SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir16. desember 2018

LÍFSLOFT BÓKMENNTANNA

Eftirfarandi erindi var haldið á Hugvísindaþingi Háskóla Íslands 6. mars 2010, í málstofu sem bar yfirskriftina HRUNIÐ. Það er birt hér örlítið stytt til að hvetja til umræðu um bókmenntir og gagnrýni. Margt hefur breyst á þeim 8 árum sem liðið hafa síðan erindið var flutt og meiri ástæða til bjartsýni núna en þá. Ungir höfundar eru að koma sterkt inn í íslenskt bókmenntalíf með bókmenntir af öllu tagi, þeir hafa endurnýjað form sem búið var að dæma til dauða og skapað ný. Ritdómar - sem virtust vera í dauðateygjunum - hafa lifnað - í breyttu formi - á netmiðlum. Birting þessa erindis er innlegg í umræðu um stöðu bókmennta á Íslandi í dag en ég bið lesendur að hafa í huga að margt hefur breyst síðan erindið var flutt.

 

Menningarhrunið: Eru fagurbókmenntir að líða undir lok á Íslandi?

Undanfarin misseri hefur sótt að mér í sívaxandi mæli óþægilegur grunur sem smám saman hefur þróast í vissu og mætti kannski orða þannig: Íslendingar geta ekki lengur kallað sig bókmenntaþjóð, þeir hafa í raun lítinn áhuga á bókmenntum sem slíkum þótt margir hafi áhuga á að lesa bækur sér til afþreyingar. Tuttugasta öldin var sannkallað blómaskeið íslenskra bókmennta en ef fram heldur sem horfir mun sú tuttugusta og fyrsta hugsanlega marka endalok íslenskra fagurbókmennta. Ef einhver heldur að hér sé talað í hálfkæringi er það mikill misskilningur. Þótt ennþá komi út mikill fjöldi bóka á Íslandi og bókaiðnaðurinn sem slíkur gangi ágætlega og sé jafnvel blómlegur, þá má merkja síminnkandi áhuga – og jafnvel andúð – á bókmenntum sem afurðum listrænnar sköpunar sem hafi einhverju hlutverki að gegna fyrir sjálfsmynd, sjálfsskilning og verðmætamat íslensks samfélags. Til að vera í takt við umræðuhefð tímans hef ég því notað orðið „menningarhrun“ í þessu sambandi en ég ítreka að umræðuefni mitt einskorðast við bókmenntir enda er það á því sviði menningarinnar sem ég hef starfað í aldarfjórðung. Þetta hrun sem ég þykist merkja er þó ekki hægt að rekja til haustsins 2008 eins og íslenska efnahagshrunið, heldur nær það lengra aftur aftur í tímann og kannski erfitt að setja fingur á hvenær kúrfa sú sem hér er reynt að mæla hafi breytt um stefnu.

 

Vantar áhuga?

Ekki svo að skilja að á Íslandi séu ekki skrifaðar merkilegar bókmenntir, við eigum ennþá fullt af góðum rithöfundum sem skrifa af þörf og senda frá sér athyglisverð bókmenntaverk. En viðtakendur eru fáir, áhugi einskorðaður við lokaða hópa og umræða af skornum skammti. Opinber umræða um bókmenntir er svo til engin og – ef undan er skilin umræða í fáeinum þáttum ríkisútvarpsins – þá einkennist umræða um nýsköpun í bókmenntum af íhaldssemi og ekki síst andúð á því sem sker sig að einhverju leyti frá meginstraumnum og höfundum sem leyfa sér að gera tilraunir með form og tungumál er bent á að „reyna að finna sér söguþráð“ og hætta að vera með stæla. Í raun er krafa dagsins að allir skrifi auðskiljanlegar skáldsögur – markaðurinn hefur hvorki áhuga á ljóðum né smásögum, hvað þá að hlúð sé að íslenskri leikritun.

