SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir11. maí 2024

UMSAGNIR RÁNAR TRYGGVADÓTTUR UM BÆKUR

 

Rán Tryggvadóttir skrifar oft færslur á facebook-síðuna sína um bækur sem hún er að lesa og hún hefur gefið okkur leyfi til að birta þær færslur sem okkur finnast eiga erindi hér á Skáld.is. Hér að neðan má sjá nokkrar færslur frá Rán, það er alltaf gaman að fá ábendingar og álit annarra á því sem viðkomandi er að lesa. Við fáum fleiri færslur frá Rán síðar.

 

 

Hef ekki haft eirð í mér undanfarið til að lesa en nú er ég komin í sumarfrí og hafði tækifæri til að sitja undir sólhlíf í breskri vorsól og lesa, nógu lengi til að renna í gegnum þessa litlu bók The testament of Mary eftir Colm Tóibín, sem tengdamóðir mín gaf mér fyrir nokkrum árum. Bókin sem er um Maríu móður Jesú er vel skrifuð eins og við var að búast eftir svo þekktan höfund og áhugaverð en það var ekki síður áhugavert fyrir mig að lesa hana hér hjá írskri svilkonu mína sem kenndi lengi trúarbragðafræði í kaþólskum stúlknaskóla og hafa tækifæri til að spyrja hana um atburðarrás og persónur til að greina á milli hvað í sögunni var byggt á atburðum sem skrifað er um í biblíunni og hvað ekki. Hún fræddi mig m.a. á því að það sé mjög ólíklegt að María hafi verið klædd bláu eins og hún er yfirleitt látin vera á myndum, t.d. á þessari bókakápu, því á hennar tímum var blár litur mjög sjaldgæfur og alls ekki fyrir almúgafólk eins og hana. Blái liturinn í hennar fötum sé síðara tíma tilbúningur sem er tilkominn vegna málverka frá endurreisnartímanum. En þó bókakápan vísi í bláa litinn þá er ekki á hann minnst í bókinni og sú mynd sem dregin er upp af Maríu er mjög manneskjuleg og lýsir vel nístandi sorg móður sem missir barn sitt á hryllilega hátt.

 

 

Anakrónismi, ljóðabók Brynhildar Maríu Ragnarsdóttur. Ég fékk þessa bók lánaða á bókasafninu því ég hafði hitt höfund hennar á förnum vegi fyrir nokkru og átt við hana stutt spjall og var forvitin að lesa. Þetta er mjög persónuleg ljóð og bókin er tileinkuð þeim sem hafa orðið fyrir ofbeldi í samböndum og endurspegla ljóðin þá reynslu höfundar (væntanlega, ljóðin eru að mestu í fyrstu persónu) og hvernig hún hefur unnið úr henni og náð sátt við sig og fortíðina að einhverju leyti. Og líka um nýtt upphaf. Bókin er fallega myndskreytt af höfundi og mjög smekklega uppsett. Ég hlakka til að sjá meira eftir Brynhildi Maríu.

 

 

 

Mér finnast bækur Elísabetar Jökulsdóttur Aprílsólarkuldi og Saknaðarilmur vera magnaðar. Elísabet hefur einstakan hæfileika til að tjá tilfinningar og hreinskilni hennar, einlægni og sjálfsskoðun snerta djúpt hið sammannlega. Það var því með mikilli tilhlökkun sem ég fór að sjá Saknaðarilm, leikgerð Unnar Aspar Stefánsdóttur úr þessum bókum. Og ég varð ekki fyrir vonbrigðum; þvílík orkusprengja sem þessi sýning er. Unnur Ösp fer á kostum, og ég hló og grét með henni, leikmyndin er frábær og tónlistin sömuleiðis. Mæli eindregið með sýningunni.

 

 

Bókin Hin órólegu eftir Linn Ullmann hefur undirtitilinn „Skáldsaga” en ætti e.t.v. frekar að hafa undirtitilinn „Ljóðræn sjálfsævisaga” en hún er frásögn eða lýsing Linn Ullmann á uppvexti sínum og lífi með sínum heimsfrægu foreldrum, Liv Ullmann og Ingmar Bergman. Þetta er dásamleg bók, ákkúrat sá frásagnarstíll sem ég elska; hugleiðingar, ljóðrænar og myndsterkar lýsingar á andrúmslofti og samskiptum, áhugaverðar og viðeigandi tilvitnanir í tónlist, bókmenntir, auðvitað kvikmyndir og leikhús og heimspeki en fyrst og fremst þroskasaga hennar, lýsing á hversdagslífi þessara tveggja menningarrisa sem foreldrar hennar voru og hvernig gengur að samræma hversdagslíf, barnauppeldi, listsköpun og frægðarferil, en líka um ellina, það að eldast og deyja og að missa foreldri. Og um að vera utanveltu og og einmana. Það var oft sem maður vorkenndi litlu mjóu stelpunni. Þýðing Ingibjargar Eyþórsdóttur rennur ljúflega og hnökralaust og kemur textanum fallega til skila enda var hún tilnefnd til íslensku þýðingarverðlaunananna 2018 þegar bókin kom út á Íslandi.

PS verð að koma því að ég var síðasta vor í veislu í NY þar sem Liv Ullmann var heiðursgestur, ótrúlega glæsileg og góður ræðumaður, og í háum hælum allt kvöldið 83 ára!!!