SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 6. janúar 2024

JÓLATEXTAR OG KYNJAHLUTVERK

Þau eru ófá jólalögin sem hafa fengið að óma úr viðtækjunum þessa dagana. Flest kunnugleg sem geyma nostalgískar minningar um jól bernskunnar. Textarnir margir hverjir eru komnir til ára sinna og geyma viðhorf síns tíma, þegar önnur og þriðja vaktin þótti eðlilegt dútl konunnar sem hefði fátt annað betra að gera.

Sem dæmi má nefna viðhorfið sem er að finna í jólatextanum Hátíð í bæ en hann er eftir Ólaf Gauk Þórhallsson (1930-2011). Þar segir svo frá að drengurinn hafi fengið bók en stúlkan nál og tvinna. Þetta kann að virðast ósköp sakleysislegt við fyrstu sýn og að sjálfsögðu er ekkert að því að strákar lesi og stúlkur sitji við hannyrðir. Auðvitað ekki. Hins vegar má ætla að þarna kristallist fyrst og fremst gamalt og úrelt viðhorf til kynjanna; að baki sé sú staðreynd að öldum saman gengu aðeins strákar menntaveginn. Stúlkur áttu engan kost á því enda var hlutverk þeirra einungis að hugsa um hemilið. Þegar menntun stóð loks stúlkum til boða voru það húsmæðraskólar, til að gera þær hæfari til að sinna húsverkunum. Þá voru skriftir aðeins taldar á færi karla og þótti það engin prýði á kvenfólki að yrkja, líkt og kemur t.d. berlega fram í smásögu Jónasar Hallgrímssonar, Grasaferð.

Fleiri jólatexta má nefna sem geyma og varðveita ævagömul hlutverk kynjanna. T.d. Nú skal segja (höfundur óþekktur) en þar vagga litlar telpur brúðum á meðan litlir drengir sparka í bolta, ungar stúlkur hneigja sig og ungir piltar taka ofan og þegar þau eru komin til ára sinna prjóna gamlar konur sokka en gamlir karlar taka í nefið.

Í jólatextanum Aðfangadagskvöld sem er betur þekktur sem Nú er Gunna á nýjum skónum eftir Ragnar Jóhannesson (1913-1976) eru þessi úreltu kynjahlutverk enn rækilega tíunduð. Líkt og alþjóð veit er Gunna í bláum kjól og Siggi á síðbuxum, mamman er í eldhúsinu og færir indæla steik á fat sem hún ber síðan á borð, klædd hvítri og mjúkri svuntu, en pabbinn er að búa sig og fær soninn til að finna fyrir sig flibbahnappinn. Er á líður kvæðið segir frá því hvað gjafirnar hafa að geyma og líkt og fyrri daginn fá stelpurnar brúður og karlinn tóbak en strákarnir skíði og konan brjóstnál. Kvenhlutverkið felur sumsé í sér að vera sæt og mjúk að sinna móðurhlutverkinu en hlutverk karla býður upp á mun meiri skemmtun og vellíðan. Segja má að boðskapurinn sé álíka slæmur og mjólk er fyrir ketti:

Stelpurnar fá stórar brúður, 
strákar skíðin hál, 
konan brjóstnál, karlinn vindla, 
kisa mjólkurskál.

Þau eru fleiri dæmin um úrelt kynjahlutverk í gömlum jólatextum og er æði misjafnt hvernig brugðist hefur verið við, t.d. á leikskólum. Sumir hafa farið þá leið að sneiða hjá þessum textum, aðrir hafa gert á þeim breytingar og enn aðrir kosið að hafa þá óbreytta en leitast við að vekja á þeim athygli og ræða við krakkana. Hvað sem því líður er gott að fólk sé sér meðvitað um hvernig þessir textar kunna að viðhalda úreltum viðhorfum sem hefur verið haft talsvert fyrir að reyna að losna við. Sú barátta stendur enn.