 

Hlutverk millilliða

Hvað þarf til að fagurbókmenntir þrífist í einhverju tilteknu samfélagi? Það er í grundvallaratriðum þrennt. Í fyrsta lagi nægan fjölda af skapandi einstaklingum sem finna sig knúna til listrænnar úrvinnslu og merkingarsköpunar úr efniviðnum lif, tíma, umhverfi, tungumáli. Í öðru lagi viðtakendur, lesendur sem eru tilbúnir að taka við með opnum huga og jafnvel að láta ögra sér og færa sér nýja sýn á veruleikann. Og í þriðja lagi þarf virka milliliði þarna á milli, því bókmenntir þrífast illa ef ekki er sífellt í gangi virk kynning, mat og umræða á því sem skrifað er. Ef þessi milliliður bregst – hin svokallaða bókmenntaumræða – er bókmenntunum sjálfum hætta búin.

 

Lífsloft bókmennta og lista

Það er mitt mat að á undanförnum árum hafi verið vegið að vitrænni umræðu um bókmenntir á Íslandi að því marki að mikill skaði sé að og um leið og umræðan þynnist horfum við upp á bókmenntagreinar vera í dauðateygjunum vegna skorts á því sem Ólafur Jónsson gagnrýnandi kallar „lífsloft“ í grein sem hann skrifaði árið 1964 í Félagsbréf AB:

 

Áhugi, eftirtekt, umræða er öllu bókmennta- og listastarfi lífsloft. Það er hlutverk gagnrýnandans, öðrum fremur, að stuðla að þessari umræðu, skylda hans að hún hafi sem mennilegastan svip. Allt starf hans er unnið í þeirri trú að grundvöllur sé fyrir slíkri umræðu og hún ómaksins verð, að skáldskaupur og listir séu manninum verðmæti og í einhverri mynd óaðskiljanleg lífi hans. Þeirri trú er engin þörf á röklegum niðurstöðum um gagnsmuni skáldskapar og lista; þótt slik kenningasmíð sé freistandi verður hún jafnan ósönnuð og hættir til að snúast upp í kreddu. Það má allt eins spyrja berum orðum hvort lífið sjálf sé „gagnlegt.“

 

Þegar ég tala um bókmenntagreinar í dauðateygjunum er ég meðal annars að hugsa um stöðu smásögunnar í íslenskum bókmenntum en nýlega hefur Magnús Sigurðsson bókmenntafræðingur og skáld vakið athygli á því að smásagnagerð virðist hætta búin á Íslandi vegna áhugaleysis markaðsins. Talað var við Magnús í þættinum Seiður og hélog á rás 1 og þar var einnig talað við fulltrúa útgefenda sem vísaði ábyrgðinni yfir á bókmenntaumræðuna; að engin umræða væri um smásagnagerð á Íslandi og þar af leiðindi hefðu útgefendur ekki áhuga á að gefa út smásögur. Hér má að sjálfsögðu velta fyrir sér hvort kemur á undan eggið eða hænan; áhugaleysi útgefenda eða takmörkuð umræða bókmenntamanna.

 

Óheillaþróun?

Aftur að umræðunni. Ég hef starfað meira og minna nokkuð óslitið sem bókmenntagagnrýnandi í 25 ár og út frá sjónarmiði þess sem vill veg bókmenntaumræðu sem mestan, virðist mér sem mikil óheillaþróun hafi átt sér stað hvað ritdóma snertir, ekki síst á allra síðustu árum. Þegar ég hóf að skrifa gagnrýni fyrir Morgunblaðið var gagnrýnendum nokkuð í sjálfsvald sett hversu mikið rúm þeir ætluðu umfjöllun sinni. Þótt gagnrýnendum séu að sjálfsögðu mislagðar hendur, eins og gengur og gerist, held ég að flestir hafi unnið út frá formúlunni: kynning, greining, mat – þegar þeir ritdæmdu bækur og dómar voru oft ítarlegir.

Þróunin undanfarin ár hefur verið sú að um leið og mikil samþjöppun hefur orðið á fjölmiðlamarkaði þá hefur mikill niðurskurður verið á þessu tiltekna sviði. Æ færri dómar birtast um æ færri bækur í æ styttra formi. Í dag telst rithöfundur heppinn ef hann fær einn til tvo dóma um verk sitt og það er sjaldgæft að sjá vitrænar greiningar á bókmenntum í dag, dómar einskorðast virðist mér orðið við lýsingu og mat; jafnvel í frímerkjaformi með stjörnugjöf. Á Morgunblaðinu varð sú þróun á undnaförnum árum að ritdómarar fengu færri og færri bækur til umfjöllunar, þeim var gert að stytta umfjöllun sína og lagt var að ritdómurum að nota stjörnugjöf. Að lokum var niðurskurðarverkið kórónað með því að leggja niður Lesbókina sem hafði verið öflugasti prentmiðillinn á sviði bókmenntaumræðu um langt árabil. Þessa þróun þekkja allir.

 

Heimsósómatal?

Kannski þykir einhverjum þetta gamaldags heimsósómatal – prentmiðlar séu úreltir og aðrir miðlar teknir við. Lítum þá til annarra miðla. Af öllum þeim fjölda útvarpsstöðva sem við búum við í dag er það aðeins rás 1 á Ríkisútvarpinu sem sinnir menningarumfjöllun svo einhver sómi sé af. Og það skal fúslega tekið fram að þar á bæ er mikill metnaður á ferð og í þáttum á borði við Víðsjá, Seiður og hélog er fjallað á vandaðan hátt um bókmenntir – þótt vitanlega sé þar ekki fjallað um nema brot af því sem kemur út á hverju ári. Á Íslandi eru þrjár sjónvarpsstöðvar en aðeins ein af þeim heldur út þætti þar sem fjallað er um bókmenntir í eina klukkustund á viku. Það form sem er á umræðu um nýjar bókmenntir í Kiljunni er þó vægast sagt umdeilt, á nokkrum mínútum í upphafi hvers þáttar eru nýjar bækur afgreiddar með flýti og lýsingarorðum, jafnvel flissi og stunum þegar dómaraparinu þóknast ekki varan.

Einhverjir myndi líklega vilja benda á að þótt prentmiðlar séu deyjandi og ljósvakamiðlar sinni bókmenntum lítið sem ekkert (að rás 1 undanskilinni) fari líka fram bókmenntaumræða á netinu. Bókmenntavefur Borgarbókasafnsins stendur sig best hvað þetta snertir en á flestum öðrum vefmiðlum er bókmenntaumræða og ritrýni í miklu skötulíki, enda yfirleitt um handahófskennda ólaunaða vinnu að ræða, þ.e.a.s. í tilviki bókmenntagagnrýni á netinu.

 

Gömul umræða og ný

Þessi umræða sem ég er að reyna að vekja hér er að sjálfsögðu ekki ný af nálinni enda tel ég að hningun umræðunnar hafi verið nokkuð stöðug undnafarin áratug en hún er að mínu mati mjög vaxandi og farin að hafa mikil áhrif á viðtökur hins almenna lesanda á nýjum bókmenntum. Ég ætla að enda á að vitna í orð Einars Más Guðmundssonar sem lét eftirfarandi orð falla á málþingi um gagnrýni sem haldið var í apríl 1998:

Ég get sagt ykkur það að það þarf örugglega að leita í önnur sólkerfi til að leita að vitrænni umræðu um list. Og svo má ekki gleyma því að menning er ekki bara listahátíð því hún er allt sem við gefum hvert öðru hversu merkilegt og ómerkilegt sem það í fljótu bragði kann að virðast. Ég segi þetta vegna þess að ég óttast um varðveislu andans og virðinguna fyrir skaplyndi manna í okkar fréttasjúka og tæknivædda heimi þarsem alltaf er verið að tala um hagvöxt og bankamál. Því skáldskapurinn er sendiherra vonarinnar á jörðunni. Hann er forvarnadeild guðs. Fólk veslast upp vegna skorts á ljóðlist. Þó skáldskapurinn afstýri ekki bílslysum þá gerir hann okkur betur búin til þess að takast á við almenna slysahættu mannkynsins. Þetta verður að hafa hugfast á hverjum degi og á degi sem þessum er vert að taka það til alvarlegrar íhugunar.