt að stíga varlega til jarðar og forðast að draga afgerandi ályktanir um kynhneigð og kyngervi fólks í fortíðinni út frá nútímaskilgreiningum, ekki síst í tilfelli Guðrúnar og kvenna á nítjándu öld þar sem heimildafæð og skortur á rannsóknum er staðreynd.
Hafdís Erla Hafsteinsdóttir bendir á að hugtakið hinsegin (e. queer) sé annars vegar „sjálfsmyndarhugtak“ en hins vegar „frá akademísku sjónarhorni [...] greinandi hugtak sem beinir sjónum sínum að því sem fellur utan við viðurkennd gildi og viðmið í kynferðislegum og félagslegum samskiptum“.[11] Ég nota hugtakið eftirleiðis út frá hinu akademíska sjónarhorni, enda ekkert hægt að segja um hver sjálfsmynd Guðrúnar Sveinbjarnardóttur var því fáar persónulegar heimildir eru til frá henni sjálfri.[12] Aftur á móti eru til heimildir sem gagnast ágætlega við að greina félagslegt umhverfi Guðrúnar og kemur þar helst til sú staðreynd að hún var fædd inn í þekkta fjölskyldu sem skildi eftir sig mikið af sagnfræðilegum og bókmenntalegum heimildum. Þá eru einnig til skrif fjölmargra annarra um einstaka meðlimi fjölskyldunnar. Þegar heimildir sem varða Guðrúnu Sveinbjarnardóttur beint eru skoðaðar kemur í ljós að fleira en frásögn Málfríðar styður við þann möguleika að Guðrún hafi verið hinsegin, í þeim skilningi að hún hafi verið á skjön við viðurkennd kynferðisleg gildi og viðmið, þótt hún hafi alla sína ævi lifað opinberlega í hlutverki gagnkynhneigðrar konu.
Frásögn Málfríðar Einarsdóttur (1899–1983) af Guðrúnu Sveinbjarnardóttur er að finna í bókinni Rásir dægranna, sem hefur að geyma eftirlátin skrif Málfríðar sem útgefandi hennar, Sigfús Daðason, tók saman og gaf út árið 1986, eða þremur árum eftir andlát höfundarins. Einn kafli bókarinnar nefnist „Kringum Sigurð Nordal“ og þar segir Málfríður frá heimsókn sinni til Sigurðar og Ólafar konu hans. Einna minnisstæðast frá þeirri heimsókn er krosssaumsmyndin sem getið var í upphafi þessarar greinar. Framhald tilvitunarinnar er svohljóðandi:
Prestur nokkur, sem mig minnir að héti Þórður, bað [Guðrúnar] en hún réð honum frá því að giftast sér. Samt varð af því að þau ættust, en engin urðu börnin nema hvað vinnukona prestsfrúarinnar kenndi henni barn og gat hún ekki borið það af sér. Benedikt Gröndal getur ekki þessarar systur í Dægradvöl en allra hinna.[13]
Hafa má í huga að Málfríður hafði sjálf lítið, ef nokkuð, um útgáfu Rása dægranna að segja og ekki er víst að hún hefði sjálf kosið að setja frásögnina af Guðrúnu á prent. Sem höfundur er Málfríður einn frumlegasti penni íslenskra bókmennta og eftir hana liggja hvort tveggja skáldsögur og sjálfsæviskrif sem bera vott um mikla hugmyndaauðgi og fjörmikinn stíl. Eitt aðaleinkennið á sjálfsæviskrifum Málfríðar er hvernig hún afbyggir hugtök á borð við sjálf, tíma, rúm, kyn, kynhlutverk, sem og stofnanir samfélagsins.[14] Ragnhildur Richter túlkar frásögn hennar af Guðrúnu Sveinbjarnardóttur í þessu ljósi:
Þannig er það ekki fyrr en í texta Málfríðar sem furðuleg saga Guðrúnar, sem er fórnarlamb samfélagsins og þarfar þess fyrir fasta merkingu, er sögð. Þegar hún er búin að brjóta upp alla merkingu og hafna öllum stofnunum samfélagsins er Málfríður frjáls að því að draga slík furðuverk sem prestsfrúna, föður vinnukonubarnsins, fram í dagsljósið.[15]
Þess má geta að í Rásum dægranna er að finna fleiri skrif Málfríðar sem tengjast hinsegin veruleika, því þar er birtur kaflinn „Frumástir Tötru“, en Tötra er önnur aðalpersónan í skáldsögum Málfríðar Auðnuleysingi og Tötrughypja (1979) og Tötra í Glettingi (1983). „Frumástir Tötru“ segja frá því þegar Tötra „komst nær tindum sálrænna fyrirbrigða svo sem ástalíf manna má teljast vera“, en það var þegar hún varð ástfangin af Einhildi Dómhildi, nágrannakonu sinni: „Þar sem áður var ágapi, var nú eros“, segir Tötra og tekur þar með af öll tvímæli um að ást hennar er af kynferðislegum toga.[16] Lýsing Málfríðar á þessum samkynja ástum er innileg, hreinskilin og fyndin; í frásögninni fléttast saman trú og ást, að ógleymdu háði sem beinist að þeim sem véla um synd og refsingu: „[...] og gerðust af þessu merkilegir hlutir og hefðu ekki mátt í letur færast á öldinni sem leið“.[17] Sagan af frumástum Tötru, sem og frásögnin af Guðrúnu Sveinbjarnardóttir, bera vitni um að Málfríður þekkti til hinsegin veruleika þótt sagan af Tötru sýni jafnframt að hinsegin rými var takmarkað; saga Tötru og Einhildar Dómhildar endar á að þær slíta sambandi sínu eftir að sú fyrrnefnda hafði grátið það beisklega „að mega ekki gefa sig synd sinni svo gaumgæfilega á vald að ekkert annað kæmist að“.[18]
Hér á eftir verður leitast við að varpa ljósi á frásögn Málfríðar af Guðrúnu Sveinbjarnardóttur, kynferði hennar og því að hún hafi getið barn með konu, og hún skoðuð út frá ýmsum hliðum. Út frá tiltækum heimildum mun ég velta upp ýmsum túlkunarmöguleikum en í síðari hluta greinarinnar mun ég gera einum möguleikanum hærra undir höfði en öðrum því hann snýr að sviði sem lítið hefur verið til umræðu í íslensku fræðasamfélagi hingað til, og sem kallað hefur verið eftir frekari umræðu um. Hér er átt við þann möguleika að Guðrún hafi í raun gengið „með rangt ákvarðað kynferði alla ævi“; verið með kynbreytileika sem fellur undir það sem nú á dögum er kallað intersex.[19]
Guðrún Sveinbjarnardóttir
Útlínur ævi Guðrúnar Sveinbjarnardóttur liggja nokkuð ljósar fyrir í tiltækum heimildum. Hún var fædd 19. júní árið 1831, fjórða í röðinni af níu börnum Sveinbjarnar Egilssonar, rektors Bessastaðaskóla, og Helgu Benediktsdóttur konu hans, sem upp komust.[20] Eldri voru Þuríður (1823–1899), Benedikt (1826–1907) og Egill (1829–1896) en yngri Kristín (1833–1879), Sigríður (1835–1913), Valborg Elísabet (1838–1870), Þorsteinn (1842–1911) og Guðlaug Ragnhildur (1843–1866). Engar beinar upplýsingar um barnæsku Guðrúnar eru í fyrirliggjandi heimildum en óhætt ætti að vera að draga einhverjar ályktanir af lýsingum Benedikts Gröndal, í Dægradvöl (1923), á fjölskyldulífinu á æskuheimilinu, þótt deila megi um heimildagildi sjálfsævisagna. Reyndar segir Benedikt í upphafi að hann muni lítið „um æskulíf“ sitt, það sé „að mestu horfinn draumur“,[21] en engu að síður lýsir hann nokkuð ítarlega uppvexti sínum á Álftanesi á árunum 1826 til 1846, en það ár hélt hann til náms til Kaupmannahafnar. Af lýsingum hans að dæma nutu þau systkinin góðs líkamlegs atlætis og menntunar enda var fjölskyldan framan af sæmilega efnuð og tilheyrði efri lögum samfélagsins. Auk bóklegra mennta lærðu systkinin á hljóðfæri, tónlist var í hávegum höfð á heimilinu og þar var einnig dansað og sungið.[22] Faðir Guðrúnar lék á flautu („pípu“ og „þverpípu“)[23] en Guðrún lærði að spila á langspil. Þá lærðu systurnar fínan útsaum og hannyrðir, eins og allar stúlkur sem tilheyrðu efri stéttum samfélagsins.[24] Að líkindum hefur móðir þeirra kennt þeim sjálf því hún hafði numið hannyrðir hjá „madame Guðrúnu Skúladóttir, einhverri högustu konu á hannyrðir, sem verið hefir á Íslandi“.[25]
Athygli vekur að Benedikt gerir lítið úr tilfinningasambandi sínu við foreldrana:
Þó að foreldrum mínum þætti vænt um mig, þá voru mér ekki blíðleg atlot sýnd né vinalegt viðmót; ég varð snemma einstæðingslegur [...]. Ég fékk þráfaldlega að heyra, hvað ég væri ljótur, klaufalegur og latur, en hrós man ég ekki til, að ég fengi nokkurn tíma að heyra [...]. Við börnin vorum látin þéra foreldra okkar, eins og þá var títt með heldra fólki, en ég held það hafi fjarlægt okkur frá þeim; við þorðum aldrei að nálgast þá eða vera náttúrleg og hjartanleg, en við höfðum fremur ótta af þeim.[26]
Hafi virðing og ótti almennt litað samband barnanna við foreldrana fremur en trúnaðartraust kann að vera að Guðrún hafi átt erfitt með að leita til foreldra sinna með persónuleg vandamál. Jón Árnason þjóðsagnasafnari skrifar hins vegar í grein sinni um Sveinbjörn Egilsson að hann hafi verið „bæði eptirlátur og blíður faðir barna sinna“.[27] Sá vitnisburður stangast á við ofangreind orð Benedikts en vitaskuld er ólík upplifun barns og utanaðkomandi fullorðins á slíku sambandi við foreldra og einnig er ljóst að viðhorf til barnauppeldis voru önnur á fyrri hluta nítjándu aldar en þegar fram liðu tímar. Sjálfur lýsti Sveinbjörn þeirri skoðun í setningarræðu við Bessastaðaskóla árið 1822 að „fáir kostir prýði úngan mann iafnmikið, sem sómasamlegt lítillæti“ og einkenni lítillætisins sé að „géra ecki mikið úr því sem maðr kann að hafa fram yfir aðra, og náttúlega fylgir því sá eginlegleiki að líta framar á yfirburði annara, og heldr draga siálfs síns kosti í hlé“.[28] Líklega hefur hann viljað innræta börnum sínum slíkt hið sama og því verið spar á hrós.
