SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 3. janúar 2020

AF SPJÖRUN OG KYNGERVI. Systa

Vigdís Grímsdóttir. Systa. Bernskunnar vegna. Reykjavík: Benedikt 2019, 256 bls.

 

Lipur og ljúfur texti

Sagan um Systu – bernskunnar vegna er afar vel skrifuð og rennur lipur textinn ljúflega ofan í lesandann. Hún er ennfremur vel uppbyggð; þessum rúmu 250 síðum er skipt upp í níu bækur og bókunum aftur í mjög stutta kafla. Þessi uppbrot á framvindunni gera sögukonunni betur kleift en ella að flakka fram og tilbaka um ævina svo að vel sé.

Sigrún Sveinbjörnsdóttir

Sagan um Systu fjallar um Sigrúnu Sveinbjörnsdóttur, fædda 19. júni árið 1946. Systa segir söguna en Vigdís Grímsdóttir rithöfundur stýrir pennanum. Sigrún ákvað ung að verða kennari líkt og faðir hennar og lauk hún kennaraprófi árið 1966. Síðan nam hún uppeldisfræði og sálfræði í Gautaborg og útskrifaðist með meistarapróf í sálfræði 1975, með skólasálfræði sem sérsvið. Árið 2001 lauk Sigrún doktorsprófi frá Melbourne í Ástralíu.

Sigrún hefur starfað sem sálfræðingur allt frá árinu 1976, meðal annars á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi og í málefnum fatlaðra auk þess að sinna almennum sálfræðistörfum. Á árunum 2001-2016 starfaði hún við Háskólann á Akureyri, fyrst sem lektor, síðan dósent og að lokum prófessor í sálfræði með megináherslu á þroska- og námssálfræði. Frá 2016 hefur Sigrún sinnt rannsóknum og sálfræðiráðgjöf á eigin stofu.

Ef Sigrúnu er gefið orðið þá kynnir hún sig á þessa leið: „Ég hef alltaf unnið með börnum; ég er kennari og sálfræðingur og hef numið það sem best ég kann af börnum og vitkast mest af þeim.“ (11)

Spjörun

Sigrún hefur unnið afar mikilvægar þvermenningarlegar rannsóknir á líðan unglinga. Þess sér stað í bókinni þar sem samfara einlægri frásögn hennar af uppvexti sínum og uppátækjum er fræðileg nálgun á spjörun unglinga og bjargráð. Systa segir meðal annars frá rannsókn sem hún gerði á Íslandi, í Ástralíu og á Fídjieyjum sem leiddi í ljós að spjörun unglinga, hvernig þeir spjara sig, er óháð menningu og lífskjörum. Það sé því engin tilviljun hvernig við bregðumst við og spjörum okkur heldur fylgjum við lögmálum tegundar okkar:

 

BJARGRÁÐIN ERU ÞRENNS KONAR:

1. Að leita aðstoðar annarra.

2. Að hlúa að sér bæði andlega og líkamlega.

3. Að halda ró sinni og dreifa huganum.

 

SKAÐRÁÐIN ERU TVENNS KONAR:

1. Að grufla og dvelja við vandann án þess að leita lausna.

2. Að leita sér útrásar með meiðandi hætti, svo sem að skemma, slást, meiða, drekka, deyfa. (bls. 144)

 

Þessi spjörun gengur eins og rauður þráður í gegnum bókina alla; Systu er mjög í mun að koma því á framfæri með ýmsum dæmum, úr eigin lífi og annarra, hversu mikilvæg öll umgerð barna er og brýn þörfin á leiðbeinandi uppeldi. Þeim mun betur sem uppaldandi stendur sig í að leiðbeina barninu þeim mun líklegra er að barninu takist að leysa ágjafir lífsins á fullorðinsaldri. Það læri börnin sem fyrir þeim er haft.

Mannbætandi lesning

Þessi vísdómur, studdur fjölda rannsókna, gerir einn og sér það vel þess virði að lesa bókina. Þetta er mannbætandi lesning. Það er þó enginn predikunartónn í bókinni. Fræðslan er vandlega dulbúin í einlæga frásögn af uppátækjasamri stúlku sem elst upp á stóru og kærleiksríku heimili. Því fer þó fjarri að Systa þykist hafa bjargráðin á hreinu í sínum uppvexti og þrátt fyrir umhyggjusamt umhverfi lendir hún í ýmsu mótlæti sem mótar hana og fylgir alla tíð.

Kyngervi

Það vekur athygli að Systa leikur sér nokkuð með kyngervi í bókinni, þar sem hún fjallar um foreldra sína. Á einum stað segir hún um pabba sinn „sú ljúfa kona sem hann var“ (61) og kynning á Þriðju bók hefst svo: „Hér segir aðallega frá konunni honum pabba mínum og bernskusögum hennar auk þess sem sögur af karlinum henni mömmu minni líða hjá...“ (63)

Systa útskýrir þennan umsnúning í kaflanum Af konu og karli þannig að þegar hún horfi til baka, þegar litrík hugtök eins og kyngervi þekktust ekki, finnist henni að pabbi hennar hafi alltaf verið kona og mamma hennar karl. Þannig hafi þau einfaldlega verið, bæði í æði og athöfnum. (84) Þetta áréttar Systa í hugsunum sínum sem sækja á hana þegar mamma hennar svæfir börnin, sem gerist einungis einu sinni í mánuði og í mikilum snarheitum:

Hún mamma er svo falleg, stór og sterk og ég veit að hún getur allt nema eitt, hún getur ekki verið pabbi, því miður. Hún er karl. Mikið vildi ég óska þess að pabbi væri heima hjá okkur allan daginn og gerði konuverkin en mamma færi í vinnuna í karlaverkin og kæmi heim á kvöldin. Það væri alveg einsog það ætti að vera, en þannig er það ekki, því miður. (85)

Systa lýsir svo sjálfri sér sem strákastelpu í kjól þar sem hún gefur strákunum í hverfinu ekkert eftir. Þá er hún að vandræðast á ung

lingsárum með eigið kyngervi þar sem líkamlegur þroski vill láta á sér standa og henni líður um tíma eins og hún sé hvorki stelpa né strákur. (226) Þarna eru á ferð skemmtilegar hugleiðingar unglingsstúlku í umhverfi þar sem kynfræðslan er nær engin.

Falleg og fróðleg

Systa – bernskunnar vegna er hispurslaus, falleg og ekki hvað síst fróðleg frásögn af uppvexti sögukonunnar. Einlæg frásögnin er sumpart fjörleg og á stundum átakanleg, eins og lífið sjálft. Eini ljóðurinn er að hún hefði vel mátt vera lengri.