SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 4. júní 2024

BARNABÓKASAFN Á HRAKHÓLUM

Fyrir nokkrum árum hófu nokkrar áhugasamar konur að safna íslenskum barnabókum með það að markmiði að koma á fót Barnabókasafni sem væri jafnfram rannsóknarsetur um barnabækur. Þær stofnuðu FÉLAG UM BARNABÓKASAFN og settu á fót síðu á facebook sem skoða má hér.

Aðalsprauturnar í þessu félagi eru Sigrún Klara Hannesdóttir, fyrrverandi Landsbókavörður, Helga Halldórsdóttir, María Hjálmtýsdóttir og Edda Gísladóttir.

 

Um félagið segir á facebooksíðunni:

 

Félag um barnabókasafn stefnir á að safna öllum íslenskum barnabókum, frumsömdum og þýddum. Við tökum á móti barnabókum en erum jafnframt að leita að framtíðarhúsnæði undir safnið sem mun nýtast við hverskonar rannsóknir og kynningu á barnabókum og barnamenningu. Aðild að félaginu er opin öllum áhugasömum um að efla veg og vanda barnabókarinnar á Íslandi. barnabokasafn@gmail.com
 
 
Stofnendur félagsins lýsa sjálfum sér á eftirfarandi hátt:
 
 
Við erum fjórar barnabókaelskandi konur, bókasafnsfræðingar, barnabókahöfundur og barnabókasafnarar, sem stofunuðum félagið. Við höfum fengið tvo styrki sem við nýttum annars vegar til að leigja geymslur undir söfnun og skráningu bókanna (sem eru orðnar heill hellingur!) og hins vegar til að vinna að uppfærslu Skáldatals.
 
Undir lok síðustu aldar var unnin yfirlitsbók yfir íslenska barnabókahöfunda sem hlaut nafnið Skáldatal. Nú hefur hún sem sagt verið uppfærð í rafrænu formi fram til dagsins í dag (og styrkurinn þ.a.l. uppurinn).
 
 
 
 
Söfnun bóka hefur gengið mjög vel og félagið leigir gám undir bækurnar sem nú telja yfir 10 þúsund eintök. Á undanförum árum hafa þær verið að leita fyrir sér um húsnæði fyrir safnið og þá er staðan þessi: Þær koma alls staðar að lokuðum dyrum, enginn hefur áhuga, pláss eða fjármagn á lausu. Þær hafa m.a. leitað til ýmissa bæjarfélaga en fá ýmist neikvætt svar eða ekkert svar.
 
 
 
 
 
 
Við á Skáld.is erum mjög hrifnar af þessu framtaki og viljum því hér með kynna það fyrir almenningi í leit að hugmyndum sem gætu nýst til að koma þessu safni á laggirnar. Nóg er umræðan um mikilvægi lesturs fyrir börn og hættuna sem íslenskunni stafar af minnkandi bóklestri og því fyndist okkur lag fyrir fjársterka aðlia að koma að þessu metnaðarfulla verkefni. Þeir sem búa yfir hugmyndum geta sett sig í samband við Sigrúnu Klöru eða einhverja aðra af stofendum félagsins.