SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir21. ágúst 2023

NÚ STIKAR HÚN ÁFRAM STILLT OG PRÚÐ

Að huga vel að því sem snýr að manni sjálfum en vera ekki að velta sér upp úr því hvað betur færi hjá öðrum er ágætis regla. Þegar ég var að lesa mér til um ljóðskáldið Margréti Guðjónsdóttur frá Kvíslhöfða f. 3. mars 1923 komu þessi vel sögðu orð upp í minningargrein um hana. Margrét var hagmælt og hún var mikill gróðurunnandi, hún orti þessa fallegu hendingu ,,Trjáplönturnar bíða hér í böndum,/biðja um líf í nýrri fósturmold,/sumar fluttar inn frá öðrum löndum,/aðrar sprottnar hér á vorri fold./..." Haft var á orði að Margréti léti betur að hugsa um góðurinn í garðinum en annarra manna vandamál. Hún orti líka ,,Gaman er í góðum veislum/gleðin blómstrar eins og jurt./Ef þú safnar sólargeislum/sorg og kvíði víkja burt.  Hafðu stjórn á hugsun þinni./í hjarta dýpsta gleðin býr./Ef þú safnar sólargeislum/sérhver skuggi burtu flýr."

Í bókinni ,,Og þá rigndi blómum" 1991 sem ég hef vitnað svo oft í, segir frá mörgum ljóðakonum sem unnu heitt sinni heimasveit. Sum ljóðanna lýsa áhyggjum af breyttri tíð ,,Mosinn, sem forðum óx við Álfastein,/er orðinn grugg á botni í Dýjalind./....Halldóra B. Björnsson. Næturkul, ..Hver hefur gengið um garðinn í nótt,/-gengið svo þungum fótum?/....Guðrún Árnadóttir frá Oddstöðum f.1900-1968 meðan önnur lýsa  fegurðunni í landslaginu ,,Þú faðmur blárra fjalla/með fjarða og dala sýn,/þú átt oss daga alla/sem eitt sinn vorum þín./Hve elfur stefnmjúkt streyma/og stararengin dreyma/er sumarsólin skín/...Elín Vigfúsdóttir f. 891-1986. ,,Ég lít með undrun lítið jarðarblóm, með lotning hlusta á fleygra vina óm. Í hljóðri þrá ég himins skoða dýrð, þá hnattafjöld, - sú tign ei verður skýrð/" Margrét Guðmundsdóttr (,,Björk") frá Laugalandi, Stafholtstungum f. 20. júní 1909. Ég hef að gamni skoðað þessi ljóð og langar til að deila þeim með ykkur.

Jóhanna Brandsdóttir frá Hrísum, Flókadal f. 1885-1953 orti

Flókadalsá
                                                                                                             
Nú stikar hún áfram stillt og prúð,
steypir sér yfir litla flúð,
litbrigðin tindra í Lambafoss,
lítilli eyrarrós gefur koss.
Svo hoppar hún niður stall af stalli,
streymir áfram með léttu falli.
 
Þegar vetur að garði gengur
geta ei blómin dafnað lengur.
Er flestar ár liggja und höftum og helsi
þá heimtar hún frelsi,
byltist og streymir svo bergið nötrar.
Þá brestar þeir helköldu fjörtrar.
 
Það ymur og dynur, öll veikist vörn,
hún veltur sem hrapi skriða,
malar ísinn sem kornið kvörn
og kastar til beggja hliða.
Að lítill stundu létt með geð
hún lætur sem ekkert hafi skeð.
 
Vorið er komð svo fagurt og frítt
með fuglana, söng þeirra´ og blómin.
Túnið og engið er aftur sem nýtt
og - áin, hún skiptir um róminn.

 

heimild: Og þá rigndi blómum 1991