Þegar Benedikt Gröndal fór til náms til Kaupmannahafnar var Guðrún systir hans fimmtán ára gömul en þegar hann sneri þaðan aftur til Íslands árið 1850 var hún gift séra Þórði Thorgrímssen og flutt vestur í Otradal í Arnarfirði. Það er ekki rétt hjá Málfríði að Benedikt geti ekki þessarar systur sinnar í Dægradvöl; hann ræðir hvernig fjölskyldan er samsett þegar hann snýr aftur heim úr námi og segir: „Guðrún og Þuríður voru giftar fyrir vestan“.[29] Þetta er hins vegar í eina skiptið sem Benedikt nefnir nafn Guðrúnar. Það þarf þó ekki endilega að þýða að honum hafi verið í mun að tala sem minnst um hana; á milli þeirra eru fimm ár og hann talar mest um þau systkini sín sem standa honum næst í aldri, Þuríði og Egil. Benedikt leggur til að mynda mikla áherslu á hversu vel gefin Þuríður var og segir að hún hafi verið „ákaflega gefin fyrir bækur og skáldskap, miklu meir en [hann sjálfur] var þá.[30] Jón Árnason segir að Sveinbjörn hafi alið „staka önn fyrir uppfræðíngu [barna sinna], þar sem hann annaðhvort kendi þeim sjálfur framan af, á meðan þau voru fá, eða hélt stöðugt menn til þess, eptir að þau fjölguðu“.[31] Jón gegndi sjálfur hlutverki heimiliskennara hjá Sveinbirni og Helgu um nokkurra ára skeið og eftir að þau féllu frá tók hann að sér yngsta son þeirra, Þorstein (sem þá var þrettán ára), og kom honum til mennta.[32]
Þegar Guðrún var nítján ára giftist hún séra Þórði og flutti með honum vestur í Otradal þar sem hún bjó næstu tíu ár, eða frá 1850 til 1860. Þórður var tíu árum eldri en Guðrún, fæddur 6. febrúar 1821. Foreldrar hans voru Þorgrímur Guðmundsson (Thorgrímsen), prestur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, og Ingibjörg Guðmundsdóttir, systir Helga Thordersens, dómkirkjuprests og síðar biskups yfir Íslandi. Þórður var tekinn inn í Bessastaðaskóla árið 1839 (þegar Guðrún er átta ára gömul) og varð stúdent þaðan árið 1845. Eftir það var hann fyrst með foreldrum sínum, vann verslunarstörf í Ólafsvík í tvö ár en fékk Otradal árið 1849 og tók prestsvígslu í ágúst sama ár.[33] Páll Eggert Ólafsson lýsir Þórði sem hraustmenni og valmenni og segir hann hafa verið hvort tveggja góðan smið og skrifara.[34] Í Vestfirzkum sögnum Helga Guðmundssonar er greinargóð lýsing á Þórði:
Séra Þórði er svo lýst, að hann hafi verið góður meðalmaður að hæð, herðabreiður og þéttur á velli. Hann hafði jarpt hár og rauðjarpt skegg. Hann var kringluleitur, með lítið skarð í höku. Hann var smiður góður á tré og járn og skytta góð. Hann var listaskrifari, og hélt hinni fögru og læsilegu rithönd sinni til dauðadags. Hann hafði mikil og fögur hljóð og tónaði snilldarlega. Séra Þórður var svo rammur að afli, að hann þótti ekki einhamur, þegar hann beitti sér. En það var sjaldan, helzt þegar hann reiddist undir áhrifum víns. Þá stóð ekkert fyrir honum. Hann var ljúfmenni hið mesta og prúður í allri framkomu sinni, og því var hann mikils virtur af sóknarbörnum sínum.[35]
Af þessu má álykta að séra Þórður hafi þótt vænlegt mannsefni en hvort Guðrúnu hafi hugnast þessi ráðahagur verður ekki vitað. Líklega hefur hún ekki fengið miklu ráðið þar um sjálf því á þessum tíma ríkti föðurvald þegar kom að gjaforði dætra í efri lögum samfélagsins. Því til stuðnings má geta þess að eldri systir hennar, Þuríður, varð að lúta föðurvaldi þegar hún giftist Eiríki Kúld þótt hún hefði sjálf kosið sér annan mann og verið leynilega trúlofuð um hríð.[36] Hér má líka minna á að þegar íslenskar konur hófu að birta eftir sig sagnaskáldskap, seint á nítjándu öld, var föðurvaldið þeim ofarlega í huga, sérstaklega það óréttlæti að mega ekki velja sér maka sjálfar.[37] „Ömmur mínar giftust báðar nauðugar, Guðríður sárnauðug, Þuríður nauðug, og ekki hló brúðkaupsdagurinn við henni“, skrifar Málfríður Einarsdóttir í Samastaður í tilverunni[38] og mörg dæmi um slíkar nauðungargiftingar er að finna í frásögnum frá nítjándu öld. Brúðkaup Guðrúnar og Þórðar var haldið í Flatey á Breiðafirði 6. maí árið 1850 og var mágur Guðrúnar, séra Eiríkur Kúld, annar svaramanna en hinn var Brynjólfur Benedictsen kaupmaður. Þetta sama ár hafði Guðrún verið „þjónustustúlka“ í Flatey, á heimili tengdaforeldra Þuríðar, Ólafs Sívertssen prófast og Jóhönnu Friðriku konu hans.[39]
Guðrún er einnig skráð til heimilis í Flatey fimm árum áður, 1845, fjórtán ára gömul, en þá hjá systur sinni, Þuríði, og mági.[40] Í bréfi sem Sveinbjörn faðir hennar skrifar til Helgu konu sinnar frá Kaupmannahöfn árið 1846 kemur fram að einhver vandræði hafi þá verið með Guðrúnu í Flatey því hann skrifar til Helgu: „Rétt gerir þú að taka Gunnu, það lá að, að hún mundi ekki koma sér þar.“[41] Fyrr í bréfinu nefnir Sveinbjörn að honum hafi þótt vænt um að frétta að Helgu liði „bærilega“ og væri „farið að batna fyrir hjartanu“. Og hann heldur áfram: „Það var von, þó þér felli nær, þar mart steðjaði að óþægilegt í einu á þig eina, og er vel, að þú hefir getað afborið það; guð bætir þér seinna stöðuglyndið.“[42] Erfitt er að segja hvað það var sem Helga Benediktsdóttir þurfti að takast á við ein, í fjarveru eiginmannsins, en þó má vera ljóst að bæði hjartveiki og einhver vandræði með Guðrúnu eiga þar hlut að máli.
