BÓK UM DRÍFU VIÐAR
Nú er í gangi söfnun á Karólína fund til að styrkja útgáfu glæsilegrar bókar um líf og list Drífu Viðar.
Í bókinni verður birt úrval úr myndlist hennar, ágrip úr áður óbirtum bréfum sem eftir hana liggja og stuttar fræðigreinar um myndlist Drífu, skáldverk hennar, listgagnrýni hennar, hugsjónir og baráttumál. Bókin verður þarft framlag til íslenskrar listasögu.
Drífa Viðar Thoroddsen fæddist í Reykjavík 5. mars árið 1920. Foreldrar hennar voru Katrín Viðar og Einars Indriðasonar Viðar. Systir Drífu var Jórunn Viðar píanóleikari og tónskáld.
Drífa lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1938 og kennaraprófi frá Kennaraskólanum ári síðar. Meðfram kennaranáminu lagði hún stund á myndlistarnám hjá Jóni Þorlákssyni og árið 1943 fór hún utan til náms; fyrst til Bandaríkjanna og síðan Parísar en þar var hún í Art Students League samtímis þeim Nínu Tryggvadóttur og Louisu Matthíasdóttur.
Auk þess að vera myndlistarmaður, rithöfundur og gagnrýnandi tók Drífa virkan þátt í stjórnmálaumræðu síns tíma. Verk hennar eru allrar athygli verð og er bókin ætluð sem fyrsta skref að því markmiði að gera ævistarf hennar sýnilegra og aðgengilegt bæði almenningi og fræðimönnum. Þannig megi stuðla að því að hún hljóti réttmætan sess í lista-og bókmenntasögunni.
Það eru afkomendur Drífu og makar þeirra sem hafa tekið af skarið til að sú hugsjón verði að veruleika. Á 100 ára fæðingarafmæli Drífu skipulögðu þau afar vel sótt málþing um ævi hennar og störf, og valin myndverk hennar voru tekin til sýningar. Bókin er afrakstur þess viðburðar. Auk þess að innihalda greinar sem gefa innsýn í fjölbreytt ævistarf Drífu má í henni finna um fimmtíu málverk og teikningar sem margar hafa aldrei komið fyrir augu almennings áður, sem og brot úr bréfum hennar sem lýsa bæði tíðaranda og afstöðu hennar til listarinnar.
Inngang bókarinnar skrifa Kristín Guðrún Jónsdóttir, prófessor í spænsku, og Jón Thoroddsen heimspekikennari, eiginmaður Kristínar og sonur Drífu. Jón féll frá á síðasta ári. Aðalheiður Valgeirsdóttir, listfræðingur, skrifar grein um myndlist Drífu og einnig er endurbirt grein Aðalsteins Ingólfssonar, listfræðings, þar sem myndverk Drífu eru til umfjöllunar. Helga Kress, prófessor emerítus í bókmenntafræði, skrifar vandaða greiningu á skáldverkum Drífu og Auður Aðalsteinsdóttir, doktor í bókmenntafræði, skrifar um list- og bókmenntagagnrýni hennar. Þá hefur Einar Steinn Valgarðsson tekið saman minningarorð um þátttöku Drífu í stjórnmálum. Í bókinni verður einnig að finna skrá yfir birt ritverk Drífu sem sýnir hve virk hún var á mörgum sviðum.
Drífa orti ljóð og sendi frá sér skáldsöguna Fjalldalslilju og smásagnasafnið Daga við vatnið. Drífa skrifaði einnig leikrit og sögur fyrir börn sem hún myndskreytti sjálf en hafa ekki komið út á bók. Smásagnasafn Drífu, Dagar við vatnið (1971) kann að vera ein fyrsta íslenska bókin sem kalla mætti smásagnasveig. Nánar má lesa um skáldskap Drífu í færslunni um hana í Skáldatalinu.
Við fögnum mjög þessu framtaki að gera list Drífu sómasamleg skil og skorum á áhugasama að leggja söfnuninni lið hér. Hægt er að eignast bæði bók og eftirprentun listaverks eftir Drífu í gegnum söfnunina.