SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir15. apríl 2019

SAMTÍMINN KRUFINN FRÁ SJÓNARHÓLI KVENNA. Dís

Birna Anna Björnsdóttir, Oddný Sturludóttir og Silja Hauksdóttir. Dís. Reykjavík: Forlagið 2000.

Skáldsagan Dís er skrifuð að þremur ungum konum, gerist í sumarið 2000 og lýsir lífi ungrar Reykjavíkurdísar sem býr á Laugaveginum, er „svona hálftýnd og hálffundin í einu,“ eins og hún orðar það sjálf (bls. 116). Dís lifir sem sagt í einhvers konar millibilsástandi, getur ekki gert upp við sig hvað hún á að vera og hvað hún á að gera, upplifir sig sem „meðalmanneskju í tilvistarkreppu“ (bls. 115) og finnst fátt ömurlegra í þjóðfélagi þar sem allir eiga að meika það á öllum sviðum og geta ekki orðið hamingjusamir fyrr en þeim áfanga er náð.

Á mörgum stöðum í bókinni er að finna skemmtilegar, beittar lýsingar á þeim væntingum og kröfum sem unga fólkinu finnst að gerðar séu til þeirra í samfélagi þar sem efnishyggjan ræður ríkjum, og ekki síður skemmtilegar lýsingar á því hvernig raunveruleikinn stangast á við vonir og væntingar þeirra sjálfra sem nýlega haft hleypt heimdraganum og eru farnir að sjá um sig sjálfir.

Sumarið 2000, þegar jarðskjálftar skóku Suðurland og Geysir gaus, er viðburðaríkur tími í lífi Dísar, vinkvenna hennar og vina; tvær vinkvennanna trúlofast, sú þriðja verður ólétt, krosstré bregðast og önnur veigaminni standa sig og ýmislegt óvænt kemur uppá eins og vera ber í skáldsögu – eða eins og Harpa, frænka og sambýliskona Dísar, orðar það í upphafskafla bókarinnar, þá spinna örlögin persónunum „magnaðan vef ótrúlegra atburða“ (bls. 8) í rás sumarsins. Frásögnin er haganlega saman fléttuð og lipurlega skrifuð, þó virka ýmsar vendingar undir lok sögu dálítið ævintýralegar og á skjön við þá raunsæisfléttu sem frásögnin byggist á. Stíllinn er byggður á talmáli, er raunsæislegur og blátt áfram, enda varla hægt að krefjast persónulegrar eða nýskapandi úrvinnslu á tungumáli þegar um texta er að ræða sem skrifaður er í samvinnu þriggja aðila.

Þetta er fjörlega skrifuð bók, sprottin beint upp úr samtíma kynslóðarinnar sem er rúmlega tvítug um aldamótin og ekki efa ég að hér er um sannferðuga lýsingu á þeirri kynslóð að ræða. Það sem vekur hins vegar athygli mína er hversu lítið hlutirnir hafa í raun breyst, a.m.k. ef litið er yfir síðustu tvo til þrjá áratugi. Lýsingin á móralnum í MH og á samræðum vinkvennanna, partýjunum o.fl. gætu allt eins verið lýsingar á því sem undirrituð upplifði á sínum menntaskóla og eftir-menntaskólaárum. Þetta virðist þó þeim sem bókina skrifa ekki ljóst því mikið er gert úr kynslóðabili og breyttum aðstæðum. Kafli eins og þessi kemur mér vægast sagt undarlega fyrir sjónir:

 

   Nei Harpa, spáðu aðeins í hvað tímarnir eru breyttir, tökum til dæmis okkur og mæður okkar. Hvað heldurðu að mamma þín hafi verið búin að sofa hjá mörgum þegar hún gifti sig?
   Engum.
   Nákvæmlega, eins og mamma mín. En í dag er ekkert óalgengt að stelpur á aldrinum tuttugu til þrjátíu ára séu búnar að sofa hjá tíu til sextíu manns. Það er tíu til sextíuföld aukning!” (bls. 29)
 

 

Glætan! Trúa ungar konur í dag því virkilega að mæður þeirra hafi verið hreinar meyjar á brúðkaupsdaginn?

Á öðrum stað segir:

 

Þegar mamma var ung lá í augum uppi að staða kvenna var verri en karla. Þær höfðu greinilega lægri laun, gekk greinilega verr að hasla sér völl í atvinnulífinu og höfðu greinilega minni réttindi en karlar. Að berjast fyrir því að afnema allt þetta var augljóslega þarft verk. Núna er misréttið bara ekki jafn greinilegt. Til þess að vera meðvituð kona […] þarf maður geðveikt að vera á verði til að skynja þegar manni er mismunað vegna kynferðis. (128)

 

Hér er kynslóðarbilið kannski augljóst því þær konur sem eru komar á fullt í atvinnuþátttöku vita að laun kvenna og tækifæri til þess að hasla sér völl eru greinilega ennþá langt frá því sem karlar búa við og það þarf síður en svo „geðveikt að vera á verði til að skynja” mismuninn (og mismununina) – því miður.