Eftir brúðkaupið flytur Guðrún með Þórði vestur í Otradal og tekur þar við búsforráðum á stóru heimili. Vorið 1851 eru skráðir tíu manns til heimilis á prestssetrinu og er Guðrún skráð þar sem „Madama Guðrún Thorgrímsen, prestskona“.[43] Ári síðar skrifar hún föður sínum bréf þar sem hún biður hann að borga fyrir sig skuld upp í hestverð (peningarnir fylgja „forsiglaðir í skinnpúng“). Bréfið er stutt en þó er ljóst að Guðrúnu líkar vistin í Otradal miður vel:
Það dugar ekki að vera að berja sér þó eitthvað á bjáti, mér þikir ekki heldur neitt að því þó einmanalegt sé því það vil eg helst en það er sem fælir okkur burt þegar við mögulega gátum að það er svo stórt fjall fyrir ofan bæin sem maður veit ei nær skemir alt túnið og má þakka fyrir ef fjárhús eða fjós fer ekki. Það eru nú 4 ár síðan að skriðan eyðilagði heilt kýrfóður fyrir utan það að alstaðar þar í kring verður valla slegið fyrir möl og aur sem árlega rennur úr fjallinu ofaní túnið. Þetta kalla ég stóran löst með öðru.[44]
Athygli vekur að Guðrún kvartar ekki yfir einmanalegu lífi, „það vil eg helst“, þótt það hljóti að hafa verið mikil viðbrigði fyrir hana að flytja í afskekktan dal í Arnarfirði eftir að hafa alist upp á skólastaðnum á Álftanesi og síðar í Flatey á tíma þegar mannlíf þar stóð með mestum blóma. Ári eftir að Guðrún flytur vestur er ráðin bústýra í Otradal, Ingibjörg Andrésdóttir úr Flatey, og fylgdi hún séra Þórði og „tók tryggð við hann og var honum betri en engin, enda yfirgaf hún hann ekki meðan hann var á lífi.“[45] Árið 1855 hefur enn bæst við fólk á heimilið en þá eru fjórtán manns skráðir á prestsetrinu, þarf af tvö börn og tveir unglingar, og árið sem Guðrún fer frá séra Þórði búa þar sautján manns.[46]
En hvers vegna vildi Þórður kvænast Guðrúnu ef „hún réð honum frá því að giftast sér“, sé það rétt sem Málfríður segir? Nú er engin leið að vita hvort Þórði hafi verið kunnugt um að kynferði Guðrúnar væri tvírætt, hafi svo verið, en vafalaust hefur verið nokkur upphefð fólgin í að mægjast við fjölskyldu Sveinbjarnar Egilssonar rektors. Í Dægradvöl kemur fram að móðurbróðir Þórðar, Helgi Thordersen, dómkirkjuprestur og síðar biskup, hafi verið náinn vinur Sveinbjarnar[47] og því er ljóst að góður kunningsskapur var með fjölskyldunum og ef til vill hefur það átt sinn þátt í ráðahagnum. Fljótlega varð þó ljóst að hjónaband Guðrúnar og Þórðar var ekki farsælt enda entist það aðeins í áratug. Helgi Guðmundsson segir að „brátt [hafi komið] í ljós, að þau hjón ættu ekki lund saman, og urðu samfarir þeirra hinar erfiðustu“ og hann heldur áfram:
En ósamlyndi þeirra var talið Guðrúnu að kenna, því hann vildi gera henni allt það til geðs, sem hann gat. Furðaði menn á því, að Guðrún skyldi ekki geta lynt við slíkt prúðmenni og glæsimenni sem séra Þórður var. Héldu því nokkrir, að hún væri ekki gerð sem aðrar konur, og hafa gengið ýmsar sögur, sem áttu að sanna þetta. En þau hjón áttu ekkert barn saman.[48]
Þegar Guðrún fór frá Þórði „þótti mönnum hún sneyða mjög heimilið af þeim hlutum, er mikil eign var í og hún gat komizt á brott með“:
Prestur horfði á heimanbúnað konu sinnar með mestu rósemd og stillingu, eins og ekkert væri um að vera. En þegar hún var komin af stað, gengur prestur upp á loft og svalar gremju sinni með því að slá hnefa sínum á einn sperrulegginn í baðstofunni, sem var undir skarsúð, og færðist hann þá úr stað, svo að þess sáust glögg merki á öllum borðunum, sem lágu á sperruleggnum. Skarsúðin var þó gerð á venjulegan hátt, fótur sperruleggsins negldur með sterkum nagla ofan í sylluna og hvert borð í súðinni neglt í sperruleginn.[49]
Helgi getur þess einnig að séra Þórður hafi verið nokkuð „hneigður fyrir vín, einkum seinni hluta æfinnar. En talið var, að hinir miklu hjúskaparerfiðleikar hans væru orsök þess, því að sagt er, að hann hafi ekki bragðað vín á yngri árum sínum.“[50] Í þætti Oscars Clausen um séra Þórð er tekið sterkara til orða um drykkjuskap hans og sagt að hann hafi þjónað Brjánslæk í þrettán ár „með miklum harmkvælum, sakir ofdrykkju og eðlilegra afleiðinga hennar.“[51] Þórður flutti sig yfir á Brjánslæk árið 1864 og þjónaði þar til 1877 en þá veitti biskupinn „honum „lausn í náð“ til þess að hvíla hann frá sálgæzlu Barðstrendinga“.[52] Oscar Clausen getur þessi einnig að Þórður hafi verið „ljúfmenni hið mesta, ef ekki var við öl“.[53] Sighvatur Grímsson Borgfirðingur skrifar um séra Þórð í tíunda bindi sinna handskrifuðu Prestaæfa og liggur ætíð mjög gott orð til Þórðar en öðru máli gegnir um Guðrúnu, eins og vikið verður að síðar, en Sighvatur var samtímamaður Guðrúnar og Þórðar, fæddur árið 1840.
Guðrún var tæplega þrítug þegar hún yfirgaf séra Þórð árið 1860. Hún fór þó ekki langt en flutti sig yfir í Selárdal og settist fyrst að í hjáleigunni Rima. Þá bjuggu þar hjónin Þórður Gíslason og Hólmfríður Runólfsdóttir ásamt þremur börnum sínum og auk Guðrúnar var þar búsett nafna hennar Guðrún Jónsdóttir, vinnukona, 23ja ára gömul. Guðrún Sveinbjarnar hefur þá fellt niður eftirnafn eiginmanns síns og er skráð „Guðrún Sveinbjörnsdóttir“ og sögð lifa á handavinnu.[54] Tveimur árum síðar, 1862, er Guðrún Sveinbjarnardóttir skráð í húsvitjunarbók Selársdals til heimilis á prestssetrinu hjá séra Einari Gíslasyni.[55] Á prestssetrinu bjuggu á þessum tíma, auk séra Einars (sem var ekkjumaður), dóttir hans Þórunn og tengdasonur Gísli Árnason og ellefu börn þeirra á aldrinum 2ja til 22ja ára, fjórar vinnukonur og fjórir vinnumenn. Elsta barn Þórunnar og Gísla var Ragnhildur, sem kemur mikið við sögu Guðrúnar. Geta má sér til um að Guðrún hafi verið fengin á heimilið til að sinna uppfræðslu yngri barnanna, sem og handavinnu. Árið 1864 er Guðrún enn skráð hjá sömu fjölskyldu en nú í Neðribæ, og í húsvitjunarbókinni stendur: „Frú Þórðar á Brjánslæk“.[56] Séra Einar fellur frá í janúar 1866 og í júní 1867 deyr tengdasonur hans, Gísli, 48 ára gamall og hafði þeim Þórunni þá fæðst eitt barn í viðbót. Ekkjan heldur þó áfram að búa í Neðribæ og Guðrún er á heimilinu þar til að hún flytur árið 1869, ásamt elstu dótturinni, Ragnhildi, að Þingvöllum í Helgafellssókn, en þá voru Þuríður og Eiríkur Kúld búsett þar.[57] Í húsvitjunarbók Selárdals frá árinu 1867 er gerð sú athugasemd við nafn Guðrúnar að hún sé „fráskilin presti“ og árið 1869 er hún skráð sem „húskona“ í Neðribæ og í athugasemd segir: „kona séra Þórðar á Læk og ferðbúin til Stykkishólms í sumar.“[58] Ragnhildur er hins vegar skráð, á eftir Guðrúnu, sem „þjónustustúlka“, þótt hún búi enn á heimili móður sinnar.
Ragnhildur Gísladóttir var fædd 24. maí 1841 og því tíu árum yngri en Guðrún sem er 38 ára þegar þarna er komið sögu og þær flytja saman að Þingvöllum í Helgafellssveit, sumarið 1869. Ári síðar flytja Kúldshjónin í Stykkishólm en Guðrún og Ragnhildur búa áfram á Þingvöllum. Þar eru þær til ársins 1874 en þá fara þær yfir í Stykkishólm og setjast að í torfbæ sem Guðrún hafði sjálf látið reisa og kallaður var Guðrúnarbær eða Maddömu Guðrúnarbær upp frá því. Þetta ár eru þær einu íbúar hússins. Ári síðar hefur Guðrún hins vegar tekið inn leigendur og þá búa þar, auk þeirra Ragnhildar, níu manns á aldrinum 15–59 ára. Næsta ár, 1876, hefur Guðrún hins vegar leigt öðru fólki Guðrúnarbæ en þær Ragnhildur eru ekki skráðar þar til heimilis, né heldur árið 1877.[59] Guðrún snýr síðan aftur, án Ragnhildar, árið 1878 og býr í bæ sínum ásamt 33ja ára vinnukonu, Margréti Friðriku M. Man.[60] Ragnhildur er þá hins vegar flutt aftur vestur og er í manntali 1880 skráð í Hringsdal hjá móður sinni, 39 ára gömul. Sú spurning vaknar hvort Guðrún hafi fylgt Ragnhildi vestur og það skýri 2ja ára fjarveru hennar í Stykkishólmi. Hvers vegna þær vinkonurnar flytja í sundur eftir að hafa búið saman í 15 ár, í Selárdal, Helgafellssveit og Stykkishólmi, höfum við engar upplýsingar um, en varla hefur verið mikið fyrir Ragnhildi, tæplega fertuga, að sækja vestur á firði seint á nítjándu öld, nema hún hafi saknað fjölskyldu sinnar. Hún flytur inn á mannmargt heimili því tveir bræður hennar standa þar fyrir búi með eiginkonum sínum. Á bænum eru einnig níu vinnumenn, fimm vinnukonur, einn léttadrengur, einn tökudrengur og einn niðursetningur. Þrír þeir síðasttöldu eru börn og bræður Ragnhildar eiga hvor sinn soninn. Líklega hefur verið fjörmikið líf á bænum því vinnufólkið er allt undir þrítugsaldri og börnin eru fimm talsins. Þórunn, móðir Ragnhildar er sögð lifa „á eignum sínum“.[61]
