SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir30. júní 2024

FÓSTURVÍSUR

Gréta Kristín Ómarsdóttir gaf út ljóðabókina ,,Fósturvísur" árið 2008.

Gréta er betur þekkt innan leikhússins sem leikari, dramatúrgur og leikstjóri og hefur hún hlotið Grímuverðlaun sem sproti ársins ásamt tilnefningu sem leikstjóri ársins árið 2017. 

Ljóðabókin hennar var gefin út í 100 tölusettum eintökum af Populus tremula. Þau eru afbragðsgóð og því ástæða til þess að draga þau hér fram. Fyrsta ljóðið heitir 11. september og fjallar á grátbroslegan hátt um hörmulega atburði. Næsta ljóð heitir Dauði grasrótarans og er líka grátbroslegt. Fyrsta erindið er svo.

Ég er ungur, upprennandi listamaður
í stríði við þyngdaraflið.
Þverrandi eldmóður minn, sköpunargyðja mín
kom þú yfir mig.
Ríkisspeni, leyf mér sjúga þig.
 
ÉG HELD
 
Kæruleysið klófestir allt sem ég vel
að ég held.
              Ég held
              að saman værum við skotheld
 
En varðandi veturinn
vinskapinn og vandræðin sem við erum viðráðin,
verð ég að vona.
              Ég vona
              það verði ekki svona 
              erfiðlega einfalt
              að falla svo margfalt
              fyrir metnaði.
 
Svo hlaut það víst að fara
og ég veit.
              Ég veit
              að samviskan beit
              í langþráða lygina
              og torskilda trúna.
 
SKÁLD
 
Þið sem kallið ykkur skáld,
vefjið eigin skuldir upp í pappír
og reykið.
Pappírinn er þykkur.
Andvarpið, kannski finnið þið
sniðuga byrjun á textavarpinu
,,Skilgreinudu ritstuld."
Það skilur ykkur enginn.
Þið sem kallið ykkur skáld.
 
Valdhafar, orðarforðaforingjar
munnsöfnuðurinn bíður
eftir einskærri snilld
við tómar bókahillur.
 
Þið sem kallið ykkur skáld
á milli lífs og frægðar - dauða
fyrir neðan gluggasyllur.
 
Ekkert nema stafir
allir þessir sverðsoddar.
Allir þessir kaffibollar
sem þið getið ekki borgað.
Þið sem kallið ykkur skáld
og getið ekki borðað
fyrir stuðlum og höfuðstöfum,
getið ekki sofið
fyrir óhljóðum í svefnrofum
sem ríma, ríma, ríma.
Vantar bara tíma tíma tíma.
 
Til að klára,
til að fá innblástur,
til að geta keypt bjórkönnur
og kaffært sorgum
sem þið getið ekki skorðað
í skrift sem enginn skilur.
Það skilur ykkur enginn,
þið sem kallið ykkur skáld.
 
Pappírinn er þykkur
ljóðið er ekki til í ykkur.
Þið sem kallið ykkur skáld.
 
Kveðja Magnea