SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir27. desember 2025

HUGLEIÐINGAR UM METSÖLULISTA

 

Fyrir jól birtast gjarnan metsölulistar hér og hvar sem gaman er að renna yfir til að sjá hvaða bækur eru vinsælastar hverju sinni. Það er sjálfsagt ánægjuefni fyrir höfund að sjá bók sína á slíkum lista því það er til marks um ánægju lesenda og ávísun á góða sölu. Metsölulistarnir birtast jafnan á neti, þar sem þeir fara oft í góða dreifingu, og enn fremur er bókunum stillt upp í vel merktar hillur, og raðað eftir vinsældasætum, sem blasa við viðskiptavinum þegar komið er inn í verslunina. 

 

Áhrif metsölulista

Vafalaust hafa þessir listar mikil áhrif á bókaval fólks sem er í leit að jólagjöfum og er að vandræðast með hvað skuli velja í pakkana. Þessir listar geta því verið afskaplega þægilegir en um leið geta þeir einnig stýrt vali fólks frá öðrum bókum sem eru ekkert endilega síðri lesning. Það er því áhugavert að velta fyrir sér hvernig bækurnar rötuðu í upphafi á þessa metsölulista. Vissulega eru þarna oft vel þekktir höfundar sem fólk þekkir af góðu og telur sig þá geta treyst að þar fari góð verk. Þá hafa bókadómar, auglýsingar, umfjallanir og viðtöl mikil áhrif, bæði til góðs og ills. Dæmi eru um að bók hafi vart hreyfst í bókabúðum eftir afleitan dóm í Kiljunni. Það mætti því ætla að það megi reiða sig nokkuð á metsölulistana, þar sé nokkuð öruggt" lesefni sem muni ekki valda lesendum vonbrigðum í jólafríinu. Á móti kemur þá treystir listinn sjálfan sig í sessi því þegar bók er einu sinni komin þangað þá sér trúlega aukning á sölu hennar í kjölfarið um að hún haldist þar. Því gæti það mögulega gerst að ef bók rataði á lista fyrir mistök yrði hún engu að síður metsölubók. (Ég gerði tilraun hér um árið til þess að lauma ljóðabók eftir sjálfa mig í metsölurekkann í einni bókabúðinni en það bar engan árangur enda ekki mjög sannfærandi gjörningur). 

 

Fáir titlar eftir konur 

Á bóksölulista Félags íslenskra bókaútgefenda eru tíundaðir 10 bókatitlar á topplistanum. Einungis þrír eru eftir konur og þar af er ein þeirra skrifuð í félagi við karlmann en þetta eru Yrsa Sigurðardóttir, Eva Björg Ægisdóttor og Katrín Jakobsdóttir sem er meðhöfundur. Allt eru þetta glæpasögur og eru þær samtals fimm eða helmingur söluhæstu bókanna. Á metsölulista Eymundssonar eru fimm titlar eftir konur, Fríðu Ísberg, Sigríði Hjaltalín Björnsdóttur, Yrsu Sigurðardóttur, Evu Björgu Ægisdóttur og Katrínu Jakobsdóttur. Þrjár eru glæpasögur og tvær eru skáldverk af öðrum toga eftir Fríðu Ísberg og Sigríði Hagalín Björnsdóttur. Metsölulisti Forlagsins telur 20 verk en í efstu 10 sætunum eru einungis fjögur verk eftir konur. Þó ber nokkuð nýrra við því það eru engar glæpasögur í þessum efstu sætum. Fríða Ísberg vermir efsta sætið og þarna má einnig finna Sigríði Hagalín Björnsdóttur, Nínu Ólafsdóttur og Sif Sigmarsdóttur. 

 

Hvað ræður vinsældunum?

Á listunum eru mörg kunnugleg nöfn frá fyrri árum. Glæpasögur eru nú sem fyrr áberandi á svona listum, enda vinsæl afþreying. Það er þó sérstakt að þegar verk Arnaldar virðist líða fyrir frekar slappan dóm í Kiljunni, og því lenda heldur neðarlega á lista, þá helst verk Katrínar Jakobsdóttur og Ragnars Jónassonar inni þótt bók þeirra fái býsna vonda útreið, en gagnrýnendum fannst bókin vera rislítil", „ansi þunnur þrettándi" og ekki mjög trúverðug. Kannski vega nöfn höfunda þyngra hér en bókadómar?

Metsölulisti Forlagsins sker sig nokkuð úr og þar má m.a.s. finna glænýjan höfund, Nínu Ólafsdóttur. Það er afar ánægjulegt. Það er gaman að velta fyrir sér hvernig standi á þessum mun milli metsölulist. Ætli sá markhópur sem rekur nefið inn í bókabúð Forlagsins sé einhvern veginn öðruvísi samansettur en sá sem kemur við í Eymundsson? Þarna er einnig verk Sifjar Sigmarsdóttur sem ekki er á öðrum listum og Huldukonan eftir Fríðu Ísberg hefur greinilega selst best á Fiskislóðinni. Bókin fékk einnig glimrandi dóm frá öðrum gagnrýnanda Kiljunnar. Ætla má að sú umsögn hafi haft sitt að segja.

Eitthvað kunna svo metsölulistarnir að breytast að lokinni hátíð enda hefur það jafnan verið svo að talsvert sé um að bókum sé skilað og þá einkum þeim sem seldust mest, líkt og lesa má um í þessari gömlu frétt. Það væri gaman að sjá upplýsingar þar um á nýju ári.