Næstu árin eftir brotthvarf Ragnhildar býr Guðrún með vinnukonum og ýmsum leigendum í Guðrúnarbæ „og rak heimili sitt með mikilli reisn“.[62] Árið 1904, þegar hún var komin á áttræðisaldur, lét Guðrún rífa torfbæinn og byggja timburhús á lóðinni, sem nefnt var Guðrúnarhús eða Maddömu Guðrúnarhús. (Húsið stóð lengi í niðurníðslu í Stykkishólmi en er nú búið að fjarlægja það.).[63] Í bréfi sem hún skrifar vinkonu sinni, Ingibjörgu Jensdóttur, í febrúar 1904 segist hún ætla að rífa bæinn „því ef ætti að gjöra við hann eins og þarf þá yrði það hátt uppá hús“ og fram kemur að hún var hagsýn: „bærinn er altof stór fyrir mig og ekki leigufær en ekki tilvinnandi að gjöra við hann fyrir aðra, eg hef sömu glugga og sömu hurðir og allt eftir því, svo það verður ekki svo mikið, það verður dýrast verkið“.[64] Guðrún hafði lánstraust, því vegna húsbyggingarinnar tók hún lán upp á 400 krónur, í október 1904, og annað upp á 100 krónur, í júlí 1909. Lánin stóðu í 318 krónum þegar hún dó og voru greidd að fullu af dánarbúinu.[65]
Guðrún Sveinbjarnardóttir og séra Þórður skildu aldrei að lögum og viðurnefnið „maddama“ sem var gjarnan notað yfir prestsfrúr virðist hafa haldist við Guðrúnu ævina á enda. Á þessum tíma voru hjónaskilnaðir fremur fátíðir á Íslandi enda flókið ferli að sækja um skilnað og þurfti gild ástæða að vera fyrir slíkri umsókn.[66] Hvergi er minnst á aðskilnað Guðrúnar og Þórðar í bréfabók biskups eða bréfum til biskups í Barðarstrandaprófastdæmi og ekki heldur í sáttabókum sem haldnar voru af sáttanefndum í öllum sýslum og voru nokkurs konar „fyrsta dómstig“ í til dæmis skilnaðarmálum. Hvorugt þeirra virðist því hafa sóst eftir lagalegum skilnaði, að minnsta kosti finnast engin gögn þar að lútandi.[67]
Líklega sest Guðrún að í Stykkishólmi þegar hún flytur frá Vestfjörðum vegna þess að þar bjuggu þrjú af systkinum hennar; auk Þuríðar Kúld þau Egill Egilson og Kristín Hjaltalín, og fleiri systkini hennar dvöldu þar um lengri eða skemmri tíma. Guðrún lést þann 2. júní árið 1916, 85 ára gömul, og lifði hún lengst allra barna Sveinbjarnar og Helgu. Hún bjó í Stykkishólmi í 43 ár að undanskildum tveimur árum, 1876 og 1877, eins og áður var nefnt. Eftir því sem næst verður komist var Guðrún fjárhagslega sjálfstæð alla tíð eftir að hún fór frá séra Þórði. Eins og fram er komið hafði hún tekjur af kennslu og handavinnu enda var hún „hannyrðakona með afbrigðum“[68] og var tvívegis verðlaunuð fyrir listsaum á Iðnsýningum í Reykjavík.[69] Þá hafði hún leigutekjur í mörg ár og frá árinu 1895 naut hún einnig ekknastyrks, eða frá árinu 1895 og til dánarárs, samtals í nítján ár.[70] Í Stykkishólmi naut Guðrún „mikillar virðingar bæði sakir ættar sinnar og einnig vegna þess að hún þótti mikilhæf og sérstök kona“.[71] Lát Guðrúnar var tilkynnt í Morgunblaðinu: „Hér með tilkynnist vinum og vandamönnum að ekkjufrú Guðrún Sveinbjarnardóttir í Stykkishólmi andaðist að heimili sínu kl. 11 í gærkvöldi eftir langvarandi lasleika, nær 85 ára gömul.“ Tilkynningin er dagsett 3. júní og undir hana skrifar „[f]yrir hönd ættingjanna“, Jón Á. Egilsson, bróðursonur Guðrúnar.[72] Eftir að Guðrún var orðin sjúklingur og gat ekki hugsað um sig sjálf naut hún hjúkrunar og aðhlynningar Elínborgar Baldvinsdóttur, fyrrum leigjanda síns,[73] frá því í september 1914 og til dánardægurs, eins og sjá má af reikningi sem Elínborgu var greiddur úr dánarbúinu, 31. desember 1916, upp á 325 krónur.[74]
„Og hlaut hún að ganga með rangt ákvarðað kynferði alla ævi“
Af því sem hér hefur verið dregið saman úr tiltækum heimildum um Guðrúnu Sveinbjarnardóttur má segja að upp teiknist nokkuð flókin mynd. Myndin sýnir sjálfstæða, duglega og mikilhæfa konu sem sá fyrir sér sjálf með ýmsum ráðum og naut virðingar í Stykkishólmi, þótt hún þætti sérstök. Um hana var hins vegar einnig slúðrað og athygli vekur að hún býr árum saman með Ragnhildi Gísladóttur, en enginn karlmaður kemur við sögu í slúðri um Guðrúnu. Það sem vekur einna mesta eftirtekt í frásögn Málfríðar er sú fullyrðing að vinnukona á prestsetrinu í Otradal hafi kennt Guðrúnu barn og hún ekki getað „borið það af sér“. Af því sem rakið hefur verið hér að framan er ekkert sem styður þá sögusögn, né þá að Guðrún hafi gengið „með rangt ákvarðað kynferði alla ævi“. Það er hins vegar ljóst að Guðrún og séra Þórður áttu við hjónabandserfiðleika að stríða og var Guðrún talin bera þar sök fremur en Þórður. Einnig voru á sveimi sögur um að Guðrún „væri ekki gerð sem aðrar konur“. Hér að framan var þess getið að Sighvati Borgfirðingi liggi miður gott orð til Guðrúnar í Prestaæfum en þar skrifar hann:
Þegar þau hjón höfðu verið saman í Otrardal um 11 ár [rétt er 10 ár], þá hljóp Guðrún frá honum, og fór út í Selárdal, og var þar nokkur ár, en 1869 flutti hún 38 ára gömul, frá Neðribæ í Selárdal til Stykkishólms [rétt er að Þingvöllum í Helgafellssókn], og með henni Ragnhildur frá Neðribæ 29 ára [rétt er 28 ára], Gísladóttir, bónda í Neðribæ, Árnasonar og var Guðrún síðan í Stykkishólmi til dauðadags. Þau hjón voru barnlaus, og var hún af mörgum kölluð Graða Gunna. Fóru ýmsar hraksögur af meðferð hennar og viðskilnaði við mann sinn, og það eitt með fleiru að með sér flutti hún flest það er fémætt væri eigu þeirra og hún mátti með sér hafa, en skildi prest eftir félausann [svo] með öllu, en honum fór við hana að öllu vel, þó illa hefði hún við hann búið.[75]
Það er vissulega eftirtektarvert hversu harðorður Sighvatur er í garð Guðrúnar og að viðurnefnið „Graða Gunna“ sé nefnt í beinu framhaldi þess að getið er um barnleysi þeirra hjóna. Samkvæmt Íslenskri orðsifjabók er sá sem er graður: „ógeltur, kynólmur, lostafullur“[76] og er orðið bæði notað um hesta og menn. Ef á sveimi hefur verið slúður um að prestfrúin í Otradal væri ‚lostafull‘ vaknar forvitni um hvers vegna og í hvers garð sá losti hefur beinst.
Það liggur ekki í augum uppi hvernig ber að túlka þessa mynd af Guðrúnu, sérstaklega þann hluta hennar sem byggður er á sögusögnum og slúðri. Sú spurning vaknar hvort fræðimaður geti tekið slúður alvarlega? Helga Kress hefur bent á að slúður „er munnlegt form sagna, óstöðugt, margrætt og síbreytilegt“ og geti „verið lítillækkandi, og jafnvel meiðandi“.[77] Slúður er gildur þáttur í orðræðu Íslendingasagna og mikill áhrifavaldur á atburðarás margra þeirra. Helga skilgreinir það á eftirfarandi hátt:
Slúður [...] felur í sér sögu jafnt sem söguburð. Slúðri fylgir jafnan viss leynd, og stundum njósnir og uppljóstranir. Slúður skortir allar formlegar reglur sem segja til um hver má tala og hvernig, af hvaða nákvæmni og áreiðanleika. Það getur verið illmögulegt að rekja það, leiðrétta, eða vita hver breiðir það út og hvert það berst. Það er óheft tungumál, andstæða ríkjandi og opinbers tungumáls. Slúður er orðræða hinnar valdalausu, jafnt þeirra sem valdið hafa. Það er afþreyingarmenning sem hin viðurkennda menning vinnur úr og tileinkar sér, án þess að gangast við því.[78]
Helga bendir einnig á að slúður innihaldi oft vísanir í kynlíf, eins og til að mynda í Lokasennu þar sem konurnar eru „kynósa, en karlarnir argir“.[79] Slúður sem þáttur í bókmenntum er vissulega verðugt rannsóknarefni en hvað með þegar það er þáttur af frásögnum sem tilheyra ekki skáldskapartextum heldur varða líf raunverulegs fólks? Íris Ellenberger sagnfræðingur bendir á að slúður sé „vissulega ein tegund af þekkingu“:
Innan þjóðfræðinnar telst slúður til svokallaðra sagna, munnlegs efnis, sem eiga ýmislegt skylt við ævintýri en tilheyra þó, öfugt við ævintýrið, raunheimum og tengjast atburðum sem fólk þekkir. Slíkar sagnir hafa einmitt verið notaðar til að varpa ljósi á samkynja ástir karla á Íslandi áður en réttindabarátta samkynhneigðra hófst og það fór að tíðkast að fólk byggði sjálfsmynd sína á þeim sem það laðaðist að.[80]
Íris virðist því telja að slúður sé að einhverju leyti nothæft til þekkingaröflunar. Kannski á það ekki síst við þegar um er að ræða málefni sem erfitt er að ræða opinskátt eins og hinsegin kynverund. Íris vísar í Særúnu Lísu Birgisdóttur sem fjallar um þetta í meistaraprófsritgerð sinni „Hommar eða huldufólk“ þar sem hún rannsakar sagnir af samkynhneigðum karlmönnum, sérstaklega á hernámsárunum þegar tækifæri til náinna kynna voru meiri en áður. Þá rannsakar Særún Lísa einnig þjóðsögur og spáir í hvort í þeim leynist vísbendingar um samkynja ástir.[81] Ýmislegt bendir til þess að í raun hafi engin orðræða verið til um samkynhneigð eða önnur hinsegin málefni á Íslandi fyrr en langt var liðið á tuttugustu öld[82] og þegar þannig háttar til má segja að slúður gefi vísbendingu fremur en vitneskju, eða, eins og segir í latnesku orðatiltæki: „Vbi fumus, ibi ignis“: „Þar sem er reykur, þar er eldur.“
Túlkunarmöguleikar
Í inngangi að nýútkomnu greinasafni um hinsegin fræði og hinsegin sögu á Íslandi, Svo veistu að þú varst ekki hér, setja ritstjórarnir fram nokkrar spurningar sem varða „eldri vísbendingar um tilvist hinsegin fólks“, meðal annars þessa: „Ef sagt var að kona hefði barnað aðra konu, merkir það að hún hafi verið intersex?“[83] Slíkri spurningu verður vitaskuld ekki svarað með ótvíræðum hætti ef engar óyggjandi heimildir liggja fyrir. Mér virðist hins vegar að hægt sé að íhuga ýmsa möguleika til að skýra sögurnar um Guðrúnu Sveinbjarnardóttur. Við blasa að minnsta kosti ferns konar svör:
1) Að orðrómurinn sé slúður, ef til vill til kominn vegna ,karlmannlegs útlits‘ hennar eða ‚ókvenlegrar‘ hegðunar og ekkert í honum hæft.
