SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir30. maí 2019

ÖRLAGASAGA MÓÐURÆTTAR. Auðna

Anna Ragna Fossberg. Auðna. Reykjavík: Bókabeitan 2018, 309 bls.

Auðna (2018) er fyrsta skáldverk Önnu Rögnu Fossberg Jóhönnudóttur og er byggð á sögu móðurættar hennar. Anna Ragna sagði í útvarpi frá aðdraganda þess að hún hóf að skrifa þessa bók. „Ég byrjaði á því eftir námið mitt. Ég ákvað að taka því rólega og fara að sinna henni Helgu Fossberg, móðursystur minni sem var í raun móðir Rögnu Fossberg frænku minnar,“ segir Anna Ragna. „Þar sat ég löngum stundum með henni. Hún var orðin gömul kona og við höfðum svo fá umræðuefni en hún hafði verið svo málglöð þegar ég var krakki.“ Anna Ragna fór þá að spyrja gömlu konuna út í fortíðina og fá hana til að rifja upp sögurnar sem hún hafði heyrt sem barn. „Ég fór að gera mér grein fyrir því hvað þetta væru dýrmætar sögur og þær myndu hverfa með henni. Þannig að ég fór að skrifa þær niður og smám saman urðu þær að þessari bók,“ segir Anna Ragna (Segðu mér, Rúv 24.11.2018).

Á vef Mannlífs frá 20. febrúar 2019 er fjallað um kynferðisofbeldi í skáldsögum 2018 og þar segir meðal annars: „Í bókinni Auðnu, fjallar Anna Ragna Fossberg um sögu kvenleggs móðurfjölskyldu sinnar. Þetta er margslungin örlagasaga og þar er lýst kynferðisofbeldi gegn fatlaðri konu og barni. Fatlaða konan er móðursystir Önnu Rögnu, Auðna, sú sem bókin er nefnd eftir. Á leið heim úr boði hjá hálfbróður sínum í Kaupmannahöfn er henni nauðgað af manni sem býðst til að fylgja henni. Þarna kristallast varnarleysi fatlaðs fólks í samfélagi okkar og virðingarleysi gagnvart þeim sem persónum og manneskjum. Líklega muna margir sem nú eru komnir á miðjan aldur hvernig oft var haft að leik að gera lítið úr fötluðu fólki og jafnvel gefið til kynna að það ætti að vera þakklátt fyrir að einhver gæti hugsað sér að neyða það til kynlífs. Anna Ragna segir einnig frá óviðeigandi hegðun föður síns inni á æskuheimilinu og áreitni hans gagnvart henni þegar hún var barn. Systkini hennar hafa mótmælt frásögnum hennar (DV, 3.11.2018) en það er alþekkt að börn alin upp á sama heimili hafi upplifað mjög mismunandi hluti. Aldursmunur getur skipt sköpum og aðstæður í lífi foreldranna ráðið miklu um hvers konar andrúmsloft ríkir. Það útlokar aldrei að kynferðisofbeldi hafi átt sér stað að segja að ekki allir er umgengust tiltekinn mann hafi sömu reynslu af honum. Sumir kynferðisbrotamenn velja þolendur af kostgæfni og áreita kannski aðeins eitt barn meðan aðrir ná að misbjóða tugum.“

Óhætt er að segja að sagan sé viðburðarík, margir koma við sögu og örlögin margslungin. Frásögnin teygir sig aftur til miðrar nítjándu aldar og fram til vorra daga. Þetta er saga af sterkum konum sem standa af sér storma og él en líka saga samfélags fyrri tíma þar sem fíkn og ofbeldi var þaggað niður.

 

 

 

 

Tengt efni