ELÍN SKÁLDKONA 1873-1938
Leið mig inn á löndin þín,/leyfðu mér að heyra,/kæra draumadísin mín,/dularljóð í eyra. Svo orti skáldið sem við lítum inn til í dag. Hún Elín Sigurðardóttir fæddist 11. ágúst árið 1873 og því eru 150 ár frá fæðingu hennar. Elín lést árið 1938. Hún fæst víst ekki lengur kvæðabókin sem hún gaf út árið 1936 eða réttum tveimur árum áður en hún lést. Í formála hennar sem Grétar Fells ritar segir hann svo frá. Höfundur þessara kvæða er sjúklingur í hressingarhælinu í Kópavogi, og hefir dvalið þar nærri 9 ár, og verið rúmföst við og við allan tímann. Þá segir að Elín hafi verið vel ættuð og góð grein af góðum stofni. Móðir hennar, Hólmfríður Hinriksdóttir var systir Jóns skálds Hinrikssonar, föður Jóns í Múla, Sigurðar á Arnarvatni og þeirra bræðra. Í föðurætt var hún skyld Hermanni Jónassyni, alþingismanni og rithöfundi frá Þingeyrum. Sjálf sagði Elín frá því að hún væri skyld öllu því, sem fagurt væri og gott.
Ljóðin hennar eru fersk og þau eru vel bundin af hinum ýmsu bragarháttum eins og t.d. sléttuböndum, "Lækkar dagsins bunga breið/ blikar, nætur hækkar/stækkar óðum nepja, neyð/náðarljósum fækkar.." og hringhendum "Sannleik eytt í öfgunum/orðum breytt á fundum/Ég er þreytt á þyrnunum/þeir eru beittir stundum"
Elín var fædd í Hriflu og fluttist þaðan að Hlið á Langanesi. Hún sótti sér nám í handavinnu í Kaupmannahöfn. Elín var fyrsti lærði kennarinn á Langanesi. Heimild.: Mbl 11/5/2012
Elín yrkir mikið til samferðamanna sinna og þá oft undir fornyrðinglagi hér er eitt fallegt kvæði ort til Einars Helgasonar, garðyrkjustjóra.