2) Að orðrómurinn hafi komist á kreik vegna þess að eftir því var tekið að Guðrún hneigðist til kvenna.
3) Að Guðrún hafi verið það sem í dag kallast intersex, kynferði hennar hafi verið rangt ákvarðað við fæðingu og hún gæti þar af leiðandi hugsanlega hafa barnað vinnukonuna.
4) Að kynferði Guðrúnar hafi verið rangt ákvarðað við fæðingu, hún hafi í raun verið karlmaður og barnað vinnukonuna, eins og haldið er fram.
Af þessum fjórum möguleikum ætti að vera nokkuð óhætt að útloka þann fjórða og síðasta, að kyn Guðrúnar hafi verið rangt skilgreint við fæðingu og ekki hafi verið um intersex breytileika að ræða. Fyrsti möguleikinn er mjög trúlegur; að um sé að ræða illkvittið slúður og lygi, kannski sprottið upp af vitund um erfiðleika í hjónabandinu og slæmu umtali og því að Guðrún var ,karlmannleg‘ í útliti, stórgerð og með sterka andlitsdrætti, eins og sjá má á þeim ljósmyndum sem til eru af henni. Fastmótaðar og niðurnjörvaðar hugmyndir um karlmennsku og kvenleika hafa ríkt um veröld víða á öllum tímum og oft verið refsað harðlega fyrir frávik frá ,eðlilegri‘ kynja- og kynhegðun. Fyrr á tímum var refsað fyrir slíkt með pyntingum og lífláti, síðar með slúðri og sögusögnum sem í sumum tilvikum leiddi til lögsóknar og fangelsunar.[84] Ýmis íslensk dæmi eru til um það frá fyrri öldum að konur voru karlkenndar – eða kallaðar karlmenn – ef þær þóttu ókvenlegar. Eitt slíkt dæmi er að finna í sagnaþætti Gísla Konráðssonar, „Jón Einarsson á Sauðá“. Sauðár-Jón, sem var uppi um miðja átjándu öld, átti mörg börn utan hjónabands og gekkst við sumum en ekki öðrum. Guðrún hét ein dóttir hans sem hann neitaði að gangast við „þótt mynd hans væri á henni“ og er afneitun föðurins skýrð með því hvernig þessi laundóttir hans var í útliti og háttum: „En því var hún karlmaður kölluð, að í öllum háttum sínum var hún líkari körlum en konum. Vinnukona var hún mikil, vel látin hvarvetna, húskona lengst ævi sinnar, dó ógift og barnlaus.“[85]
Annar möguleikinn, að eftir því væri tekið að Guðrún Sveinbjarnardóttir hneigðist til kvenna, er ekki heldur ósennilegur. Þar með er ekki sagt að hún hafi verið það sem í dag er skilgreint sem lesbía, því slíkt orð var ekki til í orðaforða Íslendinga á þeim tíma og kannski heldur ekki hugmyndin um slíka kynhneigð eða kynverund.[86] Reyndar má hafa í huga að Guðrún ólst upp á heimili þar sem grískar menntir voru í hávegum hafðar og faðir hennar þýddi hvort tveggja Samdrykkju Platóns og ljóð eftir Saffó,[87] svo það kann að vera að hugmyndin um samkynja ástir hafi ekki verið henni ókunn. Það kann líka vera að Guðrún hafi átt í einhvers konar ástarsamböndum við konur, bæði á prestsetrinu í Otradal og síðar. Sérstaklega má þar hafa í huga áralanga sambúð hennar og Ragnhildar Gísladóttur. Á nítjándu öld, þegar samkynhneigð var lögð að jöfnu við líkamlegan ‚afbrigðileika‘, og oft álitin ástand þar sem karlkyns sál væri föst í kvenlíkama og öfugt, var grunur um ,of náin‘ sambönd kvenna næg ástæða fyrir sögusögnum, slúðri og karlkenningu.[88]
Þriðji möguleikinn er sá að fótur hafi verið fyrir sögusögnunum um að Guðrún hafi verið karlmaður að því leyti að kyn hennar hafi verið rangt ákvarðað við fæðingu sökum þess sem í dag er kallað intersex kynbreytileiki; til dæmis að hún hafi líkamlega líkst stúlku í frumbernsku og æsku en annað kyn komið í ljós við kynþroska. Þekktasta dæmið um slíkt er líklega saga Herculine Barbin (1838–1868) sem Michel Foucault gaf út í enskri þýðingu, ásamt formála sínum og læknaskýrslum.[89] Finnbogi Hermannsson skrifaði þátt um Guðrúnu Sveinbjarnardóttur sem birtist í öðru bindi rita hans um vestfirskar konur. Þar bendir hann á að sé gætt „að barnsfæðingum í Otradalssókn sem gætu flúttað við orð Málfríðar, þá fæðir vinnukonan Sigríður Kristjánsdóttir barn í Otradal þann 22. september árið 1859“.[90] Sigríður var ógift og stúlkan sem hún fæddi í Otradal var einnig skírð Sigríður og kennd einhleypum manni á Suðureyri við Tálknafjörð.[91] Sigríður og samnefnd dóttir hennar bjuggu áfram hjá séra Þórði, eftir brotthvarf Guðrúnar, og fylgdu honum þegar hann flutti frá Otradal til Brjánslækjar árið 1864 þar sem hann gegndi prestsembætti til 1879. Hér verður þessi þráður ekki rakinn lengra enda engar heimildir tiltækar sem styðja að um samband á milli Sigríðar Kristjánsdóttur og Guðrúnar Sveinbjarnardóttur hafi verið að ræða. Í því sem á eftir fer mun ég engu að síður fylgja eftir þeim möguleika að Guðrún hafi verið með intersex breytileika, því í honum er aftur fólginn sá möguleiki að hún hefði getað eignast barn með vinnukonu á prestsetrinu í Otradal. Intersex einstaklingar geta verið frjóir og á það til að mynda við um margt fólk sem fæðist með kynbreytileika sem á máli læknavísinda kallast 5-ARD. Með því að fjalla ítarlega um intersex kynbreytileika er ég þó ekki að halda því fram að sá möguleiki sé sennilegri í tilfelli Guðrúnar en sú einfalda skýring að um slúður hafi verið að ræða. Ætlunin er öllu heldur að koma í veg fyrir að þessi möguleiki sé afskrifaður eða talinn líffræðilega ómögulegur. Áður en fjallað verður nánar um intersex og þennan tiltekna breytileika er þó rétt að fara nokkrum orðum um kröfuna um hið „sanna kyn“ og „veruleika líkamans“.
Veruleiki líkamans, hvatir og líkamsgerðir
Þótt í skáldsögunni Orlandó sé minnst á „vandræðagang“ og „rugling“ sem af því leiðir þegar hinn ytri og innri veruleiki stangast á hvað kyn varðar er greinilegt að höfundur gerir ráð fyrir að kynin séu aðeins tvö, karl og kona. Virginia Woolf skrifar Orlandó árið 1928 og þótt hún hafi verið bæði framsýn og frjálslynd í skoðunum, eins og skáldsagan ber vitni um, hefur hana varla órað fyrir þeim fjölbreytileika sem við stöndum frammi fyrir nú á dögum þegar rætt er um kyn, kynferði, kyngervi, kynvitund, kynhneigð og kynverund – og af stafar nokkur „ruglingur“. Það á í það minnsta við meginþorra almennings sem ekki hefur kynnt sér málefni hinsegin fólks.
