SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir20. október 2025

ÁSTRÍÐA HJÁ MÉR AÐ SKRIFA - UM VERK ODDNÝJAR SV BJÖRGVINS

Oddný Sv. Björgvins, rithöfundur og skáld, lést nýlega í Reykjavík, 85 ára að aldri. Harla lítið hefur verið fjallað um skáldverk hennar og feril en nú er hana að finna í skáldatalinu. Árið 1990 komu í senn út fyrsta smásagnasafn hennar, Níu nornaljós, og fyrsta ljóðabók, Þegar prentljósin dansa.

Helgaðar hinni heftu konu

Í fréttatilkynningu í Morgunblaðinu segir um bækurnar: 

„...Níu nornaljós flytur níu smásögur, sem helgaðar eru í formála hinni heftu konu hvar í heiminum sem hún er. En sögusviðið beinist líka að karlmönnum eins og í sögunni Stjörnusjúki ráðherrann.

Helgi Sæmundsson ritar eftirmála að bókinni og segir m.a.: „Þó að Níu nornaljós séu frumverk höfundar er tjáning hennar þroskuð. Frásagnagleði er rík, orðafarið meitlað og mótað af sterku málskyni. Sögusviðið er fjölbreytt, jafnt íslenskt sem alþjóðlegt, mótað af reynslu heima og erlendis. Flestar er sögumar tengdar táknmáli, sem hver lesandi verður að túlka að vild. Í einfaldri frásögn felast oft tvíræð tákn, stundum skopskyn og jafnvel ádeila.“

Í sögunni Tímapendúll og tölvutækni er tekist á við hið tæknivædda, ópersónulega þjóðfélag, í annarri, Stjömusjúki ráðherrann, birtist alþjóðiegt stjórnvald. Í Skuggum rósanna segir frá mennskum örlögum við ræsi stórborgar og í skini rauða kjólsins endurspeglast fyrstu tengsl manns og konu, segir jafnframt í tilkynningunni.

Í ljóðabókinni Þegar prentljósin dansa er víða leita fanga. Í einfaldri sköpun er táknmál í hverju ljóði, mótuð og veðruð af vaxandi lífssýn,  segir í kynningu Helga Sæmundssonar. Í ljóðinu Eyðimerkuraugun er leitað á vit arabískrar eyðimerkur og í Bjarminn yfír Rússlandi rofar í skógarþykkni og fótatak hins nýrisna bjamar bergmálar í skýjaborginni. Og við Taj Mahal í Indlandi er brugðið upp mynd af betlikonu með ungbam, dýrmætri madonnumynd.“

Líður illa ef ég er ekki við skriftir

Í frétt í Pressunni, 8. nóvember 1990 eru bækurnar tvær kynntar og Oddný segir örfá orð: 

„Ég er byrjuð á stóru skáldverki og mér fannst þessar bækur vera farnar að liggja svolítið á mér," segir Oddný Björgvins, nýr höfundur, sem kveður sér hljóðs fyrir jólin með tvær ólíkar bækur, sem Skákprent gefur út. „Níu nornaljós" hefur að geyma níu smásögur. Sögusviðið er fjölbreytt, jafnt íslenskt sem alþjóðlegt. „Þegar prentljósin dansa" er heiti ljóðabókar Oddnýjar, en eins og í smásögunum leitar hún þar víða fanga. Margrét Birgisdóttir grafíklistakona myndskreytir.

„Mér finnst tíminn fljúga svo mikið frá mér. Ég byrjaði seint en það hefur orðið einhverskonar ástríða hjá mér að skrifa. Núna líður mér bókstaflega illa ef ég er ekki við skriftir í hverri viku," segir höfundurinn." 

Birtist í henni tregatónn

Þegar bók Oddnýjar, Og lífsfljótið streymir, kom út á vegum Félags ljóðaunnenda á Austurlandi árið 2009, birtist ritfregn í Bændablaðinu en Oddný var fyrsti framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda. Um bókina skrifar Matthías Eggertsson:

„Bókin skiptist í níu kafla þar sem efnið þróast, í stórum dráttum, frá ytra umhverfi til þess sem innra býr með höfundi. Oddný hefur gert víðreist um dagana og bregður upp mörgum skýrum myndum af umhverfi sínu þar sem hún hefur verið á
ferð eða er kunnug, jafnt innanlands sem utan, og þá ekki síst frá æskuslóðunum á Fáskrúðsfirði. Margar þessar myndir eru
sem óður til náttúrunnar. Ljóð Oddnýjar eru ekki háttbundin en myndmál þeirra er skýrt og aðgengilegt. Þegar líður á bókina birtist í henni tregatónn sem styrkist bókina á enda. Þannig segir í síðasta ljóði hennar: „Þótt ég brosi eða hlæi þá grætur minn innri maður.“ Alkunna er að mikilvægt er að fólk bregðist við andlegri vanlíðan sinni með því að tjá sig. Bókin „Raunir Werthers unga“ eftir Goethe er einna kunnust sagna heimsbókmenntanna um það hvernig höfundurinn nánast barg  lífinu með því að skrifa sig frá sorg sinni. En til þess þarf einnig einurð og kjark. Á undan hverjum kafla bókarinnar er ljósmynd af óspilltri íslenskri náttúru, oftast nærmynd sem Oddný hefur sjálf tekið. Þessar myndir eru mikil bókarprýði. Bókin Og lífsfljótið streymir er höfundi sínum til sóma. Hún minnir á þau lífssannindi sr. Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal, að: „Guð það hentast heimi fann, það hið blíða blanda stríðu, allt er gott sem gjörði hann“. 

Pólskiptin

Oddný þýddi eina bók, Hnykkurinn 1999 eftir M. R. Narendra,  og um hana segir í Bókatíðindum 1993

„Þegar Oddný var nýlega á ferð austur í Indlandi, rakst hún á þessa bók sem heitir á indversku Pralaya 1999. Hafði hún vakið þar geysilega athygli. Höfundurinn er náttúruvísindamaður, en af kunnri andans ætt, sem hefur staðið framarlega í yogafræðum en þannig sameinar hann raunvísindi og andlega visku. Þetta er einskonar náttúruvísindaleg rannsókn á umhverfisvanda jarðarinnar, rætt um eyðingu ósonlags, gróðurhúsaáhrif, eitrun og offjölgunarvandamál sem nú blasa við en þar við bætist svo sú undarlega staðreynd að árið 1999 verður staða allra plánetanna mjög óvenjuleg, þar sem þær skipa sér allar í beina línu og er þá meiri hætta en nokkru sinni á svokölluðum pólskiptum. Það er stóri hnykkurinn 1999 og er rætt ítarlega í bókinni um hugsanleg áhrif hans sem geta orðið geigvænleg.“

Æskuslóðir á Fáskrúðsfirði urðu Oddnýju hugleikið yrkisefni. Henni til heiðurs var reist skilti í miðju bæjarins með einu þekktasta ljóði hennar. Í lokaerindunum segir:  

„Stígur fram höfðingi sveitar

skyggnir sviðið

með huliðsmætti

svo rumska reginöfl.

Fjarðarvætturinn tignarhár

fangar storminn

faðmar fjörðinn

hlífiskjöldurinn sterki, stóri.“

Tengt efni