Bókin sver sig opinberlega í ætt við við bók Hallgríms Helgasonar (sem er ekki mikið yngri en foreldrar persóna verksins) 101 Reykjavík. Hér er miðbæjarlífi unga fólksins lýst út frá sjónarhóli ungu konunnar sem túlka má sem nokkurs konar svar eða mótmynd við Hlyn Björn (þótt hann sé reyndar tíu árum eldri) og höfundar herma eftir eða vísa í stíl Hallgríms með klausum eins og þessari:

 

…ég [er] búin að setja gamla og góða vínylplötu á fóninn, ligg á stofugólfinu og syng hástöfum með Tammy Wynette, Stand By Your Man. Blessuð sé minning hennar.

Stand by your man? Hvaða manni? Sýndu mér mann og ég skal standa við hliðina á honum. Ég á örugglega eftir að standa við hliðina á manni í kvöld. En kannski ekki með honum. Nema honum standi. (bls. 157)

 

Lesendur Hallgríms kannast við orðaleikja-hugrenningatengsla-stíl hans hér. Reyndar má segja að Dís (bókin) sé í virkri samræðu við fleiri karlabækur síðustu ára og áratuga, til að mynda hefst frásögnin á því að staðsetja Dís í ákveðið hverfi borgarinnar (Bústaðahverfið) – líkt og gert er í fyrstu bókum Einars Más og fleiri karlhöfunda – áður en hún tekur stefnuna niður í miðbæ.

Lýsingin á Dís, hennar sjálfsleit og tilvistarkreppu er mjög lifandi og sannfærandi og ákaflega kunnugleg (jafnvel fyrir þá sem eldri eru!). Efnishyggju- og framadraumarnir hafa verið lengi við lýði í íslensku samfélagi: eiginmaður, börn, einbýlishús, jeppi, verðbréf – og frami í starfi, þetta hefur vafist fyrir fleiri kynslóðum kvenna en þeirri sem nú er á þrítugsaldri:

 

Allir eiga að fara í skóla og læra eitthvað skapandi og áhugavert sem gefur líka vel af sér. Allir eiga að skoða heiminn, tala minnst þrjú tungumál reiprennandi, búa erlendis í einhver ár og ferðast jafnframt á fjarlægar og framandi slóðir. Þegar fólk er komið með gráðu, eða búið að ákveða hvað það ætlar að verða þegar það er orðið stórt, komið langt á fertugsaldur, má það koma heim til Íslands. Stofna fjölskyldu og fyrirtæki og fara að græða peninga. Stuðla að hagvexti og blómlegu menningarlífi, lifa heilbrigðu og umhverfisvernduðu lífi, flokka rusl og skokka. Vera sítengt við netið og meðvitað um stöðu heimsmála. Stunda líkamsrækt reglulega og nýta sér útivistarmannvirki Reykjavíkur. Vera smart til fara og kíkja á myndlistarsýningar á sunnudögum. Grilla úti og gefa til góðgerðarmála. Eiga tvo bíla (glænýjan stallbak og slyddujeppa), stóran ískáp, tvö sjónvörp, uppþvottavél, heimabíó, Rainbowryksugu og brauðgerðarvél. Nýta sér heimilisþjónustu bankanna, vera áskrifandi að spariskírteinum og kaupa hlutabréf í traustum, erlendum verðbréfasjóðum. Spara til elliáranna og vera meðvitað um stjórnmál.

Ef þessi atriði eru á hreinu, geta lífsgráðugir meðlimir minnar kynslóðar skilgreint sig hamingjusama. En ekki fyrr. (bls. 13)

 

Frábær er lýsingin á því þegar Dís skýtur sér á síðustu stundu undan því að brúðarvöndur frænku hennar hafni í fanginu á henni. Þegar umræddur vöndur stefnir óðfluga á hana sér hún líf sitt renna sér fyrir hugskotssjónum, eins og sagan segir að gerist á dauðastundu einstaklingsins (bls. 144) og hún hoppar hæð sína til hliðar. Sýn höfunda á samfélagið, samskipti kynjanna og sjálfsleitina er skemmtilega íronísk og mjög fyndin á köflum, þótt vissulega megi einnig finna alvarlegan undirtón í frásögninni. Sem sagt, afar læsileg og skemmtileg lýsing á nútímanum.


  

Ritdómurinn birtist í Morgunblaðinu, 31. okt. 2000.