Flestir gera sér líklega grein fyrir að kyngervi eru óstöðug og geta breyst í takt við hefðir, tíðaranda og tísku. Að sama skapi virðast flestir trúa því að kyn sé aftur á móti föst stærð af tvennu tagi, þótt breyta megi líkamlegu kyni með læknisfræðilegum aðgerðum.[92] Að líffræðileg kyn séu fleiri en tvö er hins vegar staðreynd sem smám saman hefur verið að koma fram í dagsljósið eftir áratuga bælingu, feluleik og inngrip lækna. Ýmsir fræðimenn, þar á meðal Michel Foucault sem rannsakað hefur sögu kynverundar,[93] tilurð rannsóknarsjúkrahúsa og þróun hins læknisfræðilega sjónarhorns,[94] halda því fram að það sé fyrst og fremst tilbúningur lækna að kynin séu (bara) tvö; að með framförum í læknavísindum og tækninýjungum hafi flest frávik frá augljósum og aðgreinanlegum kyneinkennum drengja og stúlkna þurft að sæta „leiðréttingum“ í formi skurðaðgerða og annars konar inngripa.[95]
Í inngangi að bókinni um Herculine Barbin spyr Foucault hvort við þurfum sannarlega á sönnu kyni að halda og heldur áfram:
Með staðfestu sem jaðrar við þvermóðsku, hafa vestræn samfélög svarað játandi. Þau hafa þrákelknislega gert „hið sanna kyn“ að viðfangsefni í skipulagi þar sem maður hefði haldið að veruleiki líkamans og nautnir hans væru það sem skipti máli.[96]
Foucault bendir á að þessi krafa – um hið „sanna kyn“ – hafi ekki alltaf verið til staðar, það megi meðal annars merkja á ýmsum lagasetningum sem vörðuðu hermafródítur fyrr á öldum, eins og vikið verður að.[97] Þá má einnig minna á að víða utan Vesturlanda hafa til skamms tíma verið viðurkennd fleiri en tvö kyn.[98] Hugtakið hermafródíta er yfirleitt ekki lengur notað í umræðu um þetta málefni og fallast má á að það sé úrelt enda liggur uppruni þess í grískri goðsögn sem fjallar að hluta til um kynferðisofbeldi, þótt oft sé það túlkað sem ástarsamband.[99] Önnur rök fyrir því að nota ekki þetta hugtak er að það er notað í líffræði yfir tvíkynjunga (t.d. snigla) sem hafa fullvirk æxlunarfæri beggja kynja en slíkt á ekki við um intersex manneskjur, sem er það hugtak sem flestir nota nú á dögum. Einnig er hefð fyrir því að tala um þriðja kynið og má í því sambandi benda á að fyrsta nóvember árið 2013 voru samþykkt í Þýskalandi lög þar að lútandi, þ.e.a.s. þá var opnað á að skrá þriðja kynið í stað kvenkyns eða karlkyns í þjóðskrá.[100] Sumir fræðimenn kjósa þó enn að nota hugtakið hermafródíta, eins og sjá má í titlum einstaka fræðibóka á þessu sviði frá síðustu tveimur áratugum.[101] Á heimasíðu samtakanna Intersex Ísland kemur fram að árið 2006 „skipti læknasamfélagið út hugtakinu „intersex“ fyrir „disorders of sex development“ eða DSD.“ Bent er á að slík skilgreining efli óhjákvæmilega „þá skoðun að intersex breytileiki sé á einhvern hátt sjúkdómur eða kvilli sem þurfi að lækna“. Jafnframt er tekið fram að intersex einstaklingum sé „frjálst að nota hvaða hugtak sem þeir vilja“ en mælt er með hugtakinu intersex því það „er viðteknara og útbreiddara í dag“ en önnur hugtök. Að auki er bent á þá staðreynd „að fordómafullt tungutak leiði til verri andlegrar heilsu, jaðarsetningar og útilokunar frá mannréttindum og félagslegum stofnunum“. Hugtakið intersex er talið stuðla „að jöfnuði og mannréttindum fyrir fólk fætt með óhefðbundin kyneinkenni“.[102] Ég mun því hér á eftir nota hugtakið intersex, að undanskildum þeim tilvikum þar sem vísað er til heimilda fyrri alda þegar hugtakið hermafródíta var talið gott og gilt og því oft notað.
Í Orlandó hvetur Virginia Woolf okkur til að fagna hamingjunni og „svölun náttúrlegra hvata, hvort sem þær nú kunna að vera eins og karlkyns skáldsagnahöfundurinn lýsir þeim, eða bænin, eða afneitunin.“ Hún hvetur okkur jafnframt til að fagna hvötum „í hvaða formi sem þær koma og megi ný og furðulegri form skjóta upp kollinum“.[103] Mikilvægt er þó að gera sér grein fyrir því að intersex kynbreytileiki snýst ekki um hvatir heldur líkamsgerð. Intersex einstaklingar geta verið gagnkynhneigðir, samkynheigðir, tvíkynhneigðir eða skilgreint hvatir sínar á jafn fjölbreytilegan hátt og þeir sem ekki eru intersex. Til nánari útskýringa má vísa til heimasíðu samtakanna Intersex Ísland:
„Intersex“ er hugtak sem nær yfir breitt svið af meðfæddum líkamlegum einkennum eða breytileika sem liggja á milli okkar stöðluðu hugmynda um karl- og kvenkyn. Intersex einstaklingar fæðast með einkenni sem eru ekki algjörlega karl- eða kvenkyns; sem eru sambland af karl- og kvenkyns; eða sem eru hvorki karl- né kvenkyns. Margar formgerðir af intersex eru til. Um er að ræða skala eða regnhlífarhugtak frekar en einn eiginlegan flokk. Sumar algengar intersex-formgerðir eru greindar á meðgöngu. Intersex breytileiki getur verið sjáanlegur við fæðingu. Sumir intersex eiginleikar koma í ljós við kynþroska, þegar reynt er að geta barn, eða fyrir einskæra tilviljun.[104]
Allt fram á síðustu ár hefur fáum sögum farið af intersex fólki á Íslandi og sömuleiðis hefur lítið farið fyrir fræðilegri umræðu sem varðar þetta málefni.[105] Ræður því að öllum líkindum hvort tveggja fáfræði og sú viðkvæma staða sem intersex fólk er óhjákvæmilega ofurselt vegna feluleiks og fordóma sem honum fylgja. Árið 2014 birtist viðtal við Kitty Anderson (f. 1982) í tímariti Hinsegin daga í Reykjavík og er þar um að ræða fyrsta viðtalið við intersex einstakling sem birtist á íslenskum vettvangi.[106] Kitty stóð fyrir stofnun samtaka intersex fólks á Íslandi 27. júní sama ár og heldur félagið reglulega fundi fyrir intersex fólk, ásamt því að halda úti heimasíðu þar sem leitast er við að miðla upplýsingum. Árið 2014 er tímamótaár í þessu samhengi því þá birtist einnig í Ritinu greinin „Eitt, tvö, þrjú kyn. Þverfræðilegar hugleiðingar um óljóst kyn og óvenjulega líkama“ eftir Sólveigu Önnu Bóasdóttur guðfræðing[107] og Unnur Másdóttir skrifaði lokaritgerð til BA-prófs í Uppeldis- og menntunarfræðideild Háskóla Íslands um intersex.[108] Grein Sólveigar Önnu og ritgerð Unnar hafa báðar að markmiði að auka meðvitund og umræðu um málefni intersex fólks. Sólveig Anna segir réttilega að tímabært sé að hrista upp í því gagnstæðukynjalíkani „sem menning okkar hefur lengi haft að forsendu“ og hún hvetur til þess að „að vestræn menning taki til við að íhuga eigin kynjaskilning á gagnrýninn og skapandi hátt“.[109] Unnur tekur í sama streng og bendir á að til þess að hægt sé að stuðla að mannréttindum intersex fólks þurfi að auka þekkingu um tilvist þess. Hún bendir einnig á að „[v]andamál intersex einstaklinga liggja ekki hjá þeim sjálfum heldur í samfélagsgerðinni og þeirri hugmyndafræði sem ríkir innan hennar um kyn og líkamsgerðir.“ Hún telur „tímabært að stjórnvöld og yfirvöld menntamála beiti sér fyrir fræðslueflingu og aukinni vitund um intersex einstaklinga, og aðra sem ekki falla að hinni hefðbundnu tvískiptingu kyns“ því það sé „staðreynd að intersex einstaklingar eru hluti af íslensku samfélagi.“[110]
Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að intersex getur verið af margs konar tagi, eins og ítrekað er hér að ofan; um er að ræða hugtak sem notað er um einstaklinga með mismunandi líkamleg einkenni, sýnileg og ósýnileg, sem yfirleitt eiga það eitt sameiginlegt að vera einhvers konar blanda af einkennum þeirra tveggja kynja sem læknisfræðin gerir oftast ráð fyrir. Tölum ber ekki saman um hversu algengt það er að börn fæðist með intersex kynbreytileika en samkvæmt rannsókn teymis bandarískra vísindamanna frá árinu 2000 er talið að eitt eða tvö börn af hverjum tvö þúsund fæðist með illskilgreinanlegt kynferði og að í Bandaríkjunum fæðist að minnsta kosti eitt slíkt barn á dag.[111] Allt frá því á sjötta áratug liðinnar aldar og fram á okkar daga hafa flest þessara barna, sem fæðast í hinum vestræna heimi, undirgengist skurðaðgerðir sem miða að því að laga líkamsgerð þeirra að kynferði drengs eða stúlku, strax á fyrstu vikum eða mánuðum eftir fæðingu. Yfirleitt fylgja svo fleiri skurðaðgerðir í kjölfarið á næstu árum, sem og hormóna- og lyfjagjöf. Í ýmsum tilvikum hafa skurðaðgerðirnar og meðferðin leitt til þrálátra vandamála og þjáninga (líkamlegra og andlegra) fyrir viðkomandi einstakling, eins og ótal frásagnir bera vitni um.[112] Vera kann að einhverjir haldi að hægt sé með einfaldri kynlitningagreiningu að ákvarða hvort barn með óræð kynfæri sé drengur eða stúlka en því fer fjarri. Veruleiki litninganna er fjölbreytilegur, þeir geta verið XX, XY, XO, XXY, XXX, XXXY og er þá ekki allt upp talið. Þá geta kynlitningar verið gagnstæðir líkamlegum útlitseinkennum einstaklingsins. Oft þurfa foreldrar intersex ungbarna sjálfir að taka ákvörðun um í hvaða átt aðgerðir eigi að ganga, þ.e. hvort intersex barni verði „breytt í“ stúlku eða dreng, og þeim gefst yfirleitt lítill tími til að íhuga málið. Í grein sem birtist í Stúdentablaðinu árið 2009 er fjallað lítillega um hvernig tekið er á slíkum málum á Íslandi og þar segir meðal annars: „Ákvörðun um kyn barnsins er tekin á vikum, ekki síst vegna praktískra mála á borð við skráningu í þjóðskrá og nafngift, en lögð er áhersla á að hún sé vel undirbúin og að allir séu sammála um niðurstöðuna.“[113] Greinarhöfundur vísar í samtal við Ragnar Bjarnason, sérfræðing í innkirtla- og efnaskiptasjúkdómum barna, og lögð er áhersla á að foreldrar séu vel upplýstir og allar ákvarðanir teknar í samráði við þá. Óhjákvæmilega hljóta þó flestir foreldrar að vera í erfiðri stöðu í slíkum aðstæðum og líklega er rík tilhneiging til að fara eftir ráðleggingum lækna. Þá vekur það athygli að praktísk mál „á borð við skráningu í þjóðskrá og nafngift“ skipti höfuðmáli þegar svo afdrifarík ákvörðun er tekin.
