ÉG GLEYPTI ALLAR SVEFNPILLURNAR OG DRAKK ALLT KONÍAKIÐ OG SVO ER ÉG BARA HÉRNA
Svartur hestur í myrkrinu eftir Nínu Björk Árnadóttur (1941-2000) kom út hjá Máli og menningu árið 1982. Bókin geymir 36 ljóð á 67 blaðsíðum og er skipt upp í tvo hluta. Sá fyrri ber yfirskriftina Með kórónu úr skýi og geymir 15 ljóð og sá seinni nefnist Fugl óttans en þar er 21 ljóð. Báðir hlutar gætu staðið sjálfstæðir og kannski fátt sem tengir þá við fyrstu sýn, nema svartur hestur sem kemur við sögu í báðum hlutum.
Í fyrri hluta eru ljóðin innhverfari og framan af eru dregnar upp myndir af ástfanginni konu, kynveru, elskandi móður og skáldi; vorið hlær og dansar, fuglarnir syngja og gleðin vaknar. Hins vegar tekur þessi stemning snemma breytingum til hins verra, sársauki og ótti fara að gera vart við sig: „Allt verður mér að sársauka hvar sem ég fer.“ (19) Skýringa er trúlega að finna í ljóðinu „Í bláum svo bláum augum“ en þar er berlega lýst drykkjuskap og þynnku fyrir lengra komna:
Í bláum svo bláum augum
Í næstu ljóðum er einnig ort um ótta og vanlíðan og þá birtist svartur hestur í myrkrinu og ber með sér sorg þjóðar sem hefur gleymt að standa vörð um frelsið. Þetta ljóð virðist sverja sig í anda ættjarðarljóða sem geymir brýningu til landans um að verja sjálfstæði þjóðar og eiga illa heima með einlægri rödd ljóðmælandans. (25) Svarti hesturinn á eftir að koma aftur við sögu og verður því nánar vikið að honum síðar. Næsta og síðasta ljóð þessa fyrri hluta bókar er hið áhrifamikla ljóð Fugl óttans breytir sífellt um lögun (27) og myndar það trausta brú yfir í seinni hluta bókar sem ber einmitt titilinn Fugl óttans.
Seinni hluti bókar er margradda og minnir um margt á einræður í leikriti. Þarna taka ýmsar persónur til máls, frásagnir þeirra eru í þriðju persónu og allar eru þær konur utan ein þeirra. Sú persóna sem kemur oftast fyrir, og er fyrsta röddin í þessum hluta bókar, er einfaldlega kölluð „hún“. Trúlega er þar ljóðmælandi kominn enda sjáum við í hug hennar ólíkt því sem farið er með flestar aðrar persónur verksins. Ljóðmælandi heldur sig þó til hlés og frásögnin er í þriðju persónu. „Hún“ er þá orðin eins og hver annar sjúklingur á deildinni og sker sig því síður úr persónugalleríinu. Önnur persóna nafnlaus kallast „manneskjan“ en hinar bera allar nöfn: Heiða, Jóna, Lilla, Anna, Stella, Lolla, Dóra og karlmannsröddin er Dodda.
Ljóðin í þessum seinni hluta bókar eru afar áhrifarík. Sú sem hér hamrar á lyklaborðið las þessi ljóð fyrir margt löngu en enn voru sum þeirra býsna fersk í minni. Hér er hvergi talað undir rós og ætla má að gefið sé nokkuð raunsætt innlit í líðan og orð kvenna sem eiga við geðræn vandamál að stríða, einkum alkóhólisma, þó að sjálfsagt sé eitthvað fært í stílinn. Segja má að ljóðin séu sumpart fjarlæg og köld, líkt og Sveinbjörn I. Baldvinsson (1982) orðar það í ritdómi sínum og var lítt hrifinn. Trúlega er það líka erfiðara mönnum en konum að tengja við þennan harða heim kvenna. Vissulega er þarna margt kaldranalegt en sumt er einnig grátbroslegt sem gerir að verkum að efnið verður ekki allt of þungbært. Það er þó hvergi skafið utan af veruleika kvenna sem búa við hvers kyns ofbeldi, á borð við nauðganir, og þurfa að upplifa það að missa frá sér börnin. Þá má einnig greina ádeilu á feðraveldið sem konurnar búa við:
að fá að hefjast handa
að hringja í valdakallana
Það sem einkum tengir saman ljóð fyrri og seinni hluta bókar er áfengisneysla. Hún er það sem hefur leitt flestar konurnar inn á geðdeild þar sem neyslan heldur síðan áfram í pilluformi svo að sumar þeirra geta vart tjáð sig fyrir vímu og doða. Ljóðmælandi fjallar um eigin neyslu (20), Heiða fjallar um ofdrykkju föður síns (39-42, 49-50), Stella nefnir eigin neyslu (47-48), Solla segir frá drykkju þeirra hjóna og tremma sem leiddi hana á geðdeildina (55-57), Dóra fjallar um drykkju föður síns (63). Þetta er meirihluti kvennana á deildinni sem eiga rödd í bókinni. Hvað hinar konurnar snertir þá kemur ekki fram hvort neysla tengist þeim með einhverjum hætti og getur það því verið á hvorn veginn sem er.
