SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir 5. febrúar 2024

BLÓMIN VAXA Í SPORI

Brynhildur Lilja Bjarnadóttir

fæddist 20. febrúar 1934 og var frá Hvoli, Aðaldal í Norður-Þingeyjarsýslu. Brynhildur stundaði hjúkrunar og ljósmóðurstörf víða um land ásamt því að semja ljóð sér til gamans í mörg, mörg ár og árið 1984 kom út falleg ljóðabók sem hún gaf nafnið ,,Hraungróður". Nafnið gefur til kynna náið samband hennar við náttúruna og á bakhlið bókarinnar segir að að hraungróðurinn spretti upp við erfið skilyrði, í hörðu og hrjóstugu umhverfi þar sem lífskilyrðin eru erfið. Heimahagar hennar eru henni ofarlega í huga, náttúra landsins og fólkið sem það byggir. Ljóðið ,,Vornótt í Aðaldal" eru knappar, formfagrar ferskeytlur í þremur erindum og ort við fögnuð vorins, litadýrðinni  og því sem einkennir landslagið og gróandann í náttúrunni á þessum tíma. ..og sólin logaleiftri slær/loftið, fjöllin, hafið/svo úfið hraunið, áin tær/allt er litum vafið.

Í heild er ljóðið svona.:

Oft mér hefur stundir stytt
stefið undurþýða,
þegar leikurlagið sitt
lóuröddin blíða.

 

Ef þú vakir eina nótt
inn í Dal að vori,
þar sem birkið bærist rótt,
blómin vaxa í spori.

 

og sólin logaleiftri slær
loftið, fjöllin, hafið,
svo úfið hruanið, áin tær
allt er litum vafið.

 

þú hefur sótt þér sálaryl
sem að endist lengi,
gegnum vá og vetrarbyl
vermir innstu strengi.
 
Við fögnum því að geta lesið ljóðin hennar Brynhildar. Enn ein skáldkonan komin undan hraungjótunum og við sem hefðum hæglega getum misst af ef við hefðum ekki gramsað smá í gömlum skræðum. Eða eins og Brynhildur sjálf sér fegurðina í náttúrunni sjáum við fegurðina í huga hennar. 
Brynhildur lést árið 2013
 
Bkv. Magnea