SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir11. júlí 2024

HVÍTAR MASAÍ-KONUR

Hvíti Masaíinn er sjálfsævisöguleg saga eftir Corinne Hofmann (f. 1960). Bókin heitir á frummálinu Die weiße Massai og kom út í Þýskalandi árið 1998 en í íslenskri þýðingu Arthurs Björgvins Bollasonar árið 2008. Þá hafði sagan þegar selst í 3,5 milljónum eintaka, komið út á 30 tungumálum og auk þess orðið efni í kvikmynd.  

Í bókinni greinir Corinne frá því hvernig hún kastar öllu frá sér þegar hún lítur fallegan mann af Maasai ættbálknum. Hún er á ferðalagi um Kenía með kærasta sínum, árið 1986, en skilur við hann, selur íbúð sína og fyrirtæki og sest að í Maasailandi. Þar reynir hún að laga sig að menningu sem er gjörólík þeirri sem hún á að venjast en margir siðir Maasai fólksins eru afar fornir og löngu horfnir öðrum þjóðfélagshópum.

Corinne fylgdi þessari metsölubók eftir með sögunum Back from Africa (2003), Reunion in Barsolai (2005) og loks Africa, My Passion (2011) en í þeirri síðastnefndu segir Corinne frá því þegar hún snýr aftur til Afríku með dóttur sína til að hitta pabba sinn. 

 

Önnur þýsk kona hefur sest að meðal Maasai fólksins en hér má horfa á myndband af Stephanie Fuchs sem segir frá reynslu sinni auk þess sem hún sendi í fyrra frá sér bókina Esepata. Mein Platz ist bei den Massai. Umfjöllun Stephanie í myndbandinu bendir til þess að hún hafi átt nokkuð gott með að aðlaga sig menningu Maasai ættbálksins en hún hefur búið í Tansaníu með eiginmanni sínum Sokoine í rúm 10 ár.   

Sögur þessara kvenna eru sannarlega forvitnilegar!