Önnur tenging er svarti hesturinn sem, líkt og áður hefur komið fram, ber með sér sorg þjóðar sem hefur gleymt að standa vörð um frelsið. Helga Kress (1983) hefur bent á að það gæti mikils ósamræmis í myndmáli ljóðanna þar sem svarti hesturinn kemur fyrir. Hún vísar í orð sem Nína Björk lét falla í viðtali við Morgunblaðið en þar segir skáldkonan svarta hestinn tákn fyrir landið hennar. Helga Kress telur þó þann leshátt ekki ganga upp og færir góð rök fyrir því. Í viðtali við Nínu Björk, sem birtist í Þjóðviljanum (1982), er hún m.a. spurð um efni ljóðabókarinnar og hvort ljóðagerðin sé að breytast hjá henni. Hún svarar því til að hún hafi breytt töluvert um lifnaðarhætti og sé minna hrædd við að tjá sig en áður. Þá er hún spurð hvers konar ljóð þetta séu og hún svarar einfaldlega: „Ljóð tjá sig sjálf".
Svarti hesturinn vekur vissulega upp spurningar og það er erfitt að hundsa hann þar sem hann spilar jafn stórt hlutverk í bókinni og raun ber vitni. Hugurinn leitar óhjákvæmilega til Biblíunnar þar sem lömb koma einnig við sögu í nokkrum ljóðanna. Ekki verður þó farið á dýpið í Biblíuvísunum hér en vert er samt að nefna að svarti hesturinn í Opinberunarbók Jóhannesar er talinn merkja mannfelli, af völdum matarskorts, og svartur litur tvinnast víða saman við dauðann. Svartur litur tengist auðvitað víða myrkri, dauða og sorg og er hann t.d. þekktur litur á sorgarklæðnaði. Í tvígang þar sem skáldkonan nefnir svarta hestinn lætur hún fylgja að eitri sé vætt í veg hestsins/ spor hennar. (26,66) Trúlega er langt seilst en skilja mætti þetta eitur sem svo að það sé áfengi sem þar rennur, bæði í slóð hennar og fjölda annarra – það gegnsýri þjóðina. Þá er freistandi að túlka svarta hestinn sem sjúkdóminn alkóhólisma sem vel má lifa með ef honum er haldið niðri, hann sé vel taminn og láti að stjórn - þar býr frelsið. Hins vegar bugar virkur alkóhólismi fólk, það getur ekki látið af drykkjuskapnum og situr ótaminn klárinn og stjórnlausan á leið út í helbera óvissuna þar sem einungis bíður geðveiki eða dauði.
Hvað sem svörtum hesti líður, og mögulegri túlkun á honum, þá eru það helst frásagnir kvennanna á geðdeildinni sem sitja eftir í líkamanum löngu eftir að þær eru lesnar. Þessi bók er orðin 43 ára gömul en á enn jafn mikið erindi til lesenda, því miður og sem betur fer. Titill þessarar umfjöllunar er sóttur í grátbroslegt ljóð þar sem Lolla hefur orðið. Hún segir frá sólarferð sem hún fór í með Gunna og gengur þar á ýmsu. Hún komst ekki í bikiníið og sólkjólinn vegna bjórþembu og Gunni fékk matareitrun og lá bara, ældi og skeit. Þegar honum batnaði gátu þau drukkið jafn stíft og áður og fór svo að Lolla fékk tremma; pöddur og dýr skriðu um hana alla og hótuðu að éta hana hægt og rólega. Lolla gleypti þá allar svefnpillurnar, drakk allt koníakið og svo er hún bara „hérna“, á geðdeildinni. Gunni sér um krakkana og „segir að við skulum/ allavega ekki fara í sólarferð aftur“ (55-57). Þetta gæti allt eins verið lýsing á ferð Íslendinga til Spánar í dag, miðað við ýmsar þær sögur sem þaðan berast. Enn gegnsýrir áfengi þjóðfélagið og nánast hvergi er hægt að vera innan um fólk án þess að áfengi sé haft um hönd: „Eitri er vætt/ í veginn“.
Grein þessi er hluti verkefnis sem Hagþenkir styrkir.