SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Valgerður Kr. Brynjólfsdóttir

Valgerður Kr. Brynjólfsdóttir fæddist 21. apríl 1956.

Fyrstu árin bjó Valgerður á Bíldudal við Arnarfjörð en flutti á unglingsárum til Reykjavíkur þar sem hún gekk í Kvennaskólann í Reykjavík og síðar Verzlunarskóla Íslands. Valgerður tók stúdentspróf frá Öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð 1990, lauk B.A.-prófi í íslensku 1993 og M.A.-prófi í íslenskum bókmenntum frá Heimspekideild Háskóla Íslands árið 2004.

Valgerður vann við ýmis störf hjá Stofnun Árna Magnússonar frá 1993 til 2004. Frá árinu 2005 hefur hún rekið ferðaþjónustu með fjölskyldu sinni á Leirubakka í Landsveit.

Valgerður hefur skrifað greinar um bókmenntir og þjóðlegan fróðleik, m.a. tímaritsgrein í Skírni (2005) endurpr. í bókinni Gangandi íkorni [og] næturluktin (2006), í Fornaldarsagornas struktur och ideologi (2003) og í Goðastein (2011).

Haustið 2020 gaf Valgerður út ljóðabókina Öldufax, sjónarrönd af landi og hefur hún áður birt ljóð í tímaritum, t.d. Tímariti Máls og menningar (2019) og Són (2012, 2015).

Valgerður er gift Anders Hansen.


Ritaskrá

  • 2020 Öldufax, sjónarrönd af landi