SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Védís Leifsdóttir

Védís Leifsdóttir fæddist 2. júlí árið 1965. Hún ólst upp hjá móður sinni Guðrúnu Svövu Svavarsdóttur myndlistarkonu og fósturföður sínum Þorsteini frá Hamri ljóðskáldi. Í heimili var einnig hálfbróðir hennar Egill en þau voru sammæðra.

Móðir Védísar gaf út eina ljóðabók, Þegar þú ert ekki, árið 1982 sem hverfist um sambandsslit þeirra Þorsteins eftir sextán ára sambúð og einnig orti kynfaðir Védísar, Leifur Jóelsson, ljóð og gaf út nokkrar bækur. Ljóðið var því allt um kring og byrjaði Védís ung að yrkja. Innan við tvítugt fær hún birt eftir sig ljóð, og texta, í Tímariti Máls og menningar,  sem bar yfirskriftina Ég + unglingaheimilið árið 1982 og í tímariti sem gefið var út í tengslum við listahátíðina Gullströndin andar ári síðar ásamt því að taka þátt í ljóðaupplestrum. Védís gaf sjálf út ljóðahefti með völdum ljóðum; ártal vantar en ljóðin voru ort á árunum 1982-1990. Þá birtust ljóð eftir hana í Perlum: úr ljóðum íslenskra kvenna sem Silja Aðalsteinsdóttir tók saman og kom út 1998.

Árið 1983 hélt Védís utan, fyrst til Noregs og Danmerkur, þaðan suður um Evrópu og settist hún að á Spáni. Þar bjó hún og starfaði sem dansari allt til árisins 1991 en þá greindist hún með alnæmi og flutti aftur heim til Íslands. Í desember 1992 varð til sú hugmynd að taka saman úrval ljóða hennar og gefa út til styrktar fólki með alnæmi og kom Tímaspor út árið 1993.

Védís lést á heimili sínu í Reykjavík 29. janúar 1993, aðeins 27 ára gömul. Úrval ljóða hennar, Ljóðaspor, kom út að Védísi látinni, sama ár.

 


Ritaskrá

  • 1993 Tímaspor