Tilraunir hafa verið gerðar innan líffræði og þroskunarerfðafræði til að greina fleiri kyn en tvö. Nefna má hugleiðingar Anne Fausto-Sterling, sem er virtur sérfræðingur á sviði líffræði, erfðafræði og kynjafræði, um fimm mismunandi kyn sem hún setti fram í grein í tímaritinu The Sciences árið 1993.[114] Fausto-Sterling tekur fram í greininni að ekkert flokkunarkerfi nái utan um allan þann breytileika sem mögulegur er í samsetningu á þeim líkamsþáttum og einkennum sem ákvarða kyn einstaklinga (þ.e. samsetningu litninga, kynkirtla, ytri og innri kynfæra og líkamseinkenna). Engu að síður leggur hún fram hugmynd um fimm kyn, sem hún kallar male, female, herm, merm og ferm.[115] Ítrekað skal að þessi fimm kynjahugtök og lýsingar Fausto-Sterling á þeim eru hugmyndir fyrst og fremst; hún setti þær fram til að hvetja til nýrra leiða í umræðu um kynbreytileika. Engu að síður brugðust margir ókvæða við framsetningu hennar og talsmenn intersex fólks töldu hana ruglandi og ekki til þess fallna að auka skilning á intersex kynbreytileika. Á þær athugasemdir féllst Fausto-Sterling í síðari grein sem hún birti í sama tímariti sjö árum síðar undir titlinum „The Five Sexes, Revisited“.[116] Þar leggur hún áherslu á þær breytingar sem orðið höfðu á stöðu og sýnileika intersex fólks á þeim sjö árum sem liðu á milli greinanna tveggja og hún fellst á þá gagnrýni sálfræðingsins Suzanne J. Kessler að útgangspunktur hugmynda hennar um fimm kyn sé ætíð kynfærin og að hverfa verði frá því að einblína á þau í umfjöllun um intersex. Kessler bendir á þá staðreynd að í daglegu lífi séu það aðrir þættir en kynfærin sem gefa kynið í skyn; að kynið ákvarðist af daglegum gjörningum, burtséð frá því hvernig holdið lítur út undir fötunum.[117] Hér má minna á hugmyndir Judith Butler um að kyn sé, rétt eins og kyngervi, í raun gjörningur sem við fremjum í sífellu.[118] Fausto-Sterling fellst á að í stað þess að einblína á kynfæri fólks þurfi að horfast í augu við að þegar spurt er um kyn og kynverund, sjálfsvitund og sjálfmyndir stöndum við frammi fyrir fjölbreytileika sem beri að viðurkenna fremur en að reyna að laga alla að hinu gagnkynhneigða viðmiði. Hins vegar sé staða þeirra sem séu ‚öðruvísi‘ (eða hinsegin) víða það slæm á bæði samfélagslegu, læknisfræðilegu og lagalegu sviði að enn sé langt í land með að slík hugsjón verði að veruleika.[119]
Í fyrri grein Anne Fausto-Sterling um kynin fimm rekur hún nokkrar sögulegar frásagnir af intersex fólki og leitar bæði í sagnir og sagnfræði. Hún bendir á að í mörgum goðsögum sé uppruni mannkyns rakinn til tvíkynja vera en hún vísar einnig til sögulegra persóna. Þá bendir hún á að í hinum gömlu lagasöfnum Gyðinga, Talmud og Tosefta, giltu ströng lög um einstaklinga sem skilgreindir voru sem hermafródítur. Að mörgu leyti voru réttindi þeirra (eða réttindaleysi) svipuð lögum um konur. Til að mynda höfðu hermafródítur ekki erfðarétt eftir föður (líkt og gilti um dætur), máttu ekki bera vitni og ekki gegna starfi presta (fremur en konur). Þá var þeim skylt að halda sig frá karlmönnum ef þær höfðu á klæðum en máttu ekki heldur einangra sig með hópi kvenna. Bann gegn kynferðislegu sambandi við drengi gilti um þær og einnig var þeim var bannað að raka sig. Við lok miðalda voru í Evrópu sett lög sem kváðu á um að hermafródítur yrðu að velja á milli kynhlutverks karls eða konu. Ef upp komst um háttalag sem stríddi á móti því hlutverki sem valið hafði verið voru refsingar grimmilegar. Fausto-Sterling nefnir dæmi um intersex einstakling sem lifði á sautjándu öld í Skotlandi og hafði valið sér kynhlutverk konu en varð fyrir því að gera dóttur húsbónda síns ófríska. Fyrir þann ‚glæp‘ var hún grafin lifandi.[120] Það er þó ekki algengt að intersex einstaklingar eignist börn eftir ‚náttúrlegum‘ leiðum. Annars vegar er um að ræða meðfædda ófrjósemi en hins vegar þá staðreynd að eftir að inngrip lækna urðu ráðandi voru kynkirtlar gjarnan fjarlægðir úr intersex ungbörnum og því var getnaður gerður ómögulegur. Það er hins vegar ekki útilokað að intersex einstaklingar séu frjóir og þekkjast mörg dæmi um það.
‚Umbreyting frá stúlku yfir í dreng‘ og ‚eistu við tólf ára aldur‘
Eins og komið hefur fram er intersex breytileiki margs konar en nokkrar formgerðir hans eru þó algengari eða þekktari en aðrar. Í áðurnefndri ritgerð Unnar Másdóttur er útskýrt að um getur verið að ræða:
[…] margs konar útfærslur meðfæddra líffræðilegra einkenna þar sem kynfæri, kynkirtlar, genasamsetning, litningar og/eða hormón eru frábrugðin því sem almennt er talið skilgreina kvenkyn og karlkyn. Intersex einkenni geta til dæmis verið ytri kynfæri sem ekki eru talin dæmigerð að útliti fyrir konur eða karla og er þá gjarnan talað um óræð kynfæri (e. ambiguous genitalia). Einstaklingar geta einnig fæðst með æxlunarfæri sem talin eru blanda af kven- og karl æxlunarfærum og þar að auki geta innri æxlunarfæri verið í ósamræmi við ytri kynfæri samkvæmt viðmiðum samfélagsins um líkama kvenna og karla.[121]
Í bók Anne Fausto-Sterling, Sexing the Body, gerir hún grein fyrir tíu ólíkum gerðum intersex breytileika og færir rök fyrir að ríflega 1,7% einstaklinga fæðist intersex.[122] Ein tegund breytileika, og ein af þeim sem hafa ekki endilega í för með sér ófrjósemi, er svokallað 5 Alpha-Reductase Deficiency (5-ARD). Um er að ræða einstaklinga sem hafa XY kynlitninga en ensímið 5-alpha-reductase, sem stjórnar testesteróni sem er nauðsynlegt fyrir þroska karlkyns kynfæra, virkar ekki sem skyldi á fósturstigi. Þessi börn fæðast því stundum með óræð kynfæri en algengast er að þau fæðist með kvenkyns ytri kynfæri og fyrr á tímum var kyn margra þeirra ákvarðað sem kvenkyns. Á kynþroskaskeiði virkjast hins vegar ensímið og þá koma fram karlkynja einkenni, svo sem aukinn hárvöxtur í andliti og á líkama, vöðvamassi eykst og röddin dýpkar. Þá taka kynfærin einnig breytingum í sömu átt, limur (sem áður var talinn vera snípur) stækkar og eistu ganga niður.[123] Á Vesturlöndum er kynfærum barna sem fæðast með þennan kynbreytileika gjarnan breytt með skurðaðgerðum á þann veg að þau líkist sem mest kvenkynfærum á fyrstu vikum eða mánuðum eftir fæðingu. Inngrip lækna miða að því að koma í veg fyrir að ensímið virkist á kynþroskaaldri og gerðar eru aðgerðir til að búa til kvenkynfæri. Því er þó ekki alls staðar þannig varið. Á ákveðnum svæðum Papúa Nýju-Geníu og í Dóminkanska lýðveldinu er 5-ARD mun algengara en annars staðar í heiminum. Þar fá þessi börn að þroskast án inngripa þar sem kynbreytileikinn er þekktur og ekki er litið á hann sem læknisfræðilegt ‚vandamál‘. Þar eru einnig til orð sem notuð eru í stað drengur og stúlka yfir börn með þennan breytileika: Í Papúa Nýju-Geníu kallast slík börn kwolu-aatmwol, sem þýða mætti sem umbreytist frá kvenveru yfir í karlveru,[124] og í Dóminíkanska lýðveldinu kallast þau guevedoche, sem þýða mætti sem eistu við tólf ára aldur.[125]
Finna má dæmi um kynbreytileika á borð við þann sem hér er lýst í erlendum heimildum frá fyrri öldum, á þeim tíma þegar hvorki var til þekking til að greina hann né tækni til að fást við hann á nokkurn hátt. Hafi Guðrún Sveinbjarnardóttir fæðst með slíkan kynbreytileika, eða annan svipaðan, voru tveir kostir í boði: Að opinbera breytinguna og hefja líf sem karlmaður eða hylma yfir breytinguna og halda áfram að lifa sem kona. Ekki eru neinar þekktar heimildir úr íslenskri sögu fyrri alda um einstaklinga sem hófu að lifa í nýju kynhlutverki á fullorðinsárum vegna rangrar kynákvörðunar við fæðingu. Það er því hægt að geta sér til um að slík ákvörðun hefði verið næsta ómöguleg í tilviki Guðrúnar og því síðari kosturinn í raun eini kosturinn. Herculine Barbin, sem áður hefur verið minnst á, lifði sem kona til tvítugs, hóf síðan líf sem karlmaðurinn Abel Barbin eftir að læknar og lögfræðingar höfðu kveðið upp úrskurð um hið sanna kyn hans. Barbin var greind með það sem kallað var „male pseudohermaphrodite“ en 5-ARD er ein tegund þess og sennilegt að um slíkt hafi verið að ræða í tilviki Barbin þótt þekking á því væri ekki fyrir hendi á þeim tíma sem hún/hann[126] lifði. Líf Abels eftir hina lagalegu kynbreytingu var kvalræði og stytti hann sér aldur um þrítugt, í febrúar 1868.
