Hersilía Sveinsdóttir
Hersilía Sveinsdóttir frá Mælifellsá í Skagafirði var fædd aldamótaárið 1900, þann 30. nóvember, og lést 2. mars 1983. Hún var yngst 15 systkina.
Um tvítugsaldur fór Hersilía í kvennaskóla á Blönduósi og útskrifaðist þaðan 1921. Eftir það stundaði hún barnakennslu í Lýtingsstaðahreppi um skeið. Um 1930 eignaðist hún jörðina Ytri-Mælifellsá og rak þar búskap í nokkur ár. Síðan fór hún í Kennaraskóla Íslands og lauk burtfararprófi þaðan 1936 og stundaði eftir það forfallakennslu í Reykjavík til ársins 1941 er hún var settur kennari í Ásahreppi í Holtum. Árið 1942 varð hún skólastjóri í heimasveit sinni, Lýtingsstaðahrepp í Skagafirði, og barðist fyrir byggingu Steinsstaðaskóla. Var hún skólastjóri þar til ársins 1965 og virk í félagsstörfum.
Hún sendi frá sér þrjár bækur um æfina og skrifaði auk þess smásögur í tímaritið Heimili og skóli. Í gagnrýni um smásagnasafn hennar, Vafasöm er veröldin (1972) bendir ritdómari henni góðfúslega á að „krassandi betrunarsögur, óþekkum krökkum til eftirdæmis“ eigi ekki upp á pallborðið. „Hersilía segir nefnilega vel frá, en veitist ekki að sama skapi auðvelt að takmarka efni sín i samræmi við listrænar kröfur.“ Og áfram er haldið „Hersilíu þarf ekki að skjalla. Sögur hennar eiga skilið að vera lesnar og gagnrýndar í alvöru. Alvaran í þeim veldur því að þær hripa ekki strax niður úr hugskotinu. heldur taka sér þar bólfestu, þróast og vaxa. Kannski er of mikið sagt, að þetta sé svipmikið sem skáldskapur. Ætli sé ekki nær að segja, að þetta sé eins og góð kynni i daglegu lífi, þar sem allt er sagt og gert óæft, en getur þó engu að síður orðið minnisstætt og gagnlegt í bráð og lengd?“
Hér má lesa eina af smásögum Hersilíu sem birtist í barnablaðinu Vorinu 1946, Draumur Haraldar, þar sem sjá má skýr áhrif af guðsótta og innprentun góðra siða.
Heimildir
Ritaskrá
- 1972 Varasöm er veröldin
- 1967 Haukur og Dóra hjá ömmu og afa
- 1962 Dagný og Doddi, barnasaga