SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir18. september 2023

ÞAÐ LÆRA BÖRNIN SEM FYRIR ÞEIM ER HAFT

 

Það er umhugsunarefni þegar rætt er við skólayfirvöld um lestrarkunnáttu barna og það kemur í ljós að henni fari hrakandi hér á landi. Ekki er það vegna þess að ekki eru til nægar bækur til að lesa sér til gagns heldur þvert á móti. Það var annað upp á teninginn um þarsíðustu aldamót. Þá fór í gang herferð til þess að bæta lestrarkunnáttu og sett voru á lög um skólaskyldu og margur maðurinn dreif sig í kennaranám. Hólmfríður Jónasdóttir Skagfirðingur og skáldkona var ein af þeim.

Hólmfríður Jónasdóttir fæddist þann 12. september árið 1903 að Grundarkoti í Blönduhlíð í Akrahreppi og ólst upp í foreldrahúsum. Hún stundaði nám við Kvennaskólann á Blönduósi og lauk þaðan prófi eftir tvo vetur. Hólmfríður stundaði barnakennslu í Skarðshreppi og síðan að Veðramótum í Gönguskörðum hjá Sigurði Guðmundssyni bónda þar en þangað komu börn úr sveitinni til uppfræðslu.

Það er sérlega gaman að glugga í ljóðin hennar og greinilegt er að henni hafi verið umhugað að yrkja á fallegu og vönduðu íslensku máli þess bera ljóðin hennar vitni. Auk þess yrkir hún náttúruljóð af hreinni snilld. Hafandi búið og dvalið bæði í Hlíð í Hjaltadal og á bæjum undir hinum töfrandi Tindastóli veit ég með vissu að fegurðin er þar engri lík. Við skulum lesa yfir ljóðið hennar ,,Leggðu á brattann” og átta okkur á því að um leið og hún bindur orðin sín í kveðurnar, þá leggur hún inn orðaforða bæði ríkan og fallegan fyrir nemendur sína. Það er því ekki að efa að Hólmfríður hafi verið ein af þeim kennurum sem með stolti kenndi nemendum sínum að lesa sér til gagns.

 

Hólmfríður hefði orðið 120 ára þann 17. september 2023 hefði hún lifað :-)

 

Tak þú staf og mal þér í mund
maður, og njót í raun þess alls,
sem hefur að bjóða hin græna grund
og grónar lendur þíns heimafjalls.
 
Nú klæðist brekkan í blómaglit
björt og hrein eftir létta skúr
og ljósir geirar með gróðurlit
grópast þétt upp að bergsins múr.
 
Í brekkunnar fang þú leggur leið
og lyngmórinn seinna að baki er
þá birtist víðáttan himinheið,
og hjúfra Skörðin að fótum þér.
 
með Tindatóllinn á hægri hönd
við himin í suðri rís Molduxi efst
og árinnar sindrandi silfurrönd
í sumarsins glitofna flosklæði vefst.
 
En skildir þú verða í vafa um það
hvort viljirðu klífa hinn bratt ,,Stól”
eða lynggrónum hlíðunum halda þig að
og hvíla bein þín í grasi og sól.
 
þá lætur ei ógoldið erfiðið þér
útsýnið fagra af ,,Stólsins” tind
um víðáttur Íslands það augu þín ber
og úthafsins bláma í samstilltri mynd.
 


Hólmfríður giftist Guðmundi Jósafatssyni, verkamanni á Sauðárkróki, árið 1928. Þau hófu búskap í Hlíð í Hjaltadal en fluttu þaðan í Axlarhaga og síðan á Sauðárkrók. Hólmfríður starfaði mikið að verkalýðsmálum. Hún var í stjórn Verkakvennafélagsins Öldunnar á Sauðárkróki og var formaður í allmörg ár. Hún starfaði fyrir Alþýðubandalagið og var í framboði fyrir þann flokk. Hólmfríður var til margra ára formaður Kvenfélagsins á Sauðárkróki. Undir berum himni er eina bók Hólmfríðar en auk þess hafa ljóð eftir hana birst í blöðum og tímaritum. Hólmfríður lést árið 1995. Heimild: Bókin - netbókabúð (bokin.is)