Þorvaldur Kristinsson fjallar í greininni „Glæpurinn gegn náttúrlegu eðli“ um tilurð og þróun orðræðu manna í Norður-Evrópu um kynhegðun og hvatalíf og bendir á hvernig vald yfir hegðun sem talin var „gegn náttúrlegu eðli“ færist á löngum tíma frá kirkjunni yfir til löggjafans og síðan til læknavísindanna. Það er ekki fyrr en undir lok nítjándu aldar sem slík orðræða verður opinber þótt hún hafi áður lifað undir yfirborðinu í slúðri, klámi og kynórum á öllum tímum og síðan, þegar orðræðan komst upp á opinbert plan, í siðfári (e. moral panic) þar sem „ægði öllu saman – háði og spotti, hneykslun og fyrirlitningu“.[127] Á þeim tíma sem Guðrún Sveinbjarnardóttir er að alast upp er opinber umræða engin um þessi mál á Íslandi, þótt greinilegt sé af því sem þegar hefur verið rakið að slúður og spott lifði góðu lífi. Eins og komið hefur fram eru allar tilvísanir til ‚karlmennsku‘ Guðrúnar í hálfkveðnum vísum og sögusögnum, ýjað er að því að hún hafi verið ,öðruvísi‘ en aðrar konur, eða hafi verið ,sérstök‘ og vísað í ‚ýmsar sögur‘ án þess að farið sé nánar í þá saumana. Ekki er erfitt að geta sér til um að Guðrúnu og fjölskyldu hennar hafi verið í mun að leyna staðreyndum, hafi þær verið á þann veg sem gasprað var um. Æviágrip Guðrúnar sem rakið er hér að framan gefur ágæta mynd af megindráttunum í lífi hennar; eftir manntölum og húsvitjunarbókum má rekja búsetu hennar frá fæðingu til dánardægurs. Engar áreiðanlegar heimildir sem styðja þá fullyrðingu Málfríður Einarsdóttir að kynferði hennar hafi verið rangt ákvarðað hafa komið í ljós. Það sem vantar sárlega til að fylla upp í myndina er sjónarhorn Guðrúnar sjálfrar.
Lokaorð
Hér að framan var þess getið að á þeim tíma sem Guðrún Sveinbjarnardóttir var uppi var rými fyrir hinsegin veruleika eða hinsegin kynverund lítið sem ekkert á Íslandi. Aftur á móti er ljóst að margar sögur um hinsegin fólk eru til í íslenskum bókmenntum, sögnum og sögum sé miðað við að hugtakið hinsegin nái yfir það sem „fellur utan við viðurkennd gildi og viðmið í kynferðislegum og félagslegum samskiptum“. Þannig telur Helga Kress til að mynda að eitt meginviðfangsefni íslenskra fornbókmennta sé „barátta karlveldisins við sterkar konur“ [128] en sterkum konum, líkt og veikgeðja karlmönnum, er í sögunum oft brigslað um ónáttúru og ergi.[129] Tilvísanir til ergi koma einnig fyrir í móðgunarskyni, eins og þegar Skarphéðinn bregður Flosa um að vera brúður Svínafellsáss, sem geri hann að konu „hverja hina níundu nótt“.[130] Helga Kress hefur einnig skrifað um völvurnar, sem karlmönnum stóð ógn af, sem og um kvenhatrið sem víða má sjá í fornbókmenntum, sérstaklega í persónulýsingum kvenna sem hegðuðu sér ekki eins og til var ætlast og létu ekki kúga sig til hlýðni.[131] Í íslenskum fornaldar- og riddarasögum má merkja að menn hafa ímyndað sér ýmis konar umbreytingar og þar bregður fyrir undarlegum kvenpersónum. Sem dæmi má nefna hina frönsku drottningu Sedentíönu, sem sagt er frá í Sigurðar sögu þögla, sem hefir „með háðung hafnað og með dáruskap í brott rekið“ marga biðla sína.[132] Þá hafði hún „látið gera sér leynilegt herbergi“ og „grasagarð með ilmandi grösum og aldintrjám,“ þar sem hún dvelur með öllum sínum „meyjarskara“ en engir aðrir fá þangað að koma „án hennar vilja“.[133] Til að fá Sedentíönu til að þýðast karlmann þarf ekkert minna en mikinn galdur og segir sagan frá þeim kynjum öllum í smáatriðum. Þá má einnig minna á frásagnir af íslenskum konum á borð við Látra-Björgu, sem þótti „sýna mikla víkingslund í sæferðum“[134] og vakti „á sér athygli fyrir óvenju eldlegar gáfur og stórbrotna skapsmuni“.[135] Gísli Konráðsson segir hana „hafa verið kvenna „ferlegust ásýndum““ og getur þess jafnframt að heldur hafi verið „ókvenlegt atferli hennar í mörgu“.[136] Fleiri slík dæmi mætti tína til, úr íslenskum heimildum jafnt sem erlendum, og lúta þær flestar að því að þær konur sem um er rætt þyki ókvenlegar, karlmannlegar og vargar miklir, en fátt er yfirleitt vitað um konurnar sjálfar og þeirra upplifun af eigin kyni og kynverund.[137]
Eins og sést á þeim tveimur ljósmyndum sem fylgja greininni var Guðrún Sveinbjarnardóttir fremur karlmannleg í útliti. Sú staðreynd að hún fór frá eiginmanni sínum og lifði á eigin vegum allar götur síðan ber vitni um að hún hafi verið ákveðin og sjálfstæð kona. Það kann vel að vera að þetta hafi verið nægur efniviður í slúður og sögusagnir þær sem raktar hafa verið hér að framan. Það getur líka allt eins verið að Guðrún hafi farið frá séra Þórði vegna drykkjuskapar hans og hegðunar (var það kannski hann sem barnaði vinnukonuna?); að hún hafi ekki látið kúga sig og því „hlaupið“ frá eiginmanni sínum og búi. Þær sagnir sem til eru af séra Þórði og Guðrúnu eru allar skrifaðar af körlum sem dást að kröftum hans, afsaka drykkjuskap hans og gefa í skyn að henni hafi verið um að kenna – og koma slúðri á framfæri.
Sveinbjörn faðir Guðrúnar orti eftirfarandi kvæði um slúður og kallaði „Slettireku“:
Ekki er þekkt tilefni kvæðisins en slúður og slettirekuskapur hefur lengi lifað í mannlegu samfélagi og mun gera um ókomna tíð. Fallegasta vitnisburðinn um Guðrún Sveinbjarnardóttur gefur samtímamaður hennar í Stykkishólmi, Oscar Clausen, og hef ég þau að lokaorðum:
Ég var orðinn fulltíða maður þegar maddama Guðrún dó og man hana því vel. Hún var mjög listfeng og músíkölsk eins og öll börn Sveinbjarnar rektors og má þar t.d. nefna Benedikt Gröndal skáld. Hún spilaði á langspil og kenndi stúlkum útsauma, balderingu, skatteringu o.fl. – Maddama Guðrún átti fallegan skautbúning, sem hún hafði saumað sjálf. – Á hvítasunnudag á hverju vori, sem var fermingardagur, skautaði maddama Guðrún og hafði þá framan á sér skrautlega hvíta handlínu yfir höndum sér, þegar hún gekk inn kirkjugólfið og settist í sætið sitt, - alltaf sama sætið í næst innsta bekk að sunnanverðu í kirkjunni. – Mér er minnisstæð sú reisn, sem þá var yfir persónu þessarar öldnu hefðarkonu.[139]