SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir10. ágúst 2024

TORFHILDUR HÓLM ÞJÓÐSÖGUR OG SAGNIR

Þjóðsögur og sagnir 

Árið 1962 gaf Almenna Bókafélagið út bók með sögum Torfhildar Hólm. Tilefnið var að á fyrra ári 1961 eignaðist Landsbókasafnið nokkur handrit úr fórum hennar. Handritin höfðu verið í vörslu ráðskonu Torfhildar hennar Kristínar Björnsdóttur. Eftir lát Kristínar færðust handritin í hendur mágkonu Kristínar, Unu Þorsteinsdóttur frá Meiðastöðum, en sú kona mun hafa falið séra Jóni Guðnasyni skjalaverði að afhenda handritin Landsbókasafninu (Þjóðsögur og sagnir 1962, formáli).

Þá kemur það fram að handritin voru ekki mikil fyrirferðar og frekar illa farin en það sem var merkilegt var að ýmislegt var þar um ævi hennar og lífsbaráttu, einkum í bréfum, dagbókum og reikningum sem ekki var vitað áður sem og þjóðsagnasyrpur hennar alls þrjár að tölu.  

Ennfremur segir svo.: Syrpur Torfhildar virðar vera frá fyrstu árum hennar vestanhafs og ritaðar að mestu áður en hún hóf að semja hinar svokölluðu söguleg skáldsögur sínar og að flestar þeirra hafi verið komið á pappír í árslok 1878. Sögurnar skársett hún allar sjálf, sumar eftir minni eins og það sem hún man frá æskustöðvum en fleiri þó eftir nafngreindum samferðarmönnum vestanhafs (sama heimild). Finnur Sigmundsson bjó bókina undir prentun.

Ein syrpan er úr frásögum frú Elínar Guðmundsdóttur

TVINNAFLÆKJAN

Einu sinni voru hjón í sveit sem áttu sér þrjár dætur. Unnu þau tveimur hinum eldri mjög, en hina yngstu höfðu þau útunda. Nú leið og beið unz allar systurnar urðu gjafvaxta. Hjónin báru stáss á uppáhaldsgoðin sín, en sú yngsta var klædd tötrum. Þau höfðu einkum augastað á ungum bóndasyni í næstu sveit handa eldri dætrum sínum, og voru góðar líkur til, að honum litist vel á þær því að hann kom þar ævinlega, þegar hann fór í kaupstað, sem oft vildi til, og tóku eldri systurnar vel við honum, þegar svo bar undir. En sú yngsta sat þá jafnan í einhverju skoti sem oftar. Einu sinni bað hann eldri systurnar að greiða fyrir sig eitt lóð af silkitvinna, sem móðir sín hefði beðið sig að kaupa. Þær tóku því vel en tvinninn var orðinn svo flókinn í vasa hans, að mjög var erfitt að greiða hann. Sú fyrri varð brátt óstillt. Seinast sleit hún þráðinn og bað hann sjálfan að sitja yfir þessu í sinn stað. Hann lét sér fátt um finnast og bað hina. En eftir stutta stund fór allt á sömu leið, og var nú tvinninn verri og flóknari en nokkru sinni áður. Kvað hann þær mundu óþolinmóðar, ef eitthvað bjátaði á fyrir þeim, en þær hlógu að. Fór hann þá með flækjuna til þeirra yngstu sem sat úti í horni. Í vökulok færði hún honum tvinnann uppundinn og vel frágenginn. Sagði bóndasonur þá, að þessi stúlka væri gott konuefni. Bað hann foreldra hennar að gefa sér hana fyrir konu. Þau kváðu slíkt gauð til einskis nýtt og héldu, að hún mætti eiga sig sjálf. Reiddust þau svo af þessu, að þau ráku hana frá sér. Bóndasonur skeytti því engu og átti hana ei að síður. Á giftingardegi þeirra sendi hann foreldrum hennar fataræfla, þá er hún var í, þegar þau ráku hana frá sér. Ungu hjónin unnust hugástum en eldri systurnar tvær giftur aldrei. 

Boðskap þessarra litlu sögu læt ég svo lesendum eftir að túlka. 

Þessi stubbur eru viðbótarupplýsingar um skáldkonuna Torfhildi Hólm inn á https://skald.is/skaldatal/319-torfhildur-thorsteinsdottir-holm einnig má heyra og lesa sér til um sögur Torfhildar inn á Ísmús | Elín Guðmundsdóttir (ismus.is)

Kveðja Magnea