SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ásta Björk Sveinbjörnsdóttir

Ásta Björk Sveinbjörnsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1952.

Árið 1972 lauk hún prófi frá Kennaraskóla Íslands og hóf starfsferilinn sem kennari í Austurbæjarskóla sama ár. Hún lauk BA-prófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1999 og M.Paed-prófi frá sama skóla 2003. Ásta Björk kenndi við Fellaskóla í Reykjavík í 24 ár og við Fjölbrautaskólann við Ármúla í 16 ár, þar sem hún kenndi bæði við dagskólann og í fjarnámi ásamt því að vera kennslustjóri nýbúadeildar.

Ásta Björk lauk meistaranámi í ritlist við Háskóla Íslands í febrúar 2020. Ljóðabók hennar sonur kom úr í september 2013 en þar yrkir hún um missi sonar síns. Einnig hafa birst eftir hana smásögur og ljóð í bókinni Í hverju ertu. Hluti af örsagnasafninu (óútgefið) Brotabrot úr lífi kommakraka birtist í Tímariti máls og menningar (2, 2020). Ljóðabókin Ísblá birta kom út 2020 en þar yrkir Ásta Björk um veturinn, vorið, dauðann, sorgina, draumsýnir og síðast en ekki síst til þín, hver sem þú ert.

 


Ritaskrá

  • 2022  Ég sauma ljóð úr laufblöðum. Óður til garðsins míns
  • 2021  Besta gjöfin (frásögn af strandi varðskipsins Þórs 1929)
  • 2020  Ísblá birta
  • 2013  Sonur