SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn23. nóvember 2018

SKYGGNST UNDIR YFIRBORÐIÐ- Þingvellir: í og úr sjónmáli

Skyggnst undir yfirborðið - Þingvellir: í og úr sjónmáli

 

Harpa Rún Kristjánsdóttir bókmenntafræðingur tók höndum saman við þau Pálma Bjarnason og Sigrúnu Kristjánsdóttir við gerð bókarinnar Þingvellir, í og úr sjónmáli. Í þessari bók skyggnast ljósmyndararnir Sigrún og Pálmi undir yfirborð staðarins og leitast við að fanga augnablik sem ekki liggja endilega í augum uppi. Myndirnar styður ljóðrænn prósi Hörpu Rúnar sem sýnir það sem ekki sést. Bókin er á tveimur tungumálum, á sömu opnu er texti bæði á íslensku og ensku.

 

Forseti ritar inngang

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson ritar inngangsorð bókarinnar en þar segir hann meðal annars:

 

,,Ég fagna þessari bók um Þingvelli, gefinni út á aldarafmæli fullveldis. Margt hefur breyst á Þingvöllum þau 100 ár sem liðin eru frá því að hinir íslensku og dönsku mektarmenn í sambandslaganefndinni virtu fegurð staðarins fyrir sér og fræddust um 1000 ára sögu hans. Margt hefur líka breyst í íslensku samfélagi. Vonandi auðnast okkur enn að ganga til góðs, götuna fram eftir veg." (7)

 

Þingvellir

 

Samspil náttúru og menningar

Höfundar rekja sögu staðarins í máli og myndum, frá fyrsta skógræktarlundi landsins sem settur var niður 1899 til nýlegrar uppbyggingar á svæðinu. Ljósmyndirnar ná að fanga samspil náttúru og menningar, þar sem þekkt söguleg sjónarhorn standa andspænis stórbrotinni náttúru og fínlegri flóru svæðisins. Myndirnar eru frá öllum árstímum og sýna bæði þekkta staði og leyndar perlur. Andrúmsloftið er tímalaust, náttúran fær að njóta sín og friðsæll undirtónn er í myndmálin. Ljósmyndirnar standa sem sjálfstætt listaverk en með samspili mynda og texta verður til dýpri saga þingstaðar þjóðarinnar sem gefur lesanda aukna innsýn í þessa þjóðargersemi.

 

Opinber saga og munnleg geymd

Í textanum leitar Harpa Rún í þjóðsagnaarfinn og færir lesendum fjölmargar sögur sem tengjast staðháttum. Hún nær að upplýsa og skemmta lesanda og tengir þannig myndirnar og þá ljóðrænu sem þar er að finna við opinbera sögu og munnlega geymd. Harpa Rún vefur saman fræðandi nálgun og eigin túlkun við mismunandi myndir. Sérstaklega sterk mynd birtist lesanda á opnu um Drekkingarhyl þar sem römm lýsing Hörpu á aftöku fylgir kyrrlátri mynd af hylnum.

 

Reipið strengist uns það slaknar á því með snöggum hnykk.

Hjartað í böðlinum kippist við um leið og líkami konunnar skellur á vatnsborðinu.

Hann verður að halda fast í reipið, svo straumurinn beri hana ekki burt með sér. Bíða, uns kippirnir hætta. Kliður áhorfendanna hljóðnar. Það þótti ekkert tiltökumál að drekka vatnið neðan hylsins eftir aftöku. (78)

 

Ný sýn á þekkt viðfangsefni

Bókin býður lesendum í ferð um svæði sem margir telja sig þekkja en hér opnast ný sýn með ferskri nálgun við viðfangsefnið. Bókin er 224 blaðsíður og vönduð að allri gerð og er verði stillt í hóf en hún fæst hjá útgefanda á 4.990.-

 

Harpa Rún Kristjánsdóttir, Pálmi Bjarnason og Sigrún Kristjánsdóttir

Útgefandi: Sæmundur

 

Júlía Margrét Sveinsdóttir

 

 

Tengt efni