Magnea Þuríður Ingvarsdóttir∙ 7. september 2024
DROTTNINGARKVÆÐI JÓRUNNAR
Kvæðið ,,Beltisþulan,, birtist í 12. árgangi Hlínar. Þannig var að drottningunni Alexandríu var gefið belti til að bera við skautbúninginn sem íslenska þjóðin færði henni. Kvæðið birtist í Morgunblaðinu ásamt öðrum lofkvæðum henni til heiðurs.
Heimild Morgunblaðið 8 júlí 1982 og 13 júlí 1982.
Einnig: Handrit.is Lbs 4710 8vo 20 vélrituð blöð, óinnbundið. Handritið kom frá vesturheimi en þá hafði Jórunn gefið Þorsteini Jósefssyni handritið árið 1939 en þann 14. júní 1994 keypti Guðmundur Sæmunsson forsali það.
Þá má finna ljóðin hennar í bókinni ,,Og þá rigndi blómum‘‘ 1991 sjá bls. 165-168 í þeirri bók er hún sögð fædd á Kirkjubóli Langadalsströnd.
Heimild.: ,,Og þá rigndi blómum" 1991
Drottningarkvæði
Velkomin sért´ á vora strönd,
sem voldugri hefir skoðað lönd.
Sko! Tignarleg er hún móðir mín,
og margt á hún til í fórum sín.
Í Heklu og Kötlu á hún eld,
sem ei mun sýndur þér – eg held –
þó það sé hin mesta sjón að sjá,
er samt þessi stóri galli á,
að fáum við það skin að skoða,
er skelfing á ferð og allt í voða.
Þá bráðnar jökull og brennur land
og breytist ræktuð jörð í sand.
Í fossunum geymir hún aflið allt,
á þá mín drottning, líta skalt.
Því fossinn leikur svásan söng
á silfurhörpu í klettaþröng
um liðna frægð og forna neyð
og framtíðina á sigurleið.
Hann kveður líka um æsku og ást,
um ósk og von, er stundum brást.
Gleði´ er að skoða fagran foss
og fá í staðinn úðakoss,
og sjá á flúð við fætur hans
flissandi öldur stíga dans.
Í dölum geymir hún skart og skraut,
skínandi fríð er hver ein laut.
Þar skógur vex og fuglafjöld
flögrandi syngur morgna og kvöld,
og blómin spretta í brekkum víða,
blágresis-klasar mest þar prýða,
Eyrarrós, blóðrót, fjólan fríð,
með fegurð sinni þær skreyta hlíð.
Svo vex þar reyr, sem ilmar æ,
og allir girnast á hverjum bæ.
Hann það hið mesta ilmgras er
sem íslenzkar konur velja sér.
Niðri´ undir hárri hamrabrún
þar hefur bóndinn ræktað tún.
Á blettinum kringum bæinn hans
blómin gullfögur mynda krans.
Af sóley og fíflum sést þar mest,
svo koma þau, er skreyta bezt:
hrafnklukka og baldursbrá
og brosandi smárar til og frá.
Þar vex svo einnig blómið blá
með blöðin fín og krónu smá.
Það gefur lofuð manni mey
til minnis, það heitir : Gleym mér ei.
Læki og vötn hún líka á,
þar lax og silung veiða má
Þar spegla fjöll sinn feikna búk
með fannaslæðu yfir jökul-hnjúk.
Hóla og blómskrýddar brekkur má
brosandi þar á höfði sjá.
Álftirnar synda og syngja þar
sér og mönnum til ununar.
Svo himnesk er þeirra ljóð og lag
um lífið og heiðan sumardag,
að öldunar hvísla upp við sand:
,,Ó, hvað er fagurt þetta land.
Svo bið ég ættlands blómin mín
brosandi fagna komu þín.
Skrúðanum græna, skógur minn,
skrýðstu nú fljótt í þetta sinn!
Vættir landsins, þið vitið bezt,
að vandi er að fagna tignum gest.
Látið drottningu sjálfa sjá,
að sólklæðum brosi landið á –
Vér þökkum sýndan sóma þann
að sækja heim okkar frónska rann. –
Þér sé auðna, ástúð, lotning
þú Íslands tignarháa drottning!
Beltisþulan
Já, svona lítur Ísland út.
Sýnast þér ekki falleg fjöllin?
Á fjöllunum upp byggja tröllin,
þar eru háir huldusteinar
og hamrar, er byggja dverga-sveinar.
Þeir árshring hverjan eru þar
alltaf að smíða gersemar.
Nú dvergajöfur sjálfur segir,
hann sitji við á hverjum degi
og ætli´ að setja saman band
sem að þér gefi jökulland.
Það kvað nú gert af góðu efni,
þess gæðin helztu er best ég nefni
af æðstu þrá hins fremsta svanna,
af frelsihugsjón beztu manna,
af sakleysi hins blíða barns
af móðurást og móðurtryggð
því mesta hnossi í alheimsbyggð.
Ef stjörnur skinu skært á kvöldin,
þá skreyttu þeir með því beltisskjöldinn.
Þannig var myndað mittisband.
Sem minna skal þig á gamalt land.
Kveðja Magnea