SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Hjördís Kvaran Einarsdóttir

Hjördís Kvaran Einarsdóttir er fædd á Ísafirði 21. desember 1970.

Hjördís flutti til Reykjavíkur ársgömul og seinna í Mosfellssveit þar sem hún bjó öll sín bernskuár, ásamt því að dvelja mikið í Vesturbænum í Reykjavík. Hjördís er ættuð víða að en telur sig vera Reykvíking þar sem hún getur rakið ættir sínar og uppruna þar langt aftur.

Hjördís lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1992. Hún hóf nám í þjóðfræði við Háskóla Íslands 1995 en lauk ekki því námi en fór seinna í íslensku við sama skóla og lauk B.A. gráðu í íslenskum fræðum, með miðaldafræði sem aukafag, árið 2009. Þá lauk Hjördís diplómanámi til kennsluréttinda árið 2011 og M.Ed. gráðu í uppeldis- og menntunarfræðum, með áherslu á sérkennslu frá sama skóla árið 2017.

Sem stendur stundar Hjördís nám á meistarastigi í miðaldafræðum við Háskóla Íslands.

Hjördís er starfandi grunnskólakennari.

Hjördís hefur í gegnum tíðina sent frá sér ljóð sín ýmist í litlum heftum eða birt þau á netinu. Það er fyrst með Urð sem hún gefur ljóðin út opinberlega og er það hennar fyrsta útgefna bók.

Hjördís er gift Guðmundi Stefáni Valdimarssyni, bátsmanni á v/s Tý, og eiga þau þrjár dætur.


Ritaskrá

  • 2020   Urð
  • 2007   Heima - þar sem ég er alin upp (örmyndir)
  • 2006   Ljóð sem ég fann og gaf vinum mínum (ljóðahefti)
  • 2004   Vídd (ljóðahefti)
  • 2003   Návígi (ljóðahefti)
  • 2002   Svört orð